Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Þetta eru krakkarnir okkar og við viljum að þeim vegni sem best“
Frá fundi sem haldinn var síðasta vor með 10. bekkingum og forráðamönnum.
Föstudagur 23. september 2016 kl. 06:00

„Þetta eru krakkarnir okkar og við viljum að þeim vegni sem best“

Grindavíkurbær á í samstarfi við ýmis fyrirtæki í bæjarfélaginu og við Fjölbrautaskóla Suðurnesja um að útvega 16 til 18 ára unglingum atvinnu kjósi þau að hverfa frá námi. Verkefnið kallast Netið og hefur undirbúningur staðið yfir í eitt ár. Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs hjá  Grindavíkurbæ, segir þá nemendur sem luku námi síðasta vor vera nokkurs konar tilraunadýr verkefnisins. „Nú eru þau komin í framhaldsskóla og við fylgjum þeim eftir og veitum stuðning ef á þarf á að halda. Fjölbrautaskóli Suðurnesja er með ýmis mjög góð úrræði og verkefnið okkar er viðbót við þau,“ segir hann. Strax er farið að reyna á Netið og segir Þorsteinn það hafa sýnt sig að það virki.

Sjávarútvegs- og þjónustufyrirtæki og verkstæði í Grindavík taka þátt í verkefninu og segir Þorsteinn einkar ánægjulegt hve vel forsvarsmenn þeirra tóku í hugmyndina. Gerður hefur verið samningur við fyrirtækin og greiðir bærinn hluta af launum unga fólksins. „Oft hefur unga fólkið frumkvæði að því að fara út á vinnumarkaðinn og það er hið besta mál en við höfum líka dæmi um fólk sem hefur ekki haft það frumkvæði eftir að hafa hætt námi og því lent á milli. Það eru þessir krakkar sem við viljum hjálpa. Þess vegna heitir verkefnið Netið því við viljum þétta netið í kringum þau.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þorsteinn segir að bæjaryfirvöldum í Grindavík hafi verið aldurshópurinn 16 til 18 ára hugleikinn og þá sér í lagi sú viðhorfsbreyting sem verður þegar þau hefja nám í framhaldsskóla. Haldinn var fundur með foreldrum 10. bekkinga síðasta vor þar sem málin voru rædd, þar á meðal sú staðreynd að góður árangur hafi náðst við að minnka neyslu áfengis meðal grunnskólanemenda en að nokkrum mánuðum síðar séu þau komin í framhaldsskóla og þá virðast viðhorfin til þess breytast. „Þarna náðum við sambandi við nemendur og foreldra þeirra áður en þau fóru úr grunnskólanum og í skóla í öðrum bæjarfélögum. Það kom skýrt fram að foreldrar vilja meiri stuðning við að fylgja börnum sínum eftir á þessum aldri.“ Þorsteinn segir gott að unga fólkið viti að það hafi traust bakland í sinni heimabyggð ef á þurfi að halda. „Það má segja að með verkefninu séum við að opna faðminn fyrir þessa krakka. Ef þau þurfa á því að halda erum við tilbúin að taka utan um þau og hjálpa eins og við mögulega getum. Okkur finnst mikilvægt að ná utan um þennan aldur áður en þau verða sjálfráða því þetta eru krakkarnir okkar og við viljum að þeim vegni sem best. Því viljum við gera allt til að efla þau í því sem þau taka sér fyrir hendur.“

Grindavíkurbær hefur kynnt verkefnið fyrir skólastjórnendum á Suðurnesjum og segir Þorsteinn þá hafa sýnt því mikinn áhuga. Þá var það einnig kynnt á Félagsráðgjafaþingi í febrúar síðastliðnum.