Ungmeyjar á bæjarstjórnarfundi
Stúlkur fjölmenntu á vinnustaði víða um bæinn í gærdag, í tengslum við verkefnið AUÐUR - í krafti kvenna. Verkefnið miðar að því að auka hagvöxt á Íslandi með nýsköpun kvenna.Tólf ungar stúlkur tóku sæti bæjarfulltrúa, á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, og lögðu fram tillögu um að bæjaryfirvöld kanni möguleika á að námsefnið, Látum drauminn rætast, verði tekið til kennslu í grunnskólum bæjarins.Námsefnið miðar að því að kynna börnum hvað þarf að vera fyrir hendi svo að fyrirtæki vaxi og ýmis viðskiptafræðileg hugtök, eins og kostnaður, tekjur, vextir og fjármögnun. Það miðar einnig að því að nemendur þjálfist í hópvinnu og að vinna úr hugmyndum sínum og skynji mikilvægi nýsköpunar fyrir atvinnulífið.Bæjarfulltrúar samþykktu tillöguna og Skúli Þ. Skúlason, oddviti bæjarstjórnar, óskaði stúlkunum alls hins besta í framtíðinni og þakkaði þeim fyrir heimsóknina. Síðan var gert fundarhlé og fundargestum og fulltrúum boðið upp á pizzur og gos.Bæjarfulltrúar lýstu allir sem einn, ánægju sinni með þessa skemmtilegu heimsókn og Kristmundur Ásmundsson (J) sagði að dóttur sinni hefði fundist þetta allt of stutt. „Þú getur þá bara farið í framboð og verið hér eins lengi og þú vilt“, svaraði Kristmundur þá að bragði.Ellert Eiríksson (D) bæjarstjóri, upplýsti fundarmenn um að 35 stúlkur hefðu verið við störf á flestum stofnunum bæjarins þann daginn. Hann sagðist hafa rætt við þær og spurt hvað þeim langaði til að verða í framtíðinni. „Engin vildi verða leikskólakennari, en ein vildi verða leikskólakelling“, sagði Ellert og fundarmenn gátu ekki annað en brosað. Stúlkurnar voru á aldrinum 3-16 ára og þeim voru kynntar allar deildir Reykjanesbæjar, áhaldahúsið, tæknideildin o.s.frv. Að sögn Ellerts viðurkenndu þær yngstu „að þær föttuðu nú ekki allt sem sagt var og geispuðu þegar skatturinn var útskýrður fyrir þeim“, og lái þeim hver sem vill. „Skemmtilegast þótti þeim að vinna með sínum gestgjafa, fá að svara í síma og svoleiðis“, sagði Ellert.Birgitta Róbertsdóttir, ritari bæjarstjóra, vakti mikla lukku og hefur nú heldur betur fjölgað í aðdáendahópi hennar. Litlu frænku Ellerts bæjarstjóra, fannst langskemmtilegast að sjá Birgittu. „Hún er svona tíu sinnum fljótari en ég að „pikka“ og gerir aldrei vitleysur“, sagði sú stutta við frænda sinn, full aðdáunar.