Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Sundþjálfaramálið í Vogum: „Tvöfeldni og trúnaðarbrestur
Föstudagur 13. október 2006 kl. 15:17

Sundþjálfaramálið í Vogum: „Tvöfeldni og trúnaðarbrestur"

-segir m.a. í opnu bréfi foreldrafélagsins til bæjarstjóra


 Kraumandi óánægja er á meðal foreldra í Vogum vegna sundþjálfaramálsins. Stjórn foreldrafélags Sunddeildar Þróttar skrifaði nýlega opið bréf til bæjarstjórans, Róberts Ragnarssonar, vegna þessa. Þar er furðu lýst á ákvörðun bæjarstjórnar og hún sögð á skjön við stefnuyfirlýsingu meirihlutans.

Vinnubrögð stjórnar Þróttar eru í bréfinu sögð sorgleg og  framjóðandi meirihlutans, sem sæti átti í stjórn foreldrafélagsins, er sakaður um tvöfeldni og trúnaðarbrest „þegar honum var treyst fyrir stuðningsbréfi til bæjarstjóra undirritað af okkur í foreldrafélaginu en ákvað að afhenda það ekki, né að láta neinn í foreldrafélaginu vita af því að hann hafið ekki afhent það fyrr en rúmum mánuði síðar,“ eins segir í bréfinu.

Komið hefur fram í umfjöllun hér á VF að bæjaryfirvöldun var á dögunum afhentur undirskriftalisti vegna málsins og ræddi VF við Róbert Ragnarsson, bæjarstjóra, vegna  þess þar sem hann skýrði sjónarmið bæjaryfirvalda.

Bréfið sem stjórn foreldrafélagins sendi frá sér er svohljóðandi:

„Opið bréf.
 
Vogum  20. september 2006
Róbert Ragnarsson
Bæjarstjóri sveitarfélagsins Voga
 
Við undirritaðar þ.e. stjórn foreldrafélags sunddeildar Þróttar viljum koma á framfæri okkar þætti í máli því sem mikið verið hefur verið rætt hér í sveitarfélaginu, þá aðallega manna á milli og oft með mikilli neikvæðni í okkar garð. Okkar hlutverk er að styðja við og efla sundstarfið og höfum því starfað náið með fyrrverandi þjálfara, þar fyrir utan að hafa haft börnin okkar í sundi hjá sama þjálfara um lengri eða skemmri tíma.

Árangurinn af 6 ára starfi þjálfarans er flestum kunnur bæði hér í sveitarfélaginu og víðar og þarf ekki að fjölyrða um hann enda enginn gert athugasemdir við störf viðkomandi aðila hvorki sem þjálfara né framkvæmdarstjóra Þróttar

Þegar f.v.framkvæmdarstjóri Þróttar fór að huga að því hvort áframhald yrði á starfi sínu mætti hún miklu tómlæti og fékk enginn svör í langan tíma, en þeir sem þekkja til starfa hennar vita að hún er ótrúlega skipulögð og samviskusöm og er það sennilega stór þáttur í árangri hennar í þjálfun og starfi, og til gamans má geta að áður en hún hætti var hún búin að skipuleggja þau mót og þær uppákomur þ.e. æfingabúðir, pítsuveislur, bíóferðir og fl. fram að áramótum, en loksins fær hún þó þau svör frá forseta bæjarstjórnar og formanni Þróttar að allt verði óbreytt. Var okkur í foreldrafélaginu stórlega létt við þessar fréttir og héldum að allt væri í góðu lagi, en viku seinna kom í ljós að meirihluti bæjarráðs hugðist breyta formi styrkjarins til Þróttar. Þessar breytingar á því sem áður hafði verið sagt, urðu svo því miður til þess að þjálfarinn hætti störfum

Furðum við okkur á því að bæjarstjórn hafi nauðsynlega þurft að formbreyta styrkveitingu vegna framkvæmdarstjórastöðu Þróttar  þó svona samningar séu mjög algengir í sveitarfélögum sem og hjá Reykjavíkurborg einnig fer þetta á skjön við stefnuyfirlýsingu meirihlutans þar sem er stefnt að samræmingu á starfsemi Þróttar og starfsemi skólans, en stór kostur var samþætting þessara tveggja starfa þannig að hægt var hafa sundæfingar fyrr á deginum og tengja við stundartöflu skólans, sem var alveg frábært sérstaklega fyrir yngstu iðkendurna, en hafa ber í huga að nálægt 40 % allra barna í grunnskólanum iðkar sund og er það mikil afturför að þurfa að færa æfingar fram á kvöldin sem kann að þýða brottfall iðkenda sem er að sjálfsögðu mjög slæmt, sérstaklega þegar tekið er tillit til forvarnargildi þess að stunda íþróttir sem og annarra þátta sem snúa að heilsufari.

