Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stórátaki um úrbætur í aðgengismálum fyrir fatlað fólk ýtt úr vör
Föstudagur 7. maí 2021 kl. 18:52

Stórátaki um úrbætur í aðgengismálum fyrir fatlað fólk ýtt úr vör

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, ýttu í dag úr vör stórátaki um úrbætur í aðgengismálum fyrir fatlað fólk í samvinnu við Öryrkjabandalag Íslands og sveitarfélög um land allt. 

Ríki og sveitarfélög munu taka höndum saman um að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk í opinberum byggingum, almenningssamgöngum, útivistarsvæðum og almenningsgörðum svo dæmi séu tekin. Alls verður um 700 milljónum kr. varið í úrbætur á aðgengismálum á tímabili átaksins til loka árs 2022. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga leggur fram helming fjármagns í úrbætur á móti sveitarfélögum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samkomulag um átakið var undirritað í Hæfingarstöðinni á Ásbrú í Reykjanesbæ. Auk ráðherranna skrifaði Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins undir samkomulagið. Fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga skrifuðu undir þau Aldís Hafsteinsdóttir, formaður, og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri. 

Tilgangur átaksins er að uppfylla markmið í framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðra um að fatlað fólk hafi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra en sveitarfélög á Íslandi gegna lykilhlutverki við að ná því markmiði.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra: 
„Aðgengismál fatlaðs fólks hafa verið óviðunandi alltof lengi. Með þessu stórátaki taka ríki og sveitarfélög höndum saman um stórátak sem veitir í heildina ríflega 700 milljónum króna til að bæta aðgengi fatlaðra að byggingum sveitarfélaga. Ég fagna sérstaklega þátttöku Öryrkjabandalags Íslands í verkefninu enda býr bandalagið yfir ómetanlegri þekkingu sem á eftir að nýtast sveitarfélögunum vel í framkvæmdum næstu tvö árin."

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: 
„Við erum með þessu verkefni að fylgja á eftir framkvæmdaráætlun í málefnum fatlaðs fólks og það getur nú stundum verið þannig að þegar við erum að setja áætlanir og búa til stefnur þá raungerast þær ekki nema fjármagnið fylgi. Þess vegna er ánægjulegt að við séum að setja þetta verkefni af stað hér í dag vegna þess að við höfum tryggt fjármagnið og þá raungerist stefnan. Það er ekki nóg að vera með falleg orð á blaði, þeim þurfa að fylgja aðgerðir og því fögnum við hér í dag.“

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands: 
„Það er ánægjulegt að fara í þetta samstarf til að bæta aðgengi fatlaðs fólk sem er víða af skornum skammti. Við vonumst til að það marki upphaf útbóta í sveitarfélögum landsins og stuðli að því að fötluðu fólki verið gert kleift að lifa sjálfstæðu lífi til jafns við aðra."


Stóraukin framlög úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga leikur stórt hlutverk í átakinu og stuðningur til sveitarfélaga vegna úrbóta í aðgengismálum fatlaðs fólks verður stóraukinn. Jöfnunarsjóður mun veita fjárstyrki til úrbótaverkefna en framlag sjóðsins verður 50% á móti framlagi sveitarfélaga.

Fasteignasjóði Jöfnunarsjóði er samkvæmt nýlegri reglugerð heimilt, á árunum 2021 og 2022, að úthluta samtals 363 m.kr. í sérstök framlög til úrbótaverkefna. Heildarupphæð styrkja á tímabilinu geta því numið yfir 700 milljónum kr. Dæmi um verkefni sem styrkt verða eru: 

  • Úrbætur á aðgengi fatlaðs fólks að byggingum í eigu sveitarfélaga eða þar sem um er að ræða byggingar í eigu annarra aðila en sveitarfélaga þar sem um samvinnuverkefni sveitarfélaga og einkaaðila er að ræða.
  • Úrbætur til að biðstöðvar almenningssamgangna verði aðgengilegar öllu fötluðu fólki, svo og útivistarsvæði og almenningsgarðar.
  • Úrbætur sem lúta að viðeigandi aðlögun á vinnustöðum fatlaðs fólks, sem starfræktir eru skv. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.


Aðgengisfulltrúar verði skipaðir

Í samkomulaginu er einnig fjallað um nauðsyn þess að opinberir aðilar skipi aðgengisfulltrúa og að hlutverk þeirra verði að sjá til þess að gerðar séu úttektir á aðgengi, þ.e. á þjónustu og starfsemi viðkomandi aðila í víðum skilningi. Leiði úttekt í ljós að úrbóta sé þörf hlutist aðgengisfulltrúi til um að gerðar séu tímasettar áætlanir um úrbætur. Um þetta er fjallað í aðgerð A.3 í framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðra.


Verkefnisstjóri og sumarstörf

Samstarfsteymi, skipað fulltrúum allra samningsaðila, mun sjá um framkvæmd átaksins og árangur þess. Öryrkjabandalag Íslands mun ráða tímabundið sérstakan verkefnisstjóra, með stuðningi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sem vinnur með sveitarfélögum að mótun verkefna í samstarfi við aðgengisfulltrúa og aðra sem sinna aðgengismálum einstakra sveitarfélaga, sem gætu verið vel til þess fallin að falla undir styrkveitingu Jöfnunarsjóðs.

Félagsmálaráðuneytið mun í samvinnu við Öryrkjabandalag Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga ráða námsfólk til sumarstarfa 2021 og eftir atvikum 2022 til að vinna að aðgengismálum hjá sveitarfélögunum. Samband íslenskra sveitarfélaga mun vekja athygli sveitarfélaga á átakinu og þeim möguleikum sem standa til boða í tengslum við framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.