Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Verið að taka ákvörðun fyrir framtíðina
Laugardagur 30. september 2017 kl. 08:00

Verið að taka ákvörðun fyrir framtíðina

- Kosningar vegna sameiningar Garðs og Sandgerðis fara fram í nóvember

„Það er stórt markmið fyrir okkur að fá sem flesta til að taka þátt og við höfum rætt það að það væri gott ef kosningaþátttaka væri um eða yfir 60%,“ segir bæjarstjóri Sandgerðis, Sigrún Atladóttir.
Kosningar vegna sameiningar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðis fer fram þann 11. nóvember næstkomandi. Næstu skref er að kynna sameininguna fyrir íbúa sveitarfélaganna og heilmikil undirbúningsvinna hefur legið að baki ákvarðarinnar ásamt því að mikil vinna mun fara fram ef af henni verður. Víkurfréttir hittu bæjarstjóra Garðs og Sandgerðis þau Magnús Stefánsson og Sigrúnu Atladóttur og ræddu við þau um sameininguna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hér má sjá viðtalið við þau Magnús og Sigrúnu í Suðurnesjamagasíni.

Nú eru kosningar á næsta leyti, hver eru næstu skref hjá ykkur fyrir þær?
„Það er búið að skipa sérstaka samstarfsnefnd sem hefur verið falið að sinna kynningum á þessum möguleikum og hvað felst í því að sveitarfélögin sameinast, segir Sigrún. „Sú nefnd hefur verið starfandi áður en henni var falið að sjá um þetta kynningarferli. Það var skýrsla unnin á vegum KPMG sem gerði heilmikla úttekt á ýmsum þáttum í starfsemi sveitarfélaganna, fór yfir fjárhagsstöðu, íbúðasamsetningu, þjónustu, fjárfestingarverkefni og svo framvegis. Þessi skýrsla er grunnurinn af þeirri kynningu sem nú fer að fara í gang og það verða kosningar þann 11. nóvember í Sandgerði og Garði þar sem íbúum gefst kostur á að ákveða hvort sveitarfélögin verði sameinuð eða hvort þau haldi áfram að vera sitt í hvoru lagi.“

Hvernig mun kynningin á skýrslunni fara fram?
„Hún mun fara fram með ýmsum hætti. Það verður efni á heimasíðum sveitarfélaganna, íbúafundir og við munum nýta samfélagsmiðlana að einhverju leyti. Þannig við ætlum að reyna að beita þeim leiðum sem opnar eru til að koma upplýsingum til sem flestra og vekja áhuga sem flestra á því að taka þátt í kosningunni því það er grundvallaratriði að sem flestir taki þátt í kosningunum,“ segir Magnús.

„Það er stórt markmið fyrir okkur að fá sem flesta til að taka þátt og við höfum rætt það að það væri gott ef kosningaþátttaka væri um eða yfir 60%,“ bætir Sigrún við. „Þess má einnig geta að það geta allir íbúar, sem eru íslenskir ríkisborgarar, kosið og fólk sem er af erlendum uppruna, sem átt hefur heima í öðru hvoru sveitarfélaganna í fimm ár. Þessi skýrsla er þegar aðgengileg á heimasíðum sveitarfélaganna en eitt af því sem við ætlum að gera er að opna sérstaka heimasíðu og þar verða spurningar og svör. Við finnum að það brennur margt á fólki.“

„Það hafa ýmsar spurningar komið upp sem tengjast kannski ekki endilega sameiningunni en eru eðlilegar frá fólkinu sem er að velta þessu fyrir sér,“ segir Magnús.