Svo kemur að þeim furðulegu sögusögnum að foreldrafélagið sé eingöngu að vinna í pólitískum tilgangi og gangi erinda H-lista, en sannleikurinn er sá að stjórn foreldrafélagsins  finnst aðkoma meirihlutans og þá sérstaklega ákveðinna aðila innan meirihlutans sem voru bæði í bæjarstjórn og í stjórn ungmennafélagsins vafasöm, og ef einhver pólitík er í þessu máli þá er það frá meirihlutanum í bæjarstjórn og tengdum aðilum, sem hafa með öllum ráðum reynt að fela misök sín frekar en að viðurkenna þau og viljum við benda á að ENGINN í foreldrafélaginu er á framboðslista H-listans.

Finnst okkur það einkennilegt sérstaklega þar sem forseti bæjarstjórnar hafði vitneskju um það að framkvæmdastjórinn myndi láta af störfum sem fr.kv.stj. og sundþjálfari, en neitar síðan á bæjarstjórnarfundi að hafa vitað af því. Þá er það skrítið að formaður bæjarráðs virðist ekki fara með rétt mál á bæjarráðsfundi varðandi fund sinn með fyrrv. framkvæmdastjóra?
  
 Þá ber að geta þess að í stjórn foreldrafélagsins var einn af frambjóðendum meirihlutans sem varð uppvís að ótrúlegri tvöfeldni í garð annarra stjórnarmanna og að okkar mati braut hann gróflega trúnað gagnvart stjórninni þegar honum var treyst fyrir stuðningsbréfi til bæjarstjóra undirritað af okkur í foreldrafélaginu en ákvað að afhenda það ekki né að láta neinn í foreldrafélaginu vita af því að hann hafið ekki afhent það fyrr en rúmum mánuði síðar eftir að hafa verið inntur eftir því hvort hann hefði ekki örugglega afhent bréfið, og kom þá í ljós að hann hafi ekki afhent bréfið og að honum hafi þótt ástæða til að setja bréfið í tætarann hjá sér, einnig höfum við heyrt það að þessi sami aðili hafi verið rekinn úr foreldrafélaginu af því að hann neitaði að skrifa undir undirskriftarlista þann sem afhentur er bæjarstjóra við sama tækifæri og þetta bréf er afhent, en sú er ekki raunin hann baðst undan því að skrifa á listann sem og að koma með í undirskriftarsöfnunina af því að hann hafið verið á framboðslista E-listans og of tengdur E-listanum sem var sjálfsagt af hálfu foreldrafélagsins, en hins vegar kom dóttir hans með leyfi foreldra sem og önnur börn sem fóru með, þau börn sem ekki voru með leyfi foreldra voru send heim.

 Sorglegt hefur verið að sjá vinnubrögð stjórnar Þróttar í þessu máli en svo virðist vera að hún hafi tekið þátt í þessum leik eins og fram kom þegar foreldrafélagið hélt kveðjupartý með sundkrökkunum og fráfarandi þjálfara í Íþróttamiðstöðinni  þá ákvað stjórn Umfþ að vera með skráningu í sundið á sama tíma og stað sem og að flagga nýjum þjálfara sem við höfðum ítrekað reynt að fá upplýsingar um, og annað dæmi  er ráðning nýs framkvæmdarstjóra daginn fyrir aukaaðalfund ungmennafélagsins Þróttar sem að okkar mati var óstarfhæf á þeim tíma og er það tilviljun að sá framkvæmdarstjóri sé af framboðslista E lista ? Ekki ber á neinn hátt að líta á þetta sem ádeilu á nýjan framkvæmdastjóra sem er prýðismanneskja heldur einungis tímasetningu og framkvæmd ráðningarinnar. Einnig finnst okkur það einkennilegt í ljósi þess að aðili sem var á framboðstlista E-listans hafði lýst því yfir snemma í vor að þáverandi frkvst. hafi verið ráðinn af fyrrverandi bæjarstjóra og hefur ekki farið leynt með óánægju sína með þá ráðningu, og þess má geta einnig að þessi sami aðili sem var í stjórn þróttar þegar þessi “ H-lista ráðning “ eins og hann komst að orði fór fram sagði sig úr stjórn Þróttar af því að hann var á móti þessari ráðningu, hvar var þessi aðili þegar nýr framkvæmdarstjóri var ráðin við frekar vafasamar aðstæður.

