Fyrsti áfanginn kostaði 25 milljónum meira en áætlað
Lokaskýrsla um smáhúsaverkefnið við Hákotstanga var lögð fram í velferðarráði Reykjanesbæjar á dögunum. Þar kemur fram að fyrsti áfangi verkefnisins fór um 25 milljónir króna fram úr upphaflegri fjárveitingu. Það gera um 50% fram úr áætlun.
Verkefninu var upphaflega ætlað 50 milljón króna fjármagn, en heildarkostnaður nam 75,3 milljónum. Þar af fóru 16,4 milljónir í lóðarframkvæmdir, 58,1 milljón í smíði húsanna og tæpar 0,7 milljónir í innbú og húsgögn. Hluti hallans, 16,15 milljónir króna, var færður inn í lokauppgjör 2025.
Smáhúsin eru ætluð íbúum með fjölþættan vanda og var markmið starfshópsins að finna hentuga staðsetningu, ákveða stærð og tegund húsa, greina haghafa og ræða við þá, ásamt því að gera greiningu á nauðsynlegri stuðningsþjónustu og framkvæmd hennar.
Í bókun velferðarráðs segir að starfshópurinn hafi sinnt verkefnum sínum vel og fær þakkir fyrir unnin störf. Þar er jafnframt undirstrikað að verkefnið sé mikilvægt úrræði til að bæta búsetuskilyrði viðkvæms hóps í samfélaginu.






