„Við brjótum ekki samninga“
-segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ í viðtali við Víkurfréttir um möguleika á íbúakosningu um væntanlegt álver í Helguvík.
Um helgina var haft eftir þér í fjölmðiðlum að íbúar RNB fái ekki að kjósa um álver í Helguvík. Könnun á vísi.is í gær sýndi að um 66% svarenda vilja að íbúar fái að kjósa um málið. Á vf.is er sömuleiðis könnun þar sem spurt er hvort íbúar Reykjanesbæjar eigi að fá að kjósa um málið og 61% svarenda svara því játandi . Báðar þessar kannarnir gefa vísbendingar um almenna skoðun. Er þá ekki ástæða til að taka til greina þessa lýðræðislegu kröfu ekki síst í ljósi þess að þið í meirihlutanum hafið talað um íbúalýðræði, og hélduð t.d. í því skyni sérstaka íbúafundi fyrir síðustu kosningar ?
„Svarið er einfalt: Það er ekki gert ráð fyrir neinum slíkum fyrirvörum í samningum okkar við Norðurál, hvorki samþykktum frá 2005, né heldur nýfrágengnum samningum. Við brjótum ekki samninga. Viðskiptalífið þarf að geta treyst því að stjórnsýslan standi við samninga sína. Það er einfalt að segja að sjálfsagt sé að leyfa íbúum að kjósa um þetta, en við sem berum ábyrgð á samningum, stöndum við samninga.
Fyrirvarar, sem um þessa samninga gilda, snúa að orkuöflun og mati á umhverfisáhrifum þeirra verkþátta sem álverinu tengjast. það er því fjöldi verkþátta og samninga við aðra, svo og lögformleg meðferð málsins, sem nú mun fara af stað og treysta má fyllilega að vandað er til verks. Það verða góðir kynningarfundir um alla þætti þessa máls. Vilji íbúa Reykjanesbæjar til álvers í Helguvík hefur komið ítrekað fram. Tvær marktækar skoðanakannanir, önnur frá upphafi árs 2006, hin frá miðju
ári 2006, sýndu yfirgnæfandi stuðning við álver í Helguvík. Staða undirbúnings hefur verið kynnt á 10 íbúafundum síðstu tvö ár og málið var gert að helsta kosningamáli eins stjórnmálaafls hér í bæ fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar. Samt er kynningarferlið varla byrjað að okkar mati. Það sem gerst hefur síðan er að við náðum samkomulagi við sveitarfélagið Garð og færðum álverið enn fjær byggð! Nú fer hið lögformlega kynningarferli af stað og það verður hlustað á allar vandaðar athugasemdir íbúa og annarra sem vilja um málið fjalla!“
Haft er eftir þér, m.a. á vefsíðu bæjarins að í álverinu í Helguvík muni skapast „1.000 - 1.100 ný, vel launuð og örugg framtíðarstörf“. Ljóst er að atvinnuleysi er í sögulegu lámarki, þrátt fyrir að svo stór vinnuveitandi sem Varnarliðið var, hafi sagt upp öllu starfsfólki við lokun varnarstöðvarinnar. Reyndar er atvinnuleysi í landinu það lítið að inn á íslenskan vinnumarkað hafa verið fluttir 1.700 erlendir ríkisborgarar til starfa. Í ljósi þessa hlýtur að vakna sú spurning hvert álverið muni sækja vinnuafl. Þýðir þetta ekki í raun að álverið verði mannað með erlendu vinnuafli að miklum hluta?
„Sem bæjarstjóri í Reykjanesbæ hitti ég tugi íbúa á fundum í hverri viku, m.a. þá sem misstu vinnu á Vellinum. Margir þeirra segja mér að þeir hafi tekið á sig tímabundin störf eða verr launuð störf en þeir voru með, til að sjá fjölskyldum sínum farborða. Þessi hópur horfir til öruggari og betur launaðra starfa og margir spyrja um störf í álverinu. Slík störf yrðu vissulega til staðar í álverinu í Helguvík. Þar yrðu meðaltekjur um 340 þúsund kr. á mánuði m.v. upplýsingar frá Akranesi. Það er kominnn tími til að íbúar hér geti valið á milli betur launaðra starfa. Það skiptir sköpum fyrir fjölskyldur hvort í launaumslagi hins almenna verkamanns eru 150 eða 300 þúsund krónur. Eigum við ekki að leyfa þeim að ráða hvar þeir vilja vinna!“