Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fimmtudagur 7. janúar 1999 kl. 19:57

UPPGJÖF HJÁ MEIRIHLUTANUM

Bókun J-listans v/fjárhagsáætlunar 1998 í Reykjanesbæ: Í þesssari fyrstu fjárhagsáætlun nýs” meirihluta er enginn vottur um ferskleika, engar raunhæfar hugmyndir um það hvernig komast eigi út úr þeirri erfiðu fjárhagsstöðu sem íhaldsmeirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur komið okkur í, engir tilburðir til að rétta bæjarsjóð af. Hún einkennist af uppgjöf. Reksturinn er látinn halda áfram í lítið sem ekkert breyttu formi, þrátt fyrir það að hann taki nú til sín 78,20% af samanlögðum tekjum bæjarins. Þegar við bætist að fjármagnsgjöld sem þarf að greiða á árinu eru 137,3 milljónir eða 8,02% og afborganir lána á næsta ári eru 240 milljónir eða 14,03% af tekjum liggur fyrir að þessar bundnu greiðslur samsvara rúmlega öllum tekjum bæjarins. Það sjá allir sem eitthvað vit hafa á fjármálastjórnun að það stefnir beina leið í gjaldþrot og það jafnvel þó engar fjárfestingar eigi sér stað. Það eru því vonbrigði að meirihlutinn skuli ekki taka á þessum vanda. Bæjarbúar sitja þó uppi með þennan meirhluta þetta kjörtímabil þannig voru úrslit kosninganna í vor. Það er ekki hlutverk minnihlutans að gera aðra fjárhagsáætlun enda slíkar tillögur aðeins felldar af meirihlutanum en það er hlutverk okkar að benda á það sem aflaga fer og vara við hættum. Þrátt fyrir að ekki sé til 1 króna til fjárfestinga er gert ráð fyrir gjaldfærðri fjárfestingu fyrir 95.461.000 eða 5,58% af tekjum bæjarins. Þar er um nauðsynlegar fjárfestingar að ræða. Þess heldur hefði verið ástæða fyrir meirihlutan að gera það kleift að skapa svigrúm, annað hvort með niðurskurði í rekstri eða skynsamri aukningu tekna. Þá er í fjárhagsáætlun meirihlutans gert ráð fyrir eignfærðri fjárfestingu fyrir 423,9 milljónir króna eða sem svarar 24,78% af tekjum bæjarins. Þetta samanlagt felur í sér umframeyðslu um 31,19% af heildartekjum bæjarins. Við, bæjarfulltrúar J-listans, sem skipum minnihluta þessarar bæjarstjórnar, vörum við þessari skelfilegu þróun. Ef ekkert er gert til að lækka útgjöld verður að leita leiða til að hækka tekjur. Það eru vissulega nokkrir tilburðir í þá átt hjá meirihlutanum, en jafnvel þar veldur hann okkur fulltrúum J-listans vonbrigðum. Gerðar eru tillögur um að hækka ýmis þjónustugjöld s.s. Félagslega heimilisþjónustu, sem ellilífeyrisþegar og öryrkjar borga. Námskeiðsgjald vegna félagsstarfs aldraðra, sem ellilífeyrisþegar borga. Stakur aðgangsmiði á gæsluvelli hækkar um 50%, sem barnafólk borgar. Tímagjald og matargreiðslur á leikskólum hækkar, sem barnafólk borgar. Vistgjald og matargreiðslur á skólaselin hækka sem barnafólk borgar. Árgjald fullorðinna fyrir afnot af bókasafni hækkar um 60%. Þátttökugjald vegna námskeiða félagsmiðstöðva tvöfaldast. Leiga á íþróttamannvirkjum hækkar og aðgangur að sundstöðum hækkar á bilinum 33-38%. Sorphirðugjald hækkar úr 2500 kr. í 3500 kr. eða um 40% og fellur það gjald jafnt á allar íbúðir, stórar sem smáar. Sami háttur er hafður á með gjald vegna hreinsunar á „fráveituvatni“ sem tekið var upp á síðasta ári. Það er lagt jafnt á allar fasteignir óháð stærð þeirra. Allt eru þetta dæmi um íhaldsskatta, skatta sem eru ákveðin krónutala og öllum er gert að greiða það sama, hver sem greiðslugetan er. Á sama tíma eru þær heimildir sem sveitastjórnir hafa, lögum samkvæmt til að innheimta tekjur, sem leggjast hlutfallslega jafnt á fólk, ekki nýttar. Dæmi um slíkt gjald sem gæti skilað einhverju í bæjarsjóð er útsvarið. Meirihlutinn vill ekki leggja gjöld á þá sem góðar tekjur hafa. Samt hefur meirihlutinn ekki kjark til að raga úr útgjöldum. Honum sæmir að gera atlögur að örorku- og ellilífeyrisþegum og barnafólki. Á sama tíma og hann ráðstafar útgjöldum sem nema rúmlega 31% umfram tekjur gælir hann við áframhaldandi skuldafjötra til framtíðar eins og t.d. byggingu fjölnota íþróttahúss sem skuldum vafinn næsta kynslóð á að taka á sig eftir 7 ár. Slík fjármálastjórn er engum til sóma, en bæjarfélaginu til mikils skaða. Við þessari fjárálastjórn vörum við fulltrúar J-listans í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024