Tilefni til bjartsýni í atvinnumálum
– segir Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.
„Atburðir júnímánaðar gefa okkur tilefni til bjartsýni í atvinnumálum á Suðurnesjum. Tveggja ára vinnu Suðurnesjavettvangsins um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna lauk með fundi 16. júní þar sem tækifæri til úrbóta, m.a. í atvinnumálum, voru kynnt. Lykilinntakið í þeim tækifærum var hringrásarhagkerfið, þar sem hrat eins verður auðlind einhvers annars. Fyrirmyndin af þeirri hugsun er Auðlindargarðurinn sem Albert Lewis Albertsson var hugsuður að hjá HS Orku. Fréttin sem við fengum sama dag frá HS Orku og Samherja um uppbyggingu laxeldis á landi í Auðlindagarðinum á Reykjanesi átti því einstaklega vel við. Samherji gerir ráð fyrir því að fjárfestingin sé um á 45 milljarða króna og skapi rúmlega þúsund störf, bein og óbein,“ segir Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri SSS, Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Berglind segir að eitt af stóru markmiðunum sé að auka fjölbreytnina í atvinnulífinu.
„Við sem samfélag höfum fundið vel fyrir því hversu einhæft atvinnulífið er á okkar vinnusóknar svæði. Tölfræði um Suðurnesin sýnir öll merki þess að vera nærsvæði alþjóðaflugvallar. Þær atvinnugreinar sem báru uppi hagvöxtinn á Suðurnesjum á árunum 2012–2019 eru greinar sem tengjast að hluta til ferðaþjónustu. Um er að ræða hótel, verslun, veitingahús, samgöngur og fjarskipti. Á Suðurnesjum skýra fyrrnefndar greinar 45% af 71% hagvexti svæðisins á árunum 2012–2017. Ef við skoðum atvinnutekjur á svæðinu árið 2019 voru 42% atvinnutekna á svæðinu tengdar umsvifum flugvallarins. Það má heldur ekki gleyma því að fjölbreyttari atvinnulíf, styður við vöxt Keflavíkurflugvallar og gefur honum t.d. meiri möguleika á því að byggja upp fraktflutninga.“
Margt í gangi
Tvær skóflustungur voru teknar af fjármálaráðherra á svæðinu í síðasta mánuði, önnur vegna uppbyggingar á Flugstöð Leifs Eiríkssonar og hin vegna stækkunar hjá Algalíf. Isavia áformar að bjóða út sex framkvæmdaverkefni á Keflavíkurflugvelli á þessu ári. Framkvæmdakostnaður er tæpir tólf milljarðar króna og er áætlað að framkvæmdunum verði lokið í ár eða á næsta ári og framkvæmdir við Algalíf eru upp á fjóra milljarða króna. Þá er HS Orka með stórframkvæmdir við stækkun Reykjanesvirkjunar, Landhelgisgæsla Íslands er að vinna að endurbótum á flugskýli og flughlaði sem og uppbyggingu á gistirýmum.
Eldgosið vinsælt
„Nú þegar landið er að opnast fyrir bólusettum erlendum ferðamönnum megum við búast við því að ferðamönnum fjölgi á svæðinu. Við höfum í samstarfi við Íslandsstofu fylgst vel með erlendri umfjöllun af eldgosinu í Fagradalsfjalli, til að byrja með til að tryggja að rétta umfjöllun og leiðrétta misskilning í umfjöllunum. Við höfum fundað með fulltrúum Íslandsstofu og erlendu fjölmiðlaskrifstofum til að tryggja áframhaldandi frásagnir af gosinu og tengja við sögur af svæðinu, samfélagið og fólkið sem stendur vaktina við gosið og að Reykjanesskaginn sé skráður sem Reykjanes UNESCO Global Geopark. Samkvæmt samantekt Íslandsstofu um umfjöllun um eldgosið 19. mars til 5. maí 2021 er áætlað að greinar um gosið hafi fengið lestur 30 milljarða sinnum og virði umfjallana er upp á um átta milljarða íslenskra króna.“
Atvinnuleysi á niðurleið
Í lok mars mánaðar var atvinnuleysi 23% en hefur sem betur fer farið lækkandi. Það er því alveg ljóst að það er mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að halda áfram að vaxa og dafna og fjölga atvinnutækifærum á Suðurnesjum, fá fjölbreyttari störf inn á svæðið og tengja saman fyrirtæki og aðila sem geta veitt súrefni inn í atvinnulífið,“ segir Berglind.
Viljayfirlýsing um hringrásargarð á Suðurnesjum undirrituð
Á fundi Suðurnesjavettvangs um sjálfbæra framtíð Suðurnesja, skrifuðu sveitarstjórar og fyrirtæki á svæðinu undir viljayfirlýsinu um hringrásargarð á Suðurnesjum. Fundurinn fór fram í Hljómahöll 16. júní og voru kynntar niðurstöður tveggja ára vinnu um hvernig efla á atvinnulíf og styrkja innviði Suðurnesjanna í átt að sjálfbærri framtíð.
Suðurnesjavettvangur er samstarf sveitarfélaganna fjögurra á Suðurnesjum, Isavia, Kadeco og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Í viljayfirlýsingunni lýstu aðilar að Suðurnesjavettvanginum og fyrirtæki á svæðinu yfir vilja til þess að vera þátttakendur í þeirri vinnu sem snýr að mótun og þróun hringrásargarðs.
Fram kemur í yfirlýsingunni að Suðurnesin séu frumkvöðlar á Íslandi í mótun hringrásarhugsunar í atvinnulífi og Auðlindagarðurinn í Svartsengi, undir forystu HS Orku, er dæmi og fyrirmynd um slíkt. Hugmyndafræðin á bak við garðinn sé í grunninn sú að aðilar leitast við að deila, selja og/eða kaupa aukaafurðir vegna starfsemi sinnar, með það að markmiði að auka árangur í efnahags-, umhverfis- og félagslegum málum, sem falli vel inn í stefnu þeirra.
Ásamt fjölmörgum erindum á fundinum voru pallborðsumræður þar sem þátttakendur voru Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra,Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, Anna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri þjónustu- og rekstrarsviðs Isavia, og Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco. Rætt var um möguleika Suðurnesja í því að styrkja atvinnulífið og gera það fjölbreyttara. Snúa vörn í sókn.
Aðilar að viljayfirlýsingunni eru:
KADECO
Isavia
HS orka
Carbon recycling
Hornsteinn
Pure North Recycling
Terra
Íslenska gámafélagið
Iðunnh2
Kalka
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum f.h. sveitarfélaganna á Suðurnesjum.