SJALDAN LAUNAR KÁLFURINN OFELDIÐ
„Sjaldan launar kálfurinn ofeldið“, sagði Einar Steinþórsson, framkvæmastjóri SBK en hreppsnefndir Vatnsleysustrandarhrepps og Gerðahrepps hafa að undanförnu sent fyrirtækinu kaldar kveðjur í kjölfar þess að ferðum í Garð og um Vatnsleysuströnd hefur verið hætt.Hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps segir það óþolandi að SBK, Sérleyfisbílar Keflavíkur, skuli flokka íbúa hreppsins sem nýta sér ferðir fyrirtækisins sem annars flokks viðskiptavini sem valdi öðrum viðskiptavinum óþægindum. Bókun hreppsnefndar kemur til af bréfi frá SBK þar sem tilkynnt sé að ekki sé lengur ekið um Vatnsleysuströnd þar sem farmiðasala á þessari leið standi ekki undir sér auk þess sem hún hafi óþægindi í för með sér fyrir aðra viðskiptavini. Á fundi hreppsnefndar er bókað að hún harmi afstöðu SBK um að minnka enn frekar þjónustu við íbúa hreppsins. Jafnframt undrar hreppsnefnd sig á þeim orðum sem fram komi í bréfi fyrirtækisins að viðskiptavinum SBK skuli ekki vera gert jafnt undir höfði. Vogar og Vatnsleysuströnd séu hluti af þjónustusvæði SBK sem hefur sérleyfið á þessari leið.Hreppsnefnd Gerðahrepps lýsti einnig nýlega yfir óánægju sinni með að SBK sé hætt með ferðir í Garðinn. Einar Steinþórsson sagði í samtali við Víkurfréttir að í áratugi hafi verið ekið í Garðinn og um Vatnsleysuströnd. Þegar farþegum fækkaði með árunum, svo mikið að undantekning var að nokkrir farþegar voru, var farið fram á það við íbúa sveitarfélaganna að þeir hringdu og pöntuðu. Hreppsnefnd Gerðarhrepps vildi fá fastar ferