Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

SpKef muni gegna mikilvægu hlutverki í framtíðinni fyrir sparisjóðakerfið í landinu
Föstudagur 19. nóvember 2010 kl. 16:13

SpKef muni gegna mikilvægu hlutverki í framtíðinni fyrir sparisjóðakerfið í landinu

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra telur að SpKef sparisjóður geti orðið nægilega stór eining til að mynda kjölfestu í sparisjóðakerfinu. Slík kjölfesta sé nauðsyn til að viðhalda kerfinu. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar varaþingmanns Framsóknarflokksins á Alþingi um um Sparisjóðinn í Keflavík, Spkef sparisjóð, Byr sparisjóð og Byr hf.?Birgir spurði meðal annars hvaða rök og hugmyndir eru að baki því að Byr sparisjóður var gerður að hlutafélagi en Sparisjóðurinn í Keflavík áfram látinn vera sparisjóður?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


„Það sem mælti með hlutafélagaforminu í tilviki Byrs, fyrir utan almenn rök sem færa má fyrir því félagaformi, er að um nokkuð stóra fjármálastofnun er að ræða sem kostnaðarsamt hefði orðið fyrir ríkið að endurreisa sem sparisjóð. Landfræðilega standa ekki sömu rök til þess að endurreisa Byr sem sparisjóð og í tilviki Sparisjóðsins í Keflavík. Hlutafélagaformið var talin betri leið með tilliti til endurfjármögnunar eða sölu í framhaldinu, en telja verður að hlutafélagabanki sé áhugaverðari fjárfestingarkostur, m.a. vegna takmarkana á arðgreiðslum í tilviki sparisjóða.


Ríkur vilji er hjá stjórnvöldum til þess að viðhalda sparisjóðakerfinu í landinu. Svo það megi verða er talið að til þurfi að vera nægjanlega stór eining stofnfjársparisjóðs til að mynda kjölfestu í kerfinu og að Sparisjóðurinn í Keflavík geti verið slíkur aðili. Þá er Sparisjóðurinn í Keflavík með starfsstöðvar víða á Vestfjörðum og þess vegna var farin sú leið að láta hann viðhalda sínu félagaformi“.


Hvað eiga bráðabirgðastjórnir Sparisjóðsins í Keflavík og Byrs sparisjóðs að starfa lengi, hvert er hlutverk þeirra og hver ákveður og greiðir laun stjórnarmanna?
„Bráðabirgðastjórn í fjármálafyrirtæki er skipuð skv. 100. gr. laga nr. 161/2002, en þar er starfstími þeirra einnig ákvarðaður. Í tilviki Sparisjóðsins í Keflavík og Byrs sparisjóðs voru bráðabirgðastjórnir skipaðar í sjóðunum samkvæmt ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins sem voru teknar fyrir sjóðina 22. apríl 2010. Í ákvörðununum er einnig gert ráð fyrir kostnaði við rekstur slitastjórnanna.
Hinn 23. júlí úrskurðaði Héraðsdómur Reykjaness að Sparisjóðurinn í Keflavík skyldi tekinn til slitameðferðar og 2. júlí úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur að Byr sparisjóður skyldi tekinn til slitameðferðar. Það var gert að beiðni bráðabirgðastjórna sparisjóðanna. Skv. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009, um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, skipaði héraðsdómur sjóðunum þriggja manna slitastjórn. Með þeim úrskurðum lauk hlutverki bráðabirgðastjórnanna“.


Hverjir eru kröfuhafar Sparisjóðsins í Keflavík og Byrs sparisjóðs?
„Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um það hverjir eru kröfuhafar Sparisjóðsins í Keflavík og Byrs sparisjóðs. Viðkomandi slitastjórnir sjá um samskipti við kröfuhafa sjóðanna“.


Hvert er hlutverk Bankasýslu ríkisins er lýtur að Sparisjóðnum í Keflavík, Byr sparisjóði, Spkef sparisjóði og Byr hf.?
„Hlutverk Bankasýslu ríkisins lýtur að því að fara með eignarfyrirsvar í fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins. Fjármálaráðuneytið felur Bankasýslunni að fara með eignarhald ríkisins í þessum fjármálafyrirtækjum að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu og fjármögnun þeirra“.


Hvernig samræmist 5 milljarða kr. lán ríkissjóðs til Byrs hf. ábendingum Bankasýslunnar um að bankakerfið sé allt of stórt?
„Það varð niðurstaða í samningum á milli ríkisins og slitastjórnar Byrs sparisjóðs að ríkið mundi eiga 5,2% eignarhlut í Byr hf. og jafnframt veita félaginu 5 milljarða kr. víkjandi lán. Þessi niðurstaða lágmarkar kostnað ríkisins við endurreisn Byrs hf.
Með vísan í svar við 1. tölul. er talið að rekstur fjármálafyrirtækis í hlutafélagi geti auðveldað þá nauðsynlegu hagræðingu sem fyrirsjáanlega þarf að eiga sér stað í bankakerfinu á Íslandi“.


Er unnið að stefnumótun varðandi framtíð sparisjóðakerfisins?
„Bankasýsla ríkisins vinnur að stefnumótun varðandi framtíð sparisjóðakerfisins“.


Hvenær verða stofnefnahagsreikningar fyrir SpKef sparisjóð og Byr hf. birtir og hvenær verða birtar upplýsingar um rekstur þessara fyrirtækja?
„Stofnefnahagsreikningar verða birtir að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu sem vonast er til að verði innan fárra vikna. Samkvæmt eigendastefnu skulu fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins birta fjárhagsupplýsingar sínar ársfjórðungslega“.


Er unnið að greiningu á svokölluðum stofnfjárbréfalánum, þ.e. athugaður fjöldi lána og lántaka, upphæð lána o.s.frv.?
„Slík greining hefur ekki verið unnin í fjármálaráðuneytinu og ekki heldur í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu“.


Hefur verið unnið að tillögugerð um aðstoð við þá sem tóku slík lán og eru í flestum tilvikum í sjálfskuldarábyrgð fyrir þeim og ef svo er, hefur komið til tals að fella niður skuldir?

„Engin sérstök tillögugerð hefur verið unnin af hálfu ráðuneytisins vegna þeirra sem tóku lán til að fjárfesta í stofnfé á undangengnum árum. Á einhver slík mál reynir nú fyrir dómstólum eða þau kunna sæta rannsókn og mun staðan væntanlega skýrast í kjölfarið“


Í samtali við Víkurfréttir sagði Birgir Þórarinsson að það sé ánægjulegt að fjármálaráðherra sér fyrir sér að SpKef muni gegna mikilvægu hlutverki í framtíðinni fyrir sparisjóðakerfið í landinu.
„Ég sakna þess hins vegar að ráðherra hefur ekki svör við fyrirspurn minni um stofnefnahag SpKef, sem og hvernig verði tekið á svokölluðum stofnfjárbréfalánum, sem margir voru hreinlega þvingaðir til að taka á sínum tíma,“ sagði Birgir.