Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Var rausnarlegt framlag til vatnsveitu mengunarbætur til framtíðar?
Föstudagur 22. september 2006 kl. 14:20

Var rausnarlegt framlag til vatnsveitu mengunarbætur til framtíðar?

-Vatnsrennibraut keypt fyrir mengunarbætur frá hernum.

Heimildir Víkurfrétta herma að Bandaríkjamenn munu leggja til ákveðna fjárhæð við brotthvarf Varnarliðsins vegna mögulegrar mengunar í jarðvegi sem gæti þurft að hreinsa eftir brottför hersins. Bandaríkjamenn munu ekki sjálfir koma að hreinsuninni, eins og sagt var í Víkurfréttum í gær. Sá varnagli sé hins vegar sleginn að ef í ljós kemur á næstu misserum að velferð fólks stafi hætta af mengun vegna losunar sem átti sér stað fyrir undirritun samningsins munu stjórnvöld landanna funda til að komast að niðurstöðu um hugsanlegar bætur eða aðrar aðgerðir. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta hafa íslensk stjórnvöld fjögur ár til að komast að og ganga úr skugga um það hvort hér leynist mengun sem „velferð fólks stafi hætta af“.
 
Bandarísk stjórnvöld greiddu árið 1989 nýja vatnsveitu á Suðurnesjum í kjölfar þess að upp komst um mengun frá Bandaríkjaher við vatnsból í Keflavík og Njarðvík. Bandaríkjamenn greiddu 465 milljónir króna eða 8 milljónir dollara á þeim tíma til veitunnar, auk 58 milljóna króna eða 1 milljón dollara til þess sem var kallað þjálfunar- og byrjunarrekstrarkostnaður, þegar vatnsveitan yrði tekin til starfa. Öll upphæðin var greidd fyrirfram og því lögðu menn af stað í framkvæmdir með fulla vasa fjár.


KANINN BORGAÐI 523 MILLJÓNIR FYRIR VATNSVEITU

Á borgarafundi sem haldinn var í Njarðvík snemma árs 1989 kom fram að heildarkostnaður við vatnsöflun og að koma vatninu til byggða væri 302 milljónir króna. Það er því ljóst að Bandaríkjamenn greiddu 221 milljón króna umfram það sem Vatnsveita Suðurnesja kostaði.

Kunnugir vilja meina að þar hafi Bandaríkjamenn verið að borga sig frá allri hugsanlegri mengun er tengist herstöðinni í Keflavík til framtíðar. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta mun samningi frá árinu 1989 um greiðslur vegna mengunar hafa verið „flaggað“ í viðræðum um brotthvarf Varnarliðsins nú.


„TÍMAMÓTASAMNINGUR“

Á haustmánuðum 1989 er síðan greint frá því sem kallað er „Tímamótasamningur milli íslenskra stjórnvalda og Vatnsveitu Suðurnesja“. Milliríkjasamningurinn milli Íslands og Bandaríkjanna var hluti af samningnum milli íslenska ríkisins og Vatnsveitu Suðurnesja.

Í heilsíðu umfjöllun í Víkurfréttum þann 2. ágúst 1989 um nýja vatnsveitu fyrir Keflavík og Njarðvík kemur fram að fyrir áratugum síðan voru menn á Suðurnesjum farnir að gera sér grein fyrir því að hætta væri á mengun vatnsbóla vegna starfsemi Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Árið 1975 var t.a.m. gerð skýsla þar sem skýrsluhöfundur komst að þeirri niðurstöðu að vegna nálægðar við starsemi sem hefði í för með sér meðferð á hættulegum efnum væri óverjandi annað en að huga að því að flytja vatnsbólin þótt þá væri engin mengun  komin fram svo vitað væri.

 


OLÍUMENGUN ÁRIÐ 1987

Í kjölfar þeirrar olíumengunar sem varð í nóvember 1987 voru gerðar viðamiklar rannsóknir á grunnvatni í nágrenni vatnsbólanna í Njarðvík og Keflavík og þá kom í ljós lítilsháttar mengun í þeim sem þó var undir hættumörkum. Þegar sú staðreynd var ljós hófust þegar athuganir á möguleikum þess að byggja nýja vatnsveitu fyrir byggðarlögin og nema vatnið fjarri byggðinni.

