Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Upphaf samvinnuverslunar í eitt rit
Föstudagur 12. ágúst 2005 kl. 15:13

Upphaf samvinnuverslunar í eitt rit

Í tilefni af 60 ára afmæli Kaupfélags Suðurnesja þann 13. ágúst 2005 ákvað stjórn Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis að láta taka saman í eitt rit staðreyndir og minningar um það sem haldið hefur verið til haga um fyrstu spor Pöntunarfélags Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, sem síðar varð hluti af KRON en fljótlega eftir það Kaupfélag Suðurnesja. Afhenti Kristján Gunnarsson, framkvæmdastjóri VSFK ritið til Kaupfélags Suðurnesja á fundi á Hótel Keflavík í fyrradag sem haldin var sérstaklega vegna þessarar afhendingar. Einnig fékk Byggðasafn Reykjanesbæjar eintak til varðveislu.
„Það er von stjórnar VSFK og nágrennis að saga þessi varpi ljósi á og varðveiti þá staðreynd að leiðir VSFK og nágrennis, Pöntunarfélagsins og Kaupfélags Suðurnesja hafi ætíð verið samliggjandi enda aðalmarkmið og hugsjónir félagsmanna þau sömu; betri hagur og kjör bæjarbúum til handa”, sagði Kristján við þetta tækifæri.

Saga Pöntunarfélags Verkalýðs og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis
Á fundi í hinu tæplega þriggja ára verkalýðsfélagi í Keflavík  30. september 1935, sem haldinn var í ungmennafélagshúsinu Skildi við Kirkjuveg í Keflavík, var borin upp hugmynd frá Guðmundi Péturssyni að stofna pöntunarfélag í Keflavík af svipuðum toga og stofnuð höfðu verið í Reykjavík. Tilgangurinn var sagður „að útvega félagsmönnum alls konar vörur, sem bestar að gæðum og við sem vægustu verði með pöntunarstarfsemi”.
Var hugmyndinni strax vel tekið og flutti Þorbergur P. Sigurjónsson tillögu þess efnis að stofnað yrði Pöntunarfélag innan verkalýðsfélagsins. Sú tillaga var samþykkt af tveimur þriðja hluta fundarmanna og kosin bráðabirgðastjórn sem skipuð var þeim Ragnari Guðleifssyni, Þorbergi P. Sigurjónssyni og Bjarna Sveinssyni.

Hófst nú undirbúningur að stofnun pöntunarfélagsins og á fundi verkalýðsfélagsins 19. nóvember sama ár var skýrt frá því að búið væri að skrá pöntunarfélagið.
Fyrsti pöntunarstjóri félagsins Bjarni Sveinsson skýrði frá því á fundinum að fyrir lægju vörupantanir að upphæð 300 krónur. Taldi hann að umræddar vörur væru 80 krónum ódýrari en ef þær væru keyptar í verslunum á staðnum.

Á þessum árum þurfti að sækja um innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir öllum vörum til stjórnskipaðrar nefndar, Innflutnings- og gjaldeyrisnefndar eins og hún var nefnd. Kom það fram á fundinum að búið væri að sækja um innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir matvörum að upphæð 6.150 kr.
Aðalviðskipti pöntunarfélagins voru við Pöntunarfélag verkamanna í Reykjavík, auk nokkurra viðskipta við heildsala s.s. Smjörlíkisgerðina. Var vöruverð í Keflavík það sama og í Reykjavík og sagt töluvert lægra en tíðkaðist í verslunum í bænum.

Fimm pöntunarfélög sameinast undir merki KRON
Þann 6. ágúst 1937 var síðan ákveðið að sameina Pöntunarfélagið Ingólf í Sandgerði, Pöntunarfélag VSFK í Keflavík, Pöntunarfélag Hlífar í Hafnarfirði, Kaupfélag Reykjavíkur og Pöntunarfélag verkamanna í Reykjavík í eitt félag KRON, þ.e. Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis. Ingólfur var stofnað vorið 1936 og var formaður þess Jóhannes Eiríksson, Hlíðarhúsum, en pöntunarstjóri Stefán Friðbjörnsson í Nesjum. Pöntunarfélag Hlífar hafði verið starfandi í nokkur ár með góðum árangi en Kaupfélag Reykjavíkur var lítið félag og fór hnignandi.
Helsti hvatamaður og frumkvöðull að sameiningu félaganna fimm  mun hafa verið Hjörtur Helgason í Sandgerði.

KRON sölubúð í Keflavík
Þegar Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis var stofnað árið 1938 og pöntunarfélag VSFK varð eitt af stofnfélögum þess, var ákveðið að fljótlega yrði opnuð sölubúð í Keflavík. Stóð sú ákvörðun og 9. nóvember það ár var opnuð sölubúð að Aðalgötu 10, í húsi Þórarins Ólafssonar, trésmiðs. Hús þetta hafði áður verið trésmíðaverkstæði Þórarins, en það var upphaflega byggt sem verslunarhús. Miðað við verslanir hér í Keflavík á þessum tíma var þetta talið all sæmilegt verslunarhús  og voru allar innréttingar, hillur og borð af nýjust gerð og hagkvæmar á þeirra tíma mælikvarða. En búðin var lítil og ekki til frambúðar, einkum var vinnuaðstaða öll við afgreiðslu ófullnægjandi. Félagsmenn sóttu pantanir sjálfir á hálfsmánaðar fresti eða vörurnar sendar til þeirra. Þessar vörur fengu þeir með 5% afslætti. Auk þess greiddi KRON tekjuafganga eftir ársuppgjör, gegn framvísun kassakvittana. Var þessi arður 7% öll þau ár sem KRON starfaði. Þar af var 4% arðsins borgaður út, en 3% lagður í stofnsjóð.
Flestir félagar notuð sér þessi kjör og pöntuðu reglulega. Þessi afgreiðsla útheimti sérstakt húsrými. Þar við bættist að frá þessari búð gekk sölubíll í nágrannabyggðalögin þ.e Leiru, Garð, Innri-Njarðvík, Ytri-Njarðvík, Hafnir og Grindavík (öll hverfin þrjú). Voru þessar ferðir farnar vikulega. Vörur voru seldar úr bílnum - skilað var pöntunum og tekið á móti nýjum pöntunum.
Um það bil fjórir af hverjum fimm búandi mönnum í Keflavík urðu félagsmenn í KRON og það án tillits til þess hvar í stjórnmálum þeir stóðu.

Kaupfélag Suðurnesja verður til
Þegar Keflavíkurdeildin gekk úr við KRON og Kaupfélag Suðurnesja var stofnað 1945, fluttist stofnsjóður félagsmanna til Kaupfélagsins.
Kaupfélag Suðurnesja er í dag rekið sem eignarhaldsfélag og tekur virkan þátt í fjölþættri starfsemi á Suðurnesjum og um land allt. Megin áherslan er á rekstur Samkaupa h.f. sem starfrækja 34 verslanir víða um land  og er velta féla
gsins um 10,5 milljarðar. Starfsmannafjöldi er um 700. Þá er félagið þáttakandi í rekstri Lyfju h.f. sem reka 40 verslanir.  

Stjórn Kaupfélagsins í dag er skipuð: Magnús Haraldsson formaður,  Birgir Guðnason,  Eyjólfur Eysteinsson, Guðbjörg Ingimundardóttir og Sturla Eðvarðsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024