Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Við viljum ekki vera sólblóm í skuggabeði
Þriðjudagur 23. maí 2017 kl. 11:22

Við viljum ekki vera sólblóm í skuggabeði

- Eydís Henze, íbúi í gamla bænum

Eydís Henze flutti fyrir nokkru í gamla bæinn þar sem hún býr með eiginmanni sínum Guðmundi Bjarna Sigurðssyni og fjórum börnum. Hún segir staðarblæinn þar einstakan og ævintýralegan enda búi þar fólk sem hefur það að lífsviðurværi sínu að hugsa út fyrir kassann.
 
Hvernig miðbæ vilt þú sjá? og af hverju?
„Ég vil að sjálfsögðu sjá öflugri og meira lifandi miðbæ og mig grunar að allir sveitungar mínir deili þeirri skoðun með mér. Við þekkjum það vel þegar við ferðumst til annarra bæja, innanlands eða utan, hvað það er gaman að vera á miðbæjarsvæði þar sem hlutir gerast. Þar sem hægt er að setjast niður og fylgjast með mannlífinu. Systir mín sem hefur lagt stund á kandídatsnám í ferðamálafræðum við Kaupmannahafnarháskóla talar oft um staði sem viðburðarríka og hins vegar staði með viðburðum. Viðburðarríkir staðir eiga það alla jafna sameiginlegt að vera hannaðir þannig að fólk geti auðveldlega safnast saman, ungir jafnt sem aldnir og í kjölfarið myndast ákveðnar forsendur til þess að menningin vaxi. Staðir með viðburði hafa ekki þessa lífrænu hvata til að þroska menninguna og mannlífið - það þarf sífellt að stýra allri menningu. Mér finnst Reykjanesbær vera gott dæmi um það síðara: Hér er ógrynni af söfnum. En það eru fáir á ferli og menningarstarfið hefur því ekki eins lífrænan farveg og ella. Við höfum engin torg, ekkert eiginlegt miðbæjarsvæði sem er laust við bílaumferð. Síðasta sumar fórum við fjölskyldan til Ítalíu og þar iðaði allt af mannlífi, meira að segja í litlu fjallaþorpunum því þar voru torg eða piazza. Það voru veitingahús við torgin en líka bekkir þannig að fólk gat tyllt sér og börnin hlupu um og léku sér. Það var dásamlegt og maður hafði á tilfinningunni að allt gæti gerst, hvað úr hverju. Öflugri miðbær getur veitt svo mörgum meiri gleði og við getum verið stoltari af umhverfinu okkar. Sem sálfræðinemi verð ég að slá því föstu að þau rök fyrir slíkri uppbyggingu eru góð og gild. Meiri gleði takk!“.
 
Hvers vegna valdir þú þessa staðsetningu þegar þú keyptir þér hús, af hverju viltu búa í þessu hverfi?
„Það eru svo ótal margar ástæður fyrir því og þar held ég að þær flestar vegi jafn þungt. Sem íbúi í gamla bænum ertu í návígi við allt nema þennan misheppnaða miðbæ sem átti að byggja upp í Krossmóanum. Mér finnst yndislegt að heyra í fólki seint á laugardagskvöldi vera að rölta áleiðis á skemmtistaði bæjarins, að vera svona mikill hluti af Ljósanæturhátíðinni og að vita af bæði ferðamönnum og heimamönnum rölta hérna um og virða fyrir sér húsin og söguna. Möguleikarnir á menningartengdri uppbyggingu hérna eru líka svo margir og ég bíð alltaf spennt eftir að eitthvað meira gerist í þeim málum, að svæðið opnist meira og að það myndist alvöru miðbæjarkjarni hérna. Og svo leikur enginn vafi á því að hérna í gamla bænum býr rétta fólkið, bæði til að taka þátt í menningartengdri uppbyggingu en líka fólk sem mun njóta hennar og elska að hafa þetta líf í kringum sig. Ég hef aldrei á ævinni kynnst svona hverfi og vissi hreinlega ekki að þau væru til á Íslandi, staðblærinn í hverfinu er ævintýralegur. Það er kannski líka vegna þess að hérna er svo mikið af fólki sem hefur það að lífsviðurværi sínu að hugsa út fyrir kassann, hugsa upp nýja nálgun og lausnir, vera skapandi. Svo er það sagan í hverfinu og ég held að það sé einhver taug innra með mér sem vil þakka Keflavík fyrir að hafa tekið svona vel á móti mér þegar ég flutti hingað sem unglingur og þess vegna vil ég taka þátt í að varðveita og þróa söguna. Svo er líka betra veður hérna og þeir greinilega vissu það sem námu hérna land að þetta væri besti bletturinn. Engir aukvisar sem voru hér á ferð.“
 
