Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tveir af bestu skólum landsins í stærðfræði í Reykjanesbæ
Fimmtudagur 17. nóvember 2011 kl. 14:19

Tveir af bestu skólum landsins í stærðfræði í Reykjanesbæ

- samkvæmt niðurstöðu í samræmdum prófum í 4. bekk



„Ég er þess fullviss um að skólastjórunum og þeim kraftmiklu kennurum sem með þeim starfa mun takast það að bæta námsárangur í Reykjanesbæ og Suðurnesjum öllum á næstu 4-5 árum og að í lok þess tímabils verðum við komin hraustlega yfir landsmeðaltalið og helst yfir meðaltal Reykvíkinga líka“. Þetta segir Gylfi Jón Gylfason, fræðslustjóri í Reykjanesbæ í samtali við Víkurfréttir. Gylfi Jón sat tveggja daga vinnufund með öllum skólastjórnendum á Suðurnesjum utan Grindavíkur. Á fundinum fóru stjórnendurnir ítarlega yfir niðurstöður samræmdra prófa og hvernig vinna mætti með þær niðurstöður. Á fundinum voru skólastjórnendur sammála um það að hægt væri að bæta námsárangur verulega á Suðurnesjum og hafa stjórnendurnir sett sér markmið og tímasetta áætlun um leiðir sem virka til að bæta árangur í námi. M.a. munu stjórnendateimi auka samstarf sitt á milli skóla þar sem leitast verður eftir því að taka allt það árangursríka og miðla því á milli skólanna.

Í samræmdum prófum er árangur mældur í stærðfræði og íslensku hjá 4. og 7. bekk og í íslensku, stærðfræði og ensku hjá 10. bekk. Gefin eru út gildi þannig að hæst má ná tölunni 60 og 30 telst meðallag.

Hjá 4. bekk voru Heiðarskóli (35,0 í stærðfræði og 31,0 í íslensku), Holtaskóli (39,3 í stærðfræði og 33,8 í íslensku), Myllubakkaskóli (30,7 í stærðfræði) og Njarðvíkurskóli (33,2 í stærðfræði) í Reykjanesbæ yfir meðallagi. Af öðrum skólum á Suðurnesjum yfir meðallagi í 4. bekk, þá komst Stóru-Vogaskóli (33,1 í stærðfræði og 32,8 í íslensku) á þann lista.
Í 7. bekk komust Heiðarskóli (30,0 í íslensku og 32,0 í stærðfræði) og Holtaskóli (33,8 í stærðfræði) yfir meðallagið. Grunnskóli Grindavíkur komst einnig yfir meðallagið (31,2 í stærðfræði).

Í 10. bekk voru það Heiðarskóli (31,0 í íslensku og 32,0 í stærðfræði) og Grunnskóli Grindavíkur (30,8 í stærðfræði og 30,4 í ensku) sem komust yfir meðallagið.

Árangur Heiðarskóla á samræmdum prófum að þessu sinni setur hann á meðal bestu skóla landsins, þar sem hann hefur reyndar verið undanfarin ár. Þá er Holtaskóli með einn allra besta árangur landsins í stærðfræði í 4. bekk á samræmdu prófi og fékk 39,3 stig af 60 mögulegum. Meðaltalið í Reykjavík var 29,7 stig en í Reykjanesbæ er meðaltalið 32,6 stig.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


- Nú hafa verið kynntar niðurstöður samræmdra prófa. Ertu sáttur við niðurstöðuna fyrir Reykjanesbæ?

„Já og nei. Það er hérna skóli sem hefur til margra ára verið að koma mjög vel út úr þessum prófum og ég er ánægður með það. Ég er einnig ánægður með það að við erum að bæta okkur í stærðfræði í skólunum í Reykjanesbæ. Það er líka ánægjulegt að mikil áhersla á lestur á yngri stigum er að skila sér í batnandi árangri. Við erum að sjá framfarir í mörgum skólanna og það er gott en betur má ef duga skal.Við erum hins vegar ekki sátt við að skólarnir í Reykjanesbæ séu undir landsmeðaltali. Það er eitthvað sem þarf að líta á og laga“.

