Skiptar skoðanir um yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga
Flutningur á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga er eitt stærsta verkefnið sem framundan er hjá sveitarfélögunum. Skiptar skoðanir eru um það hversu vel sveitarfélögin eru í stakk búin til að taka við verkefninu en á aðalfundi SSS um helgina var lögð fram ályktun um að fresta því um eitt ár. Ályktunin kom frá fulltrúum Grindavíkur og var efnislega í takt við nýlega bókun bæjarstjórnar í þessa veru þar sem lagt er til að yfirfærslunni verði frestað „í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um stöðu og framkvæmd á málefnum fatlaðra,“ eins og segir í ályktuninni. Henni var vísað til stjórnar SSS til umfjöllunar.
Að óbreyttu munu sveitarfélögin taka við þessum málaflokki um næstu áramót samkvæmt samkomulagi ríkis og sveitarfélaga frá í sumar um fjárhagslegar forsendur fyrir yfirfærslunni. Ein aðalforsendan er sú að sveitarfélögin fái tekjustofna með verkefninu og verður það gert með breytingu á skattkerfinu. Sveitarfélögin munu fá heimild til að hækka útsvarsprósentuna um 1,2% en á móti mun ríkið lækka tekjuskatt þannig að til skattahækkana komi ekki. Með þessu og greiðslum úr jöfnunarsjóði er ráðgert að standa undir þeim 11 milljörðum sem þessi málaflokkur mun kosta sveitarfélögin, samkvæmt því sem fram kom á aðalfundi SSS um helgina.
Fram komu efasemdir um jöfnunarsjóðinn en í máli Einars Njálssonar, formanns verkefnastjórnar, kom fram að stofnuð yrðu sérstök deild innan sjóðsins sem hefði þessar greiðslur með höndum. Hún yrði óháð öðrum úthlutunum úr sjóðnum og færi úthlutun fram á grundvelli sérstaks mats.
Skiptar skoðanir voru um ágæti þess að fresta yfirfærslunni. Fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga lýsti þeirri skoðun sinni að óheppilegt fyrir alla aðila að fresta henni þar sem undirbúningur væri það langt á veg kominn. Frestun gæti hugsanlega leitt til þess að hætt yrði við verkefnið. Þar með yrði engin framþróun í þessum málaflokki næstu árin.
Grindvíkingar segja hins vegar óleyst mörg veigamikil verkefni í viljayfirlýsingu milli ríkis og sveitarfélaga. Öll lagaframvörp hafi ekki verið afgreidd, s.s. um réttindagæslu fatlaðs fólks og eftirlit með þjónustu. Ný búsetureglugerð sé ekki tilbúin og ekki hafi öll sveitarfélög staðfest ný þjónustusvæði. Þá sé þess einnig getið að skýrsla Ríkisendurskoðunar gefi til kynna að ekki sé farið að lögum í framkvæmd á málefnum fatlaðra í dag. Þær vísbendingar kalli á umræðu um málaflokkinn á Alþingi og innan ríkistjórnarinnar, ekki síst með tilliti til þess hvort framlög til málaflokksins séu nægileg.
„Við verkefnaflutninginn eykst ábyrgð sveitarstjórnarmanna mikið, bæði gagnvart notendum þjónustunnar og starfsmönnum. Aðalfundur SSS telur ekki ábyrgt að taka við verkefninu í þeirri óvissu sem nú ríkir. Það er hvorki notendum þjónustunnar né starfsmönnum til hagsbóta,“ segir í ályktuninni sem vísað var til stórnar SSS eins og áður segir.
VFmynd/elg - Frá aðalfundi SSS um síðustu helgi.