„Það þarf að bæta gæði ferðaþjónustunnar“
- Segir Valdís Steingrímsdóttir, sérfræðingur hjá Hæfnisetrinu
„Samkvæmt könnun Ferðamálstofu frá árinu 2014 töldu 40% ferðamanna að gæði ferðaþjónustu þyrfti að bæta.“ Þetta segir Valdís Steingrímsdóttir, sérfræðingur hjá Hæfnisetrinu en Miðstöð símenntunnar á Suðurnesjum (MSS) og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar eru að fara af stað með verkefni þar sem að ferðaþjónustufyrirtækjum gefst kostur á því að taka þátt í því að auka hæfni starfsmanna í greininni.
Hæfnisetrið er samstarfsverkefni hagsmunaaðila í ferðaþjónustunni til að auka hæfni starfsmanna ferðaþjónustunnar og er í samvinnu um fræðsluverkefni við símenntunarmiðstöðvar á landsvísu.
„Skilaboðin frá ferðamönnum eru skýr,“ segir Valdís í samtali við Víkurfréttir. „Það þarf að bæta í gæðin þegar kemur að íslenskri ferðaþjónustu. Við í Hæfnisetrinu teljum að ein mikilvægasta leiðin til þess sé að auka hæfni starfsfólks í greininni og það gerum við með markvissri þjálfun og fræðslu í samstarfi við fræðsluaðila og með þjálfun og fræðslu munum við auka gæði og hæfni í ferðaþjónustunni.“
MSS mun sjá um framkvæmd verkefnisins hér á Reykjanesi og er ferðaþjónustufyrirtækjum boðið að taka þátt í þessu tilraunaverkefni. MSS mun vera umsjónaraðili fræðslunnar, sem verður sérsniðin að hverju fyrirtæki. Í MSS starfar einvala lið sérfræðinga með mikla reynslu af þjálfun og fræðslu og mun Hæfnisetrið koma að verkefninu með ráðgjöf og öðrum stuðningi.
Hlutverk Hæfniseturs ferðaþjónustunnar er að starfa á forsendum ferðaþjónustunnar til að auka hæfni starfsfólks og þar með auka gæði, fagmennsku, starfsánægju og arðsemi greinarinnar. Hæfnisetrið var sett á stofn í janúar 2017 með undirritun þjónustusamnings ráðherra ferðamála, Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.
Þörfin fyrir þjálfun og fræðslu í fyrirtækjum verður metin og greind og í kjölfarið útbúin fræðsluáætlun eftir þörfum og óskum hvers fyrirtækis og í samráði við stjórnendur og starfsmenn. MSS sér um að koma áætluninni í framkvæmd í nánu samstarfi við fyrirtækið og á forsendum þess. „Við leggjum áherslu á samvinnu við greinina, aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvöld við að aðstoða fyrirtækjum að koma á markvissri fræðslu í fyrirtækjum, þróa leiðtogafræðslu og námslotur fyrir starfsmenn í ferðaþjónustu, þrepaskipt starfsnám og raunfærnimat í starfsgreinum ferðaþjónustunnar,“ bætir Valdís við.
„Fjárfesting í hæfni starfsfólks með fræðslu og þjálfun er grundvallaratriði í sókn íslensku ferðaþjónustunnar til að auka gæði, starfsánægju, framleiðni og arðsemi. Fjárfesting sem skilar sér fljótt,“ segir Valdís að lokum.
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum veitir allar nánari upplýsingar.