VF 1988: Atlaga gerð að lögreglunni
Róstursamt í miðbænum
Víkurfréttir • Fimmtudagur 17. nóvember 1988
Lögreglan í Keflavík átti mjög annasama nótt aðfaranótt laugardagsins m.a. vegna óláta í miðbæ Keflavíkur þá nótt og fyrr um kvöldið. Kom m.a. til átaka milli lögreglumanna og unglinga er brotin hafði verið rúða í versluninni Róm.
Þar var lögreglafi hindruð í starfi og atlaga gerð að lögregluþjónum við störf sín. Rifnaði jakki eins lögreglumannsins og bindi slitnaði hjá öðrum en báðir hlutu þeir einhver meiðsli í átökum þessum.
Sem betur fer eru ekki allir þeir unglingar sem safnast saman í miðbænum um helgar til vandræða, en þeim mun meira ber á þeim sem taka þátt í ólátum þessum. Hafa rúðubrot í verslunum á svæðinu oft á tíðum verið óaðskiljanlegur þáttur í máli þessu, sem er miður. Þá var nú farið inn í brunarústir Kaupfélagsins og náð í verslunargrindur og þær fylltar af öldósum sem síðan var dreift meðal unglinganna.
En hvað vill lögreglan gera í máli þessu? Gefum Karli Hermannssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni, orðið:
„Það alvarlegasta í þessu er að menn skuli veitast að lögreglunni við sín skyldustörf eins og þarna átti sér stað. Hér er á ferðinni vandamál sem þarf að finna lausn á. Teldi ég t.d. það vera til bóta ef breiðsamstaða næðist meðal lögregluyfirvalda, bæjaryfirvalda og skólamanna um málið. Þessir aðilar þyrftu að aðstoða okkur við að finna lausn á því.
Þá gæti það líka verið lausn að draga úr umferðarþunga um Hafnargötuna m.a. með því að gera hana að einstefnuakstursgötu eða jafnvel loka henni á kafla.”
MIKIL UMRÆÐA UM „MIÐBÆJARVANDAMÁLIГ í BÆJARSTJÓRN KEFLAVÍKUR:
ALVARLEGT VANDAMÁL
Víkurfréttir • Fimmtudagur 17. nóvember 1988
„Bæjarstjórn Keflavíkur samþykkir að skipa þriggja manna nefnd sem leiti lausna vegna þeirra vandamála sem skapast hafa að undanförnu í miðbæ Keflavíkur m.a. vegna unglinga.“
Svona hljóðaði tillaga sem borin var upp í bæjarstjórn Keflavíkur á þriðjudag af þeim Drífu Sigfúsdóttur og Þorsteini Árnasyni. Var samþykkt að vísa tillögu þessari til bæjarráðs.
Urðu miklar umræður á fundinum um vandamál þau sem sagt er frá annars staðar í blaðinu. Hóf Drífa umræðu þessa og sagði m.a. að síðasta helgi hefði verið sú fjórða í röðinni þar sem rúður voru brotnar í Kvikk. Þá hefði nú verið brotist inn í Róm og hlutir úr búðinni notaðir sem „frisbeediskar”.
Aðsúgur hefði verið gerður að lögreglu. Þá væri meira um vopnaburð meðal unglinga s.s. hnífar, hnúajárn o.fl. Væru síbrotaunglingar þarna til mikilla vandræða, en þessir krakkar væru þó lítill hluti af þeim sem safnast þarna saman. Taldi hún nauðsyn á því að hafa samvinnu við fjölmiðla á staðnum, auk foreldra, um málið. Einnig ætti fólk að skoða vandamálið með eigin augum einn góðan veðurdag. Þá sagði hún Iíka vera vandamál hve hraðakstur væri mikill á Hafnargötunni og því þörf á að gera hana að einstefnuakstursgötu.
Hannes Einarsson tók undir orð Drífu og sagði ástandið ágerast. Þarna væru einnig á ferðinni unglingar úr nágrannabyggðarlögunum og því þyrfti að leita samstarfs við þá um lausn mála.
Jónína Guðmundsdóttir tók í sama streng. Benti hún m.a. á að 9. bekkur hefði verið slæmur í fyrra. Sama var með Guðfinn Sigurvinsson sem sagðist vera tilbúinn að ræða við krakkana en hann sagðist þó ekki skilja löggæsluna í bænum.
Vilhjálmur Ketilsson spurði hvaða aldur væri um að ræða og hér þyrfti samvinnu milli lögreglu og skólayfirvalda. En taka verði á hlutunum. Síðan tók Drífa aftur til máls og loks Anna Margrét Guðmundsdóttir sem taldi umræðuna eiga fullan rétt á sér.
Fjórir unglingar handteknir
Víkurfréttir • Fimmtudagur 17. nóvember 1988
Síðasta föstudagskvöld urðu mikil læti í miðbæ Keflavíkur og stóðu þau yfir frá því um miðnætti og fram eftir nóttu. Hófust þau með því að brotin var rúða í gjafavöruversluninni Róm og vörum úr glugganum tvístrað meðal viðstaddra. Eftir að lögreglan kom á staðinn var gerð alvarleg atlaga að henni og hlutu nokkrir lögreglumannanna pústra svo og rifin föt eða slitin bindi. Fjórir unglingar voru fluttir á lögreglustöðina, þar af hlutu tveir gistingu í fangageymslum.
VF.is birtir eldra efni af síðum Víkurfrétta sem fögnuðu nýlega 40 ára útgáfuafmæli. Meðfylgjandi efni birtist 17. nóvember 1988.