Hvað finnst þér að bæjaryfirvöld eigi að hafa í huga við skipulag?
„Fyrst og fremst að hafa skipulagsvinnuna þverfaglegri. Við það eru mun meiri líkur á að hægt verði að sameina ólík sjónarhorn og þarfir gesta og íbúa. Á undanförnum árum og áratugum hafa hugfræði og aðrir angar sálfræðinnar komið mjög sterkir inn í hönnun og skipulag umhverfis. Upplifun er t.d. alveg jafn mikilvægur hluti skipulags og allir aðrir þættir. Ef við tölum t.d. um uppbyggingu á SBK-reit og Fischers-reit þá verð ég að játa að mér finnst vanta heildræna framtíðarsýn. Ef við skoðum það útfrá þessu lífræna ferli eða hugmyndinni um viðburðarríka staði þá sjáum við strax að þetta eru þau svæði sem ferðamenn hafa í rauninni merkt sem miðbæ og heimamenn líka. Smábátahöfnin og Duus húsin eru þarna sem menningarmiðstöðvar. Það er grasbali þar sem hátíðarhöld fara fram. Fólk fer á Ungó og fær sér ís. Hvers vegna? Sjórinn trekkir að og sú uppbygging sem hefur átt sér stað á svæðinu virkar að einhverju leyti. Mér er fyrimunað að skilja ástæður þess að við ætlum að draga í land og fylla SBK-reitinn af pínulitlum íbúðum. Líkurnar á því að sú íbúasamsetning sem myndast þar muni leggja eitthvað af mörkum í uppbyggingu miðbæjar eru nær engar. Fólk staldrar stutt við í litlum íbúðum og umgengst svæðið í takt við það. Hví ekki íburðarmeira húsnæði sem fólk býr lengi í, það tengist svæðinu og verður virkara í uppbyggingu? Eða blönduð byggð þjónustu og íbúðahúsnæðis? Þannig geta reitirnir tveir kallast á og myndað heildstæðan kjarna við Duus svæðið og sjóinn. Ég tala nú ekki um ef bílaumferð er beint annað á sumrin. Það er vel þekkt staðreynd að ef þú vilt hindra mannlíf, verslun og uppbyggingu í miðbæ þá skaltu hafa bílaumferð. Ef þú vilt efla mannlif, verslun og uppbyggingu í miðbæ skaltu afmarka bílaumferð.
 
Getum við svo ekki bara farið að tala saman hérna, íbúar, ýmsar fagstéttir, hagsmunaaðilar og stjórnendur í sveitarfélaginu? Lýðræði er líka samtalið, ekki bara að gefa fólki kost á að svara já eða nei við spurningu og kynna þær hugmyndir sem eru á teikniborðum þeirra sem ráða og sem svo má koma með athugasemdir við. Svo er tónninn bara oft, eða það er a.m.k. mín skynjun: „Sorrí, athugasemdirnar eru ekki nógu góðar“ eða „Sorrí, það voru bara 4% bæjarbúa sem greiddu atkvæði í ráðgefandi sýndarkosningu.“ Hverjir kunna líka að gera marktækar athugasemdir við skipulagsbreytingum? Og ef lífið gerist hjá manni á þeim tíma þá er allt bara vonlaust og þér að kenna að það sé ekki íbúalýðræði, þú ert ekki nógu virkur. Þetta er vanvirðing við íbúa sem hafa ákaflega fá raunveruleg tækifæri til að móta framtíð sveitarfélagsins. Sveitarfélagið hefur ekki nógu skýra sýn á hvernig samfélag við viljum byggja upp. Við þurftum svolítið að byrja upp á nýtt þegar Kaninn og kvótinn fóru. Þá verða ákvarðanir oft illa ígrundaðar og í einhverri örvæntingu áttum við að verða Detroit Íslands með ég veit ekki hvað margar gerðir af mengandi stóriðju við bæjardyrnar og miðbæ í Krossmóa. Það vita það allir sem hafa ræktað garð að ef þú ert ekki með réttan gróður fyrir ræktunarskilyrðin í þínum garði þá eyðir þú tíma þínum og peningum í að berjast við að halda lífi í hálfdauðum plöntum sem aldrei verður eitthvað úr. Gefst svo upp að lokum og helluleggur draslið. Mér finnst við Keflvíkingar vera að átta okkur á því að við viljum ekki vera sólblóm í skuggabeði í Sunny Kef.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024