„Við erum hliðið að Íslandi“
Reykjanesið hefur ekki farið varhluta af auknum fjölda ferðamanna sem koma hingað til lands. Að sögn Þuríðar Aradóttur Braun, verkefnisstjóra Markaðsstofu Reykjaness, hefur verið mikil aukning á ferðamönnum yfir vetrartímann. „Nýting á gistirýmum í nóvember síðastliðnum fór fram úr björtustu vonum,“ segir hún. „Yfir heildina eru ferðamenn líka farnir að stoppa lengur en eina til tvær nætur hér á svæðinu. Reykjanesið er ekki lengur aðeins stoppistöð fyrir og eftir flug.“
Gistiheimilum fjölgar
Á Reykjanesi eru um 800 herbergi á hótelum og gistiheimilum með um 2000 rúmum. Þuríður segir stöðum sem hafa skráð sig sem heimagistingu einnig vera að fjölga mikið og að mjög jákvætt sé að fólk hafi slík viðskipti uppi á borðum. „Færri hótelrými hafa bæst við hérna en aftur á móti hefur gistiheimilum fjölgað. Hér eru 70 gististaðir og af þeim eru 13 hótel. Hótelin eru mjög fín og sömuleiðis gistiheimilin. Á mörgum þeirra er þjónustan líkari því sem gerist á hótelum.“ Þuríður segir flóru kaffihúsa og veitingastaða einnig blómstra með ferðamönnum og af því njóti fólk á svæðinu góðs. „Það eru margir ferðamenn á gangi á Hafnargötunni í Reykjanesbæ og því hafa fleiri veitingastaðir verið opnaðir. Það sama hefur gerst í Grindavík. Þar er hótel og ferðamenn leita að annarri þjónustu sem hefur smátt og smátt sprottið upp.“
Margir í dagferðir um Reykjanesið
Þuríður segir mikla gerjun í gangi á öllum sviðum ferðaþjónustunnar á Reykjanesi. „Það örlar á smá vaxtarverkjum sem er kannski bara lúxusvandamál.“
Hún segir yfir heildina vera mjög gott hljóð í forsvarsfólki ferðaþjónustufyrirtækja. „Fyrirtæki hafa verið að feta sig áfram með að bjóða upp á dagsferðir um svæðið. Mörg þeirra hafa fengið góða dóma og hafa meir en nóg að gera. Ég hef einnig heyrt það frá ferðaþjónustuaðilum á höfuðborgarsvæðinu að mjög mikið af nýjum ferðum sem þeir eru að selja séu á Reykjanesið. Oft eru þetta dagsferðir þar sem ferðamenn vilja upplifa óbyggðir nærri höfuðborgarsvæðinu. Þá er vinsælt að fara að Kleifarvatni, um Krísuvík, að Gunnuhver og Valahnúk. Þá snæðir fólk gjarna hádegismat í Grindavík en kvöldmat í Sandgerði eða Reykjanesbæ. Svo er algengt að ferðamenn ljúki dagsferðum í Vogum eða Garð í von um að ná að skoða norðurljós eða kvöldsólina.”
Undanfarin misseri hefur verið unnið að því að kynna Reykjanesið sem ákjósanlegan áfangastað ferðamanna og segir Þuríður það taka tíma að ná eyrum ferðaþjónustuaðila. Nú sé áhugi þeirra hins vegar vakinn og því aldrei að vita nema Reykjaneshringurinn ávinni sér álíka sess og Gullni hringurinn um Gullfoss og Geysi.
Vilja dreifa ferðamönnum jafnt
Þuríður segir gríðarleg tækifæri fyrir ferðaþjónustuna á Reykjanesi og að unnið sé að því að byggja upp til framtíðar. „Dæmi um það er Reykjanes Geopark. Það er komin áætlun um þá staði sem á að byggja upp. Við höfum mikla möguleika á að taka við fleiri ferðamönnum. Við höfum þó ekki tækifæri til að taka á móti öllum því svæðið myndi ekki þola það. Með góðri skipulagningu og með því að byggja upp víða náum við að dreifa ferðamönnum um svæðið og það er takmarkið. Hér eru mikil tækifæri til náttúruskoðunar, fuglaskoðunar og til að upplifa menningu því söfnin á svæðinu eru ótrúlega vel upp sett.“
Þuríður segir hraunið á Reykjanesinu einstakt náttúrufyrirbrigði, sem og flekaskilin og hverasvæðin. Slíkt dragi fólk að svæðinu. „Það þarf líka að hugsa hvað meira getur verið í boði því þá fer fólk að skipuleggja heilu dagana á svæðinu. Núna erum við að vinna að því að finna og koma á framfæri þessum öðrum stöðum fyrir fólk að njóta.“
Aðgengi á Reykjanesi er alla jafna nokkuð gott sé miðað við landsbyggðina hvað varðar færð á vegum og segir Þuríður það koma ferðaþjónustu á svæðinu mjög til góða. „Hér eru vegir yfirleitt opnir og ekki svo snjóþungt.“
Þrátt fyrir mikla uppbyggingu tengda ferðamönnum segir Þuríður mikilvægt að gleyma ekki annarri uppbyggingu. „Það sem okkur finnst skemmtilegt, eins og til dæmis útvistarsvæði og leiksvæði, finnst erlendum ferðamönnum líka gaman að upplifa með sínum fjölskyldum. Eins það að fara í sund á morgnana og ræða málin í heita pottinum, það er eitthvað sem ferðamenn vilja líka upplifa. Ferðamennirnir vilja upplifa okkar menningu.“
Er eitthvað farið að örla á pirringi meðal Suðurnesjamanna yfir öllum þessum ferðamönnum? „Nei, ekki ennþá. Það á eftir að fara eftir umræðunni og því hvort við tölum almennt á jákvæðan eða neikvæðan hátt um þessa þróun. Við þurfum að vera dugleg að tala saman og koma því á framfæri hvernig við viljum sjá ferðaþjónustuna þróast til framtíðar. Það er mjög margt skemmtilegt við ferðaþjónustuna á Reykjanesi. Við erum hliðið að Íslandi og ekki síst að mannlífinu svo við þurfum að hugsa um hvernig við ætlum að tækla það.“