Finnst okkur það einnig einkennilegt að annar stjórnarmaður í Þrótti og bæjarstjórnarmaður E-listans ákvað á svo mjög óheppilegum tíma miðað við niðurstöðu og aðferð sem notuð var í þessu máli að blanda sér í mál Umfþ, sérstaklega í ljósi þess að hann hafði ekki mætt á fundi hjá Umfþ um margra mánaða skeið.

Finnst okkur það einnig miður hvernig stjórn Þróttar vann á móti okkur í foreldrafélaginu þegar nýr þjálfari var ráðinn, t.d. var okkur ítrekað neitað um símanúmerið hjá henni en höfðum við mikinn áhuga á hitta hana sem fyrst bæði til að  kynna okkur og bjóða fram aðstoð okkar og vorum við ekki sáttar við að henni hafi verið fleygt inn í þessar undarlegu og erfiðu aðstæður án nokkurs undirbúnings eða fyrirvara hvað þá samráðs, sérstaklega með það í huga að við værum stjórn sunddeildar eins og stjórn umfþ taldi allt í einu að væri mikið atriði.

Finnst okkur einnig undarlegt að stjórn Þróttar hafi þótt nauðsynlegt að loka aðgangi fráfarandi framkvæmdarstjóra og þjálfara að heimasíðu félagsins í ágúst þrátt fyrir að hún væri enn í vinnu hjá Sveitarfélaginu sem fr.kv.st. í ” varnaðarskyni” og leikur okkur enn forvitni á að vita hvaða ógn hafði stjórn Þróttar af henni sérstaklega í ljósi þeirrar vinnu og fórnsemi sem hún lagði í uppbyggingu þeirrar íþróttaiðkunnar sem verið hefur í Sveitarfélaginu sem og mikillar hagsýni sem hún sýndi þegar hún tók að sér að snúa algerlega við fjármálum Umfþ sem var í stórum mínus þegar hún tók við en var kominn í tvöfalt stærri plús þegar hún hætti.
  
Langar okkur einnig að nefna fund þann sem við vorum boðaðar á hjá Íþrótta og tómstundanefnd vegna neikvæðrar umræðu í sveitarfélaginu, í fundargerðinni kemur hvergi fram að formaður Ungmennafélags Íslands hafi verið boðaður á fundinn né hver niðurstaða fundarins hafði verið einungis var sagt frá því að foreldrafélaginu hafi verið bent á að það sé Sunddeild Þróttar en ekki foreldrafélag sem við reyndar vissum ekki en fannst okkur það ekki koma þessu máli mikið við, og finnst okkur það enn undarlegra að Magnús H. undirritar fundargerðina þrátt fyrir að hafa vikið af fundi fljótlega eftir að hann hófst og er þess heldur ekki getið í fundargerðinni.

Stjórn foreldrafélagsins harmar mjög hvernig mál hafa þróast og telur að vel hefði mátt koma í veg fyrir allt þetta mál, gerir stjórnin þá kröfu að fyrrverandi sundþjálfari geti fengið að ganga frá sínu starfi með beint bak eins og hún á svo sannarlega skilið, stjórn foreldrafélagsins / sunddeildar mun halda áfram að vinna að uppgangi sundsins hér í Vogunum, og mun með sama hætti styðja við bakið á nýjum sundþjálfara og þá sem fyrr eingöngu með hagsmuni barnanna okkar í huga en þeir hagsmunir hafa greinilega ekki verið í forgangi hjá öllum í þessu máli.

Hér hefur aðeins verið minnst á það helsta í máli þessu og er þessi upptalning alls ekki tæmandi.
Vonandi skýrir þetta bréf að einhverju leiti okkar afstöðu og aðgerðir og kveður niður þann orðróm að einhver pólitik hafi ráðið þar mestu um sem er af og frá, þó svo að minnihluti bæjarstjórnar hafi einnig verið ósáttur við þau vinnubrögð sem viðhöfð voru en það allt annað mál og það má eflaust kalla pólitík .
Víð breytum ekki neinu í þessu máli, og það er kominn ný stjórn í u.m.f.Þ. sem vonandi vinnur af heilindum að málefnum félagsins, þannig að við getum öll unnið saman að því að viðhalda og efla íþróttastarfið í bæjarfélaginu okkar.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024