Hvaða ferli fer í gang ef af sameiningunni verður?
„Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er mjög skýrt ferli sem fer í gang fram að kosningum um tillöguna og einnig eftir hana. Ef sameiningin verður samþykkt þurfa sveitarfélögin tvö að tilnefna tvo eða þrjá fulltrúa í sérstaka stjórn sem fær ýmis verkefni samkvæmt lögunum, meðal annars það að setja nýju sameinuðu sveitarfélagi samþykkt um stjórn og fundarsköp sem þarf að staðfesta af ráðuneytinu og það þarf meðal annars að koma fram hvað sveitarfélagið heitir, hversu marga bæjarfulltrúa bæjarstjórn á að skipa og svo framvegis,“ segir Magnús. „Auk þess að fara yfir samninga sem sveitarfélögin hafa gert og eru í gildi, ýmsar samþykktir og ýmislegt sem þarf að samræma. Þannig það eru ýmis verkefni sem þessi stjórn fær og síðan þarf ráðuneytið að samþykkja sameininguna þegar það liggur fyrir, það þarf að auglýsa hana og ýmis formlegheit í kringum þetta allt saman. Við höfum gert ráð fyrir því að ef sameiningin verður samþykkt þá verði kosið í bæjarstjórn fyrir sameinað sveitarfélag í maí 2018 þegar sveitarstjórnarkosningar fara fram. Þá mun ný bæjarstjórn taka við en ef af sameiningunni verður ekki, síður en fjórtán dögum eftir kjördag. Þá tekur nýtt sveitarfélag til starfa og það eru auðvitað fjölmörg verkefni sem þarf að vinna til að búa til og koma saman heilu sveitarfélagi. Ef af þessu verður mun jöfnunarsjóður sveitarfélaganna veita framlag til að standa undir kostnaði á endurnýjun stjórnsýslu og þjónustu upp á um hundrað milljónir króna og það er að mínu mati veglega gert af jöfnunarsjóði að veita slíkt framlag, það eru spennandi tímar framundan,“ segir Magnús.

„Það má jafnvel búast við meiri fjármunum frá jöfnunarsjóði ef það verður samþykkt að þessi tvö sveitarfélög sameinist,“ bætir Sigrún við.

Nú eru sveitarfélögin talsvert ung og meðalaldur beggja sveitarfélaganna um þrjátíu og sex ár. Ætlið þið að nýta ykkur samfélagsmiðla til þess að kynna sameininguna?
„Við fengum markaðsráðgjafa í samstarf til þess að hjálpa okkur að forma kynninguna. Reynslan hefur kennt okkur að það er erfiðara að fá unga fólkið á íbúafundi ef við myndum halda slíkan þannig það er spurning hvaða aðferð við getum notað til að koma upplýsingum til þeirra og til dæmis er Facebook mjög öflugt verkfæri til þess að miðla upplýsingum. Þannig gætum við nálgast sem flesta, vakið athygli og komið upplýsingum á framfæri,“ segir Magnús.

„Við höfum líka heyrt að umræðan sé komin í eldri bekki grunnskólanna þannig að sameiningin er víða rædd. Við vonum að umræðan verði sem mest og málefnaleg,“ segir Sigrún en mikil vinna lögð í undirbúning að hennar sögn og langt ferli sem liggur að baki.

Magnús segir aðalmálið í sínum huga vera það að sem flestir taki þátt í kosningunni. „Þarna er í raun og veru verið að taka ákvörðun um framtíðina og hvort að sveitarfélögin verði sameinuð eða hvort þau verði áfram sitt í hvoru lagi. Þetta er framtíðarmál og þess vegna er mikilvægt að sem flestir íbúar mæti á kjörstað eða taki þátt í kosningunni til að taka afstöðu í þessu máli,“ segir Magnús.

Hvað er undirbúningurinn búinn að vera langur?
„Í mars/apríl í fyrra var byrjað að ræða þetta óformlega en svo fór alvöru vinna af stað í september í fyrra,“ segir Magnús.

Hvenær var tekin lokaákvörðun um kosninguna?
„Það var núna í ágúst sem að bæjarstjórnirnar ákváðu að láta fara fram kosningu. Það er ákveðin tímalína sem gildir samkvæmt lögum. Það þarf að vera kynning, tillagan svo auglýst að minnsta kosti tveimur mánuðum fyrir kjördag og þessi tímasetning, 11. nóvember, er einnig vegna þess en nú eru einnig alþingiskosningar framundan þann 28. október og við vorum að velta því fyrir okkur hvort það hefði verið hægt að sameina kosninguna en staðreyndin er sú að við getum ekki flýtt kosningunni um sameininguna vegna tímalínunnar sem er í lögum,“ segir Magnús.