Með undirritun samninga milli íslenskra stjórnvalda og Vatnsveitu Suðurnesja á lokadögum júlímánaðar 1989 var Vatnsveitu Suðurnesja falin gerð og rekstur nýrrar vatnsveitu á Suðurnesjum sem alfarið er kostuð af bandarískum stjórnvöldum. Eins og áður segir greiddu Bandaríkjamenn samtals 523 milljónir króna fyrir vatnsveituna, sem samkvæmt borgarafundinum í Njarðvík nokkrum mánuðum áður myndi kosta 302 milljónir.

Fyrir hönd íslenskra stjórnvalda undirritaði Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi utanríkisráðherra, samninginn en fyrir hönd heimamanna voru það Oddur Einarsson, Eðvald Bóasson, Guðfinnur Sigurvinsson og Hannes Einarsson.


FYRIRFRAMGREIÐSLA UPP Á HÁLFAN MILLJARÐ

Í viðtali sem Víkurfréttir áttu á þessum tíma við Hannes Einarsson, framkvæmdastjóra Vatnsveitu Suðurnesja, var spurt um þennan mjög svo sérstaka samning sem gerður hafði verið á milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda þar sem þau bandarísku fallast á að greiða allan kostnað við vatnsveituna og ekki síður það að framkvæmdaféð var allt greitt fyrirfram.

Hannes Einarsson sagði m.a.: „Milliríkjasamningurinn er hluti af þeim samningi sem nú hefur verið undirritaður. Sá samningur er framseldur til Vatnsveitunnar með réttindum sínum og skyldum. Með þessum samningi sýna bandarísk stjórnvöld svo ekki verður um villst skilning sinn á því að vegna hins sérstæða nábýlis okkar við varnarstöðina á Keflavíkurflugvelli geti komið upp vandamál, og velvilja sinn til þess að slík mál leysist farsællega. Samningurinn er byggður á góðum samskiptum þjóðanna og mjög góðum vilja þar sem deilur um hver beri ábyrgð voru lagðar til hliðar. Það er ekki nokkur vafi á að þetta er mjög góður samningur fyrir sveitarfélögin,“ sagði Hannes Einarsson og bætti við að samningurinn væri einstakur hvað varðaði greiðslutilhögun, þar sem 8 milljónir dollara væru greiddar út áður en verkið hæfist.

Hannes var einnig spurður út í hvað gert yrði við mismuninn, ef það reyndist ódýrara að reisa vatnsveituna: „Það er tekið tillit til þess í þessum samningi að þetta er dýr vatnsveita sem ekki stendur um aldur og ævi. Kostnaðurinn við þessa vatnsöflun sveitarfélagannaer einnig eðlilega meiri en þegar vatnið var tekið upp nánast beint í miðlunartankana innan bæjarmarkanna. Við eigum nú fyrst eftir að sjá hvort afgangur verður af byggingarfénu, en ef svo verður þá verður hann notaður til rekstrarins næstu árin,“ sagði Hannes í lok júlí 1989.


GÁFU SUNDMIÐSTÖÐ VATNSRENNIBRAUT

Af fréttum nokkrum árum síðar, eða í kringum mánaðarmótin febrúar og mars 1992, kom í ljós að Vatnsveita Suðurnesja hafði úr talsverðum fjárhæðum að spila og kom færandi hendi í Sundmiðstöðina í Keflavík. Þar gaf vatnsveitan eitt stykki 35 metra langa vatnsrennibraut sem kostaði 7 milljónir króna á þeim tíma, en Vatnsveita Suðurnesja varði 9 milljónum króna í vatnsrennibrautina og í lendingarlaug við brautina. „Höfðingleg gjöf frá Vatnsveitu Suðurnesja,“ sagði Hafsteinn Guðmundsson, þáverandi forstöðumaður Sundmiðstöðvar Keflavíkur.


SÖMDU UM FERSKVATN TIL 15 ÁRA

Í dag velta menn því fyrir sér hvort ríflegar greiðslur til Vatnsveitu Suðurnesja árið 1989 hafi í raun verið greiðslur til að standa straum af framtíðarkostnaði sem hugsanleg mengun í framtíðinni myndi valda. Þeim peningum virðist hins vegar hafa verið varið í vatnsrennibraut og sitthvað fleira.

Það er einnig athyglisvert að sjá þá staðreynd í dag að árið 1989 samdi Varnarliðið til 15 ára um það að fá án endurgjalds 83 sekúndulítra af köldu vatni frá Vatnsveitu Suðurnesja. Þessi 15 ár eru rétt nýliðin þegar Varnarliðið pakkar niður og fer. Vissu menn hvert stefndi árið 1989?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024