- Við sjáum að Heiðarskóli er að skora hátt á samræmdu prófunum. Eruð þið búin að greina það hvað er gert öðruvísi þar en í hinum skólunum?
„Það eru allir að skoða það hver með sínu nefi, hvað þeir eru að gera, þau sjálf líka. Minni líka á að við erum að sjá miklar framfarir í öðrum skólum sem einnig þarf að skoða. Ég er viss um að meiri samvinna á milli skólanna skili árangri. Skólarnir okkar eru ólíkir innbyrðis. Það er hægt að ná árangri í mismunandi skólagerðum, hvort sem það er opinn skóli eða hefðbundinn skóli, hvaða skólategund sem er getur náð góðum árangri ef vel er á haldið.
Auðvitað þurfum við að leggjast yfir það hvað það er í öllum skólunum sem er að skila árangri og það á við um Heiðarskóla eins og alla hina skólana“.

- Hefur þú átt fundi með skólastjórnendum eftir að niðurstöður samræmdra prófa voru gerðar opinberar?
„Já, við tókum tvo vinnudaga í síðustu viku með öllum skólastjórum á Suðurnesjum, að Grindavík undanskildri, þar sem við fórum mjög vandlega yfir það hvar hver skóli er staddur. Síðan var það sameiginleg niðurstaða þessara tveggja vinnudaga að skólastjórnendur ætla að taka höndum saman um það að bæta námsárangur á Suðurnesjum. Þeir ætla að kynna sér hver hjá öðrum það sem er að virka vel. Það kom mjög skýrt fram á þessum vinnudögum að þekkingin til að bæta námsárangur er til staðar á svæðinu. Það þarf bara að greina hverjir eru hinir virku þættir í góðri kennslu og aðlaga svo að ólíkum skólagerðum. Það kom líka fram að það er enginn vilji til þess að skólarnir verði einsleitir – skólastjórar vilja aðlaga þekkingu að sinni skólagerð en ekki herma beint eftir því sem er að virka vel hjá öðrum“.

- Eru þá breytingar fyrirsjáanlegar í skólunum í Reykjanesbæ?
„Ég er þess fullviss að skólarnir á Suðurnesjum öllum eiga mikið inni. Ég sé það á tölum frá 2008, hvernig börnum vegnar í lestri á yngri stigum, að árangur á Suðurnesjum batnar ár frá ári. Við erum komin með nokkra skóla á Suðurnesjum sem eru komnir upp fyrir meðaltal skólanna úr Reykjavík í lestrargetu. Það er þannig þetta skimunarpróf sem við erum að nota, Læsi 2, hefur sterka fylgni við árangur á samræmdum prófum. Ef þú ert hár á Læsi 2, þá eru allar líkur til þess að þú verðir líka hár á samræmdum prófum.

Ég er á því að á næstu 3-4 árum munum við fá inn í skólana árganga sem eru betur undirbúnir til að takast á við íslensku, stærðfræði og ensku heldur en árgangar áður. Það er vegna þess að þróunarstarf í skólunum er að skila sér.
Mér sýnist sem skólarnir hafi verið að breyta kennsluháttum varanlega með það að leiðarljósi að bæta námsárangur og því munu þeir ná betri árangri en áður“.

- Við erum að sjá góðan árangur neðar og neðar úr skólastiginu. Leikskólarnir eru að leggja meiri og meiri áherslu á læsi í víðasta skilningi þess orðs og það skilar börnum betur undirbúnum upp í grunnskólann sem aftur leiðir til betri námsárangurs sé rétt á haldið.
„Leiðin fyrir Reykjanesbæ og Suðurnesin öll til að komast út úr kreppu er menntun. Hún byrjar á lestrinum og þar erum við að sjá góðan árangur. Þann góða árangur verðum við að verja og gera meiri kröfur til þessara nemenda, þannig að þau missi ekki þennan árangur og forskot sem þau hafa náð. Það er svo mín skoðun að við þurfum að standa saman og gera þetta alls staðar. Það er ekki nóg að einn og einn skóli geri þetta“.

Á meðal bestu skóla landsins

„Við eigum örugglega tvo af fimm bestu skólum landsins í stærðfræði í 4. bekk miðað við samræmd próf og mér finnst það mjög áhugavert hvað skólarnir í Reykjanesbæ eru að ná góðum árangri þar.

Á Suðurnesjum er búið að framkvæma mikið í skólum. Þetta eru flottir skólar og þeir eru vel mannaðir. Í mínu minni hafa þeir aldrei verið eins vel mannaðir og núna. Nú er framkvæmdatímanum lokið í bili. Það er kominn tími til að horfa inn á við. Við erum með tölur sem sýna að í skólum á Suðurnesjum líður börnum almennt séð vel. Ég hef bara sagt, við skulum vera góð á þessum samræmdu mælikvörðum líka“.

