Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Verslunin myndi færast úr landi
Úr verslun Fríhafnarinnar.
Miðvikudagur 5. nóvember 2014 kl. 16:50

Verslunin myndi færast úr landi

- segir talsmaður Isavia um tillögu Verslunarráðs að leggja niður Fríhöfnina.

„Helstu samkeppnisaðilar komuverslunar Fríhafnarinnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru fríhafnarverslanir á erlendum flugvöllum en ekki innlendir aðilar. Með því að bjóða upp á góða og samkeppnishæfa fríhafnarverslun hér á landi er verið að færa verslun frá útlöndum og til Íslands. Ætla mætti að verslun myndi færast úr landi ef komuverslun Fríhafnarinnar yrði lögð niður,“ segir Friðþór Eydal, talsmaður Isavia við tillögu Viðskiptaráðs um að Fríhöfnin ehf. og komuverslanir verði lagðar niður og einkaaðilum verði alfarið látið um að að sjá um verslunarþjónustu í flugstöðinni. Viðskiptaráð telur að tilvist Fríhafnarinnar í núverandi mynd vinni gegn heilbrigðri samkeppni á jafnréttisgrundvelli.

„Þess má geta að þegar Norðmenn ákváðu árið 2005 að opna fríhafnarverslun fyrir komufarþega á Oslóarflugvelli (Gardermoen) voru ein veigamestu rökin fyrir þeirri opnun að færa fríhafnarverslun til Noregs frá erlendum fríhöfnum,“ bætir Friðþór við.

Tekjur af Fríhöfn eða auknar álögur á farþega?
Friðþór segir að viðskiptavinir Fríhafnarinnar geti ekki verslað ótakmarkað þar sem takmörk séu á því hversu mikið af tollfrjálsum varningi hver einstaklingur má koma með inn í landið. Rekstur Fríhafnarinnar sé mikilvægur fyrir Keflavíkurflugvöll. „Komuverslun Fríhafnarinnar á stóran þátt í tekjum Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Tekjur af verslunarrekstri eru aðal tekjulind flugstöðvarinnar og standa undir kostnaði við rekstur flugvallarins. Ef komuverslunarinnar nyti ekki við myndu tekjur flugstöðvarinnar minnka verulega sem gæti haft í för með sér að hækka þyrfti álögur á flugrekendur og farþega. Slíkt myndi koma verulega illa niður á ferðaþjónustunni í landinu og skerða lífskjör sem og möguleika á frekari aukningu í innlendri verslun vegna komu ferðamanna.“

Friðþór segir rekstur Fríhafnarinnar hafa gengið vel á undanförnum árum. „Hagnaðartölur segja ekki alla söguna. Síðastliðin fjögur ár hefur Fríhöfnin skilað nálægt 10 milljörðum króna til rekstrar flugvallarins og til ríkissjóðs. Einungis áfengis- og tóbaksgjaldið hefur skilað ríkissjóði rúmlega 1.2 milljarði króna á þessu tímabili. Um 8,5 milljarðar króna hafa farið í rekstur flugvallarins sem þýðir að fjármunir til rekstrar hans þurfa ekki að koma annars staðar frá, hvort sem það er frá ríkinu eða flugrekstraraðilum.“

Stækkum kökuna
Tekjur innlendrar verslunar hafa að sögn Friðþórs aukist gríðarlega síðustu ár vegna aukningar á ferðamönnum. Þá hefur kortavelta erlendra ferðamanna margfaldast á aðeins örfáum árum. „Það er markmið allra sem koma að ferðaþjónustu að tryggja aukna innlenda veltu með því að gera Ísland að ákjósanlegum áfangastað fyrir ferðamenn,“ segir Friðþór.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024