Ef til saminga kemur verður sveitarfélagið það 17. stærsta á landinu og það næst fjölmennasta á Suðurnesjum, hverjir eru kostirnir og gallarnir að ykkar meti við sameiningu?
„Það er margs konar hagkvæmni sem felst í stærra sveitarfélagi og þetta eru lík sveitarfélög, það yrði ekkert erfitt að sameina þau,“ segir Sigrún. „Meðalaldurinn er svipaður, álíka margir í grunn- og leikskólum þannig þetta eru mjög lík samfélög og það er stutt á milli þeirra sem er kostur. Ef við miðum okkur til dæmis við önnur sveitarfélög sem eru að huga að sameiningu þá eru þau ólíkari okkar og meiri fjarlægð á milli þeirra. Kosturinn væri að það er alltaf verið að bæta verkefnum á sveitarfélögum og eftir því stærra sem það er því meira bolmagn hefur það, betri stjórnsýslu, þjónusta og fleira. En ef maður hugsar sér galla þá held ég að fólki finnist að það óttist að bærinn myndi á einhvern hátt hverfa. Aðra augljósa gallar sé ég ekki.“

„Það er auðvitað hver og einn sem þarf að meta það en þegar það er verið að velta fyrir sér sameiningu sveitarfélaganna þá þurfa menn að horfa svolítið fram í tímann,“ segir Magnús. Til að vega og meta og sjá hvort maður vilji sjá sveitarfélagið óbreytt eða í stærri einingum þarf að horfa tuttugu til þrjátíu ár fram í tímann. Varðandi þessi sveitarfélög þá erum við í miklu samstarfi nú þegar og margir segja að samstarf leiði til sameiningar. Við rekum núna til dæmis saman skipulags- og byggingarsvið, forstöðumaður íþróttamannvirkja er í 50% stöðu hjá báðum sveitarfélögum, vinnur fyrir okkur bæði í hundrað prósent stöðu. Félagsþjónustan er einnig sameiginleg og það eru fleiri verkefni sem við höfum unnið saman að. Ef við horfum bara á það þá hlýtur það að vera nokkuð augljóst að öll stjórnsýsla á þessum sviðum verður einfaldari. Það er öflugt ef sveitarfélög eru stærri því þau mynda stærri og öflugri einingar fyrir vikið. En í þessu tilfelli öfugt við það sem oft á við þegar verið er að vinna að sameiningu sveitarfélaga þá þurfum við ekki að vera að velta fyrir okkur grunnskólum, þeir verða reknir áfram eins og þeir eru og það sama á við leik- og tónlistarskólana.“

Stendur til að stækka grunn- eða leikskólana?
Heilmikil fjölgun hefur verið í skólunum í sveitarfélögunum líkt og annars staðar á Suðurnesjunum og að sögn Magnúsar er komið sé að því að stækka í báðum sveitarfélögunum.

Munu gjöld til bæjarins lækka við sameininguna?
„Gjaldskrár sveitarfélaganna eru ekki alveg eins og það er eitt sem fylgir með í sameiningarpakkanum. Það verður bara ein gjaldskrá fyrir þjónustuna og það liggur alveg fyrir að það þarf að gera það,“ segir Magnús.

Sigrún segir það venju, þegar sveitarfélög sameinist, að hækkanir hafi ekki verið gerðar, heldur hafi verið miðað við lægri þjónustugjöld.

Húsnæðisáætlanir sveitarfélaganna verða án efa stærsta verkefnið ef til sameiningar kemur en hlutverk nýrrar bæjarstjórnar verður meðal annars að ráðast í gerð nýs aðalskipulags fyrir sameinað sveitarfélag. Í því felst meðal annars stefnumótun til framtíðar um það hvernig íbúar vilja sjá byggðina þróast. Magnús segir að það sé mikil áskorun í því.

Verður ráðist í fjölgun á húsnæði ef til sameiningar kemur?
„Sveitarfélögin eru núna að vinna að húsnæðisáætlunum en það er nú orðin skylda þeirra. Sandgerði og Garður eru meðal fyrstu sveitarfélaganna sem gera slíkar áætlanir. Við sjáum að það er þörf bæði fyrir minna húsnæði fyrir yngra fólk og það er líka þörf á félagslegu húsnæði. Við í Sandgerði erum að bregðast við því núna strax með byggingu smáhýsa og ég tel það alveg ljóst að það þurfi að bjóða eða standa til boða húsnæði á hagstæðari kjörum heldur en gert hefur verið,“ segir Sigrún. „Við erum búin að gera samkomulag við Bjarg byggingarfélag, BHM, BSRB og ASÍ um byggingu fimm smáhýsa í Sandgerði og ég geri ráð fyrir því að við höldum áfram að mæta þörfunum og breyta skipulaginu. Við ætlum að breyta skipulaginu, minnka íbúðirnar eða húsin og hafa meira af raðhúsum.“