- Hvernig stöndum við okkur í ensku? Það hefur lengi verið talað um það að af menningarlegum ástæðum af tengslum við herstöðina á Miðnesheiði hafi enskukunnátta verið góð á Suðurnesjum. Hvernig er staðan í dag?
„Það eru ljósir punktar, en ég tel okkur eiga inni og það er greinilega eitthvað að gerast þar líka“.

- Nú er meira aðgengi t.a.m. í gegnum netið af ensku efni. Er það ekki að hafa áhrif í enskukennslu?
„Þau áhrif eru ekki meiri á Suðurnesjum en annars staðar á landinu“.

- Hvernig á að bæta námsárangurinn á Suðurnesjum?
„Ef skólastjórnendur og kennarar ná þessum markmiðum sínum að bæta námsárangur á Suðurnesjum öllum, þá gera þeir það með því að auka foreldrasamstarf og greina virka þætti í kennslunni og hafa það að leiðarljósi að nota það sem virkar og bætir árangur og hinu bara hendum við. Það verður að vera leiðin“.

- Hvernig gengur samstarfið við foreldra?
„Það er mín upplifun að það er skýr krafa frá foreldrum um að bæta námsárangur. Fulltrúar FFGÍR hafa komið til mín og óskað eftir auknu samstarfi við foreldra. Ef við ætlum að bæta námsárangur þarf að fá foreldra til samstarfs. Þá þurfum við einnig að hafa námsmat til að vita hvar nemendur eru staddir og að geta mælt námið með áreiðanlegum hætti. Þegar við höfum fengið foreldra til liðs við okkur og skoðað kennsluhættina, þá þurfum við að skoða stjórnunarteymin og greina hvað það er sem einkennir góð stjórnunarteymi en rannsóknir sýna einmitt að gæði stjórnunar hafa mikil áhrif á námsárangur. Þegar við erum svo búin að ákveða hvernig við ætlum að bæta námsárangur, þá mun okkur takast það. Þá fara menn sjálfkrafa í þann gír að leita leiða og ég finn það að það er að gerast.

Við erum ennþá stödd á þeim stað að vera undir landsmeðaltali og það er bara ekki ásættanlegt fyrir okkur. Þess vegna er það sérstakt gleðiefni fyrir íbúa á Suðurnesjum að skólastjórar séu búnir að ákveða að taka höndum saman um að bæta námsárangur á svæðinu. Það er það sem við munum gera.

Við tölum mikið um samstarf við foreldra en það má ekki gleyma nemendum. Markmiðið er að það skapist sjálfkvæmur áhugi hjá nemendum og að nemendur læri af því, að þeir hafi gaman af því. Með því að leggja áherslu á lesturinn og með því að búa börn vel undir nám á yngstu stigunum, þá verði meira gaman í skólanum því fólk hefur tilhneigingu til að njóta þess sem það hefur mikla leikni í. Skólarnir eru nú hver á fætur öðrum að bæta almenna getu til náms og gera börnin fljúgandi læs. Það mun, ef rétt er á haldið, skila sér í auknum námsáhuga hjá nemendum og bættum námsárangri“.

- Við sjáum í niðurstöðum prófa að yngri nemendur eru að skora hátt en þeir eldri eru lægri.
„Það var eitt af því sem kom út úr þessari vinnuferð með skólastjórunum, að þeir vilja skoða mjög vandlega utanumhald og eftirfylgni á miðstiginu og vinnubrögð þar. Það er í raun krafan að miðstigið nái að halda þeim árangri sem næst á yngri stigum og auðvitað bæta um betur. Við viljum fá að sjá núna stórstígar framfarir og það er ég viss um að muni gerast.
Leiðin til að ná árangri er að setja sér markmið. Síðan að búta yfirmarkmiðið niður í undirmarkmið og finna síðan leiðirnar að hverju undirmarkmiði fyrir sig. Ég er þess fullviss um að skólastjórunum og þeim kraftmiklu kennurum sem með þeim starfa muni takast það að bæta námsárangur í Reykjanesbæ og Suðurnesjum öllum á 4-5 árum og að í lok þess tímabils verðum við komin hraustlega yfir landsmeðaltalið og helst yfir meðaltal Reykvíkinga líka“.

Viðtal: Hilmar Bragi Bárðarson