Skrifaði innanríkisráðherra opið bréf
- Biður um útskýringar á því hvaða lög sé verið að brjóta í almenningssamgangnamálum.
„Ég bið þig um að útskýra fyrir okkur hérna megin við Reykjanesbrautina hvaða lög sérfræðingarnir í ráðuneytinu segja að Suðurnesjamenn séu að brjóta,“ segir Bryndís Gunnlaugsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Grindavík og stjórnarmaður í SSS í opnu bréfi til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, á Vísi í dag.
Bryndís segist hafa fylgst með Hönnu Birnu á Alþingi fimmtudaginn 13. febrúar sl. þar sem ræddar voru almenningssamgöngur og þá sérstaklega staða þeirra á Suðurnesjum. Bryndís hafi fylgst vel með þessu máli og sitji í stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, sem er með samning við Vegagerðina um að sjá um almenningssamgöngur á Suðurnesjum.
Í kjölfar umræðunnar hafi hún setið eftir með nokkrar spurningar sem hana langaði að fá svör við. „Það kemur kannski ekki á óvart því þrátt fyrir orð þín á þingi um að fundarhöldin milli ráðuneytisins og SSS síðasta sumar hafi verið löng og ströng þá funduðum við bara einu sinni um þessi mál. Í ræðu þinni kom fram að þú teldir leiðina Flugstöð Leifs Eiríkssonar – Reykjavík ekki geta verið hluta af almenningssamgöngukerfinu þar sem það væri andstætt lögum en þú nefndir aldrei andstætt hvaða lögum. Nú grunar mig að þú vísir í álit Samkeppniseftirlitsins. Það er samt þannig að Samkeppniseftirlitið getur aðeins metið hvort samkeppnislög eru brotin,“ segir Bryndís.
Ennfremur segir Bryndís að í bréfi Vegagerðarinnar til SSS sé vísað í að EFTA hafi sagt fyrirkomulagið vera ólögmætt. Hún hafi afrit af þessum bréfaskriftum. Þar komi fram að EFTA hafi ætlað sér að skoða málið en innanríkisráðuneytið svarað á þá leið að lögunum yrði breytt. Því þyrfti ekki að skoða fyrirkomulagið og málinu væri þá lokið. Það er því ekki hægt að halda því fram að EFTA hafi sagt fyrirkomulagið ólögmætt enda engin formleg niðurstaða heldur aðeins upphaf að athugun og bréfaskipti þar sem aldrei komu fram allar staðreyndir málsins.
Því biður Bryndís innanríkisráðherra um að upplýsa sig, og aðra sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum, hvaða lög sé verið að brjóta. „Þannig virka nefnilega samræður milli aðila, einn leggur fram sín rök og síðan kemur hinn aðilinn með mótrök. Þetta er mjög svipað samræðustjórnmálum sem þú talaðir mikið um þegar þú varst í borgarstjórn. Ég er nokkuð viss um að slík aðferðafræði getur komið sér vel í innanríkisráðuneytinu,“ segir Bryndís að lokum.