Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Video: Sjálftakan er ekki ásættanleg
Fimmtudagur 27. nóvember 2008 kl. 16:56

Video: Sjálftakan er ekki ásættanleg




Sú alvarlega líkamsárás sem varð við Njarðvíkurskóla fyrir síðustu helgi vakti mikinn óhug hjá almenningi. Þrír fimmtán ára drengir réðust þar á skólafélaga sinn með miklu ofbeldi og var myndskeið af árásinni sett á netið.

Þá  sló fólk óneitanlega hve hlutaðeigandi eru ungir og hve ofbeldisfull árásin var.

Drengirnir, sem þarna áttu hlut að máli, hefur verið vísað úr skólanum og er mál þeirra til meðferðar hjá þar til gerðum yfirvöldum. Lögreglurannsókn stendur yfir en málið er talið varða við 218. grein hegningarlaga þar sem um sérstaklega hættulega líkamsárás var að ræða með spörkum í höfuð, bak og kvið fórnarlambsins.

Ýmsar spurningar vakna upp við atvik sem þetta. Víkurfréttir ræddi við Gylfa Jón Gylfason, yfirsálfræðing Reykjanesbæjar, og Guðmundu Láru Guðmundsdóttur, skólastjóra Njarðvíkurskóla.


Gyfi Jón Gylfason, sálfræðingur:

„Það fer eftir því hvernig unnið er úr svona málum, svaraði Gylfi aðspurður um hvaða áhrif slíkur atburður hefði á nærsamfélagið,
 „Auðvitað er hræðilegt að standa frammi fyrir því að svona lagað geti gerst en fyrst og fremst þarf að vinna úr þessu þannig að allir standi í báða fætur eftir þetta.
Ég er þeirrar skoðunar að þessi sjálftaka, að halda að það megi leysa úr ágreiningsmálum með ofbeldi, þetta er eins og krabbamein íslensku þjóðfélagi. Við sjáum þess merki víða. Ég sé ekki betur en að nú verði fólk að taka höndum saman og vinna þannig úr því og stimplum það inn að ofbeldi er ekki ásættanleg lausn í  ágreiningsmálum, sama hvort það er á milli barna, unglinga eða fulliorðinna,“ segir Gylfi.
 

Hvernig ætti þá að vinna úr því og koma þessum skilaboðum til skila?

„Í því sambandi held að það sé ráð að líta til þess hvernig eldri nemendur í Njarðvíkurskóla hafa tekið á málinu. Þau hafa skoðað og spurt fyrir hvað þau standa. Þau eru stolt af því að vera nemendur skólans og samþykkja þar af leiðandi ekki svona háttarlag.“

Hvað skýrir þessa hegðum?

„Það er þessi sjálftaka  - að halda að ágreiningsmál megi leysa  með ofbeldi. Hvaðan þetta er komið inn í íslenskt samfélag er ekki gott að segja. En þetta er þekkt fyrirbæri í menningarkimum, t.d. meðal glæpagengja í útlöndum og svo framvegis. Kannski er einhvers konar eftirherma af því í gangi.“

Sumir tala þar um kvikmyndir og tölvuleiki, sem margir hverjir innihalda mjög gróft ofbeldi?

„Það er rétt. Þarna þurfa heimilin virkilega að vinna með skólunum og með okkur sem vinnum að forvörnum og ræða þetta við börnin sín.
Þetta atvik er ekkert annað en harmleikur og það þarf umfram allt að vinna úr þessu þannig að hlutaðeigandi eigi afturkvæmt í samfélagið. Þá er ég bæði að tala um þolendur og gerendur.  Ég hef stundum líkt þessu við það þegar krakki gerir mistök þegar maður er að kenna honum,  þá auðvitað leiðréttir maður mistökin og þjálfar barnið í því að endurtaka þau ekki.“

Fólk er mjög slegið yfir þessu atviki og sumir jafnvel reiðir. Við þær kringumstæður kunna sumir að draga sínar ályktanir. Maður heyrir t.d. að börnin í skólanum óttast um orðspor hans?

„Það auðvitað gengur ekki að álykta og gera nemendum upp eitthvað út frá einu atviki. Ég veit sem yfirsálfræðingur í bæjarfélaginu að það hefur verið unnið mjög gott starf til margra ára í Njarðvíkurskóla. Því verður auðvitað haldið áfram þrátt fyrir að þetta hafi komið uppá.  Þetta atvik gefur alls ekki til kynna að það ríki einhver óöld í skólanum, heldur þvert á móti.
Ég sá reyndar inn á barnalandi.is að foreldrar þolandans segja m.a. að þeir óski öllum sem málið varðar alls hins besta, einnig gerendunum og fjölskyldum þeirra. Við ættum að hafa þá virðingu að leiðarljósi og reyna landa þessu þannig að við lámörkum skaðann. Það er hægt að draga lærdóm af svona atviki og nýta það sem tækifæri til að byggja upp betra samfélag.“

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

- sjá einnig Vefsjónvarp Víkurfrétta