„Með húsnæðislögunum sem voru samþykkt í lok síðasta árs eru ákvæði um almennar leiguíbúðir og við sveitarfélögin höfum verið að skoða það. Ég geri ráð fyrir því að hvort sem af sameiningu verður eða ekki þá muni sveitarfélögin vinna eftir þeim lögum með stofnframlögum og svo framvegis,“ segir Magnús. Hins vegar er alveg ljóst, eins og Sigrún segir, að eftirspurnin eftir minni íbúðum sé mikil og mun meiri en fyrir tíu árum síðan.

Það er talað um það í skýrslunni að það gætu verið fjölbreyttari atvinnutækifæri við sameiningu, hvaða tækifæri sjáið þið liggja þar?
„Ef við horfum á stöðuna eins og hún er í dag og horfum til nánustu framtíðar, þá er flugvöllurinn hér á svæðinu og öll hans starfsemi. Hann er auðvitað vaxtarbroddurinn hér á svæðinu,“ segir Magnús. Ég held hann sé stóra málið í atvinnuuppbyggingunni og það má ekki gleyma því að umsvifin á flugvellinum eru alltaf að aukast. Það þarf að byggja meira á flugstöðinni. Það er ekki síður mikilvægt hvaða afleiddu störf verða til í kringum starfsemina á flugvellinum.“

Sigrún segir atvinnuuppbyggingu vera mikla í kringum atvinnuflugvelli svo það sé mikil áskorun fyrir þrjú sveitarfélögin á svæðinu að vinna vel saman. „En svo eru auðvitað líka tækifæri í sjávarútvegi. Það er ekki höfn í Garði en í Sandgerði er mikil höfn og fiskvinnsla. Við erum með ýmsa vísindastarfsemi tengda sjávarútvegi og ég vona að það haldi allt saman áfram að vaxa og dafna. Ég held að tækifærin séu mjög mikil.“

Lýðheilsa aldraðra hefur verið mikið í umræðunni og með sameiningunni er stefnt á að efla heimaþjónustu aldraðra og að uppbyggingu hjúkrunarheimilis. Hversu mikilvægt teljið þið það vera?
Sigrún segir að það sé mikilvægt að stuðla eða vinna að lýðheilsu aldraða. „Við höfum verið að gera það í nokkurn tíma, þau mál skipta miklu máli og það skiptir fólk heilmiklu máli að fólk geti verið heima sem lengst og þá þarf ýmis konar þjónusta að vera til staðar. Þannig leggjum við ríka áherslu á það og við erum nýbúin að samþykkja sameiginlega stefnumótun í málefnum aldraða.“

Nú eruð þið bæjarstjórar í sitt hvoru bæjarfélaginu. Hafið þið áhuga á því að stjórna nýju bæjarfélagi?
„Ég er mikið spurður að þessu en ég sem bæjarstjóri og persóna er algjört aukaatriði í þessu máli, enda erum við að tala um framtíð sveitarfélaganna og íbúana sem þar búa og spurningin um það hver verði bæjarstjóri er bara seinni tíma mál. Ég ætla ekki að tjá mig um um það að öðru leyti. Þetta snýst um framtíðina,“ segir Magnús.

Sigrún segist taka undir það, enda séu bæjarstjórar ráðnir eitt kjörtímabil í einu eða í fjögur ár í senn og þeirra tímabili sé senn að ljúka eða á næsta ári. Hún segir líka að þau vinni vel saman og það sé ekkert nema gott á milli þeirra.

Hvað með nafn á sveitarfélagið, eruð þið með eitthvað í huga eða hafið þið heyrt einhver skemmtileg nöfn?
Magnús segir að ýmis nöfn hafi flogið á loft og eitt sem menn hafa kastað fram er „Keflavík“ vegna þess að þá verði Keflavíkurflugvöllur loksins kominn í Keflavík.

„Ef af sameiningunni verður þá fær fólk tækifæri til þess að koma með hugmyndir að nafni og þá myndi endanleg tillaga eða þau nöfn sem yrði kosið um fara fyrir örnefnanefnd,“ segir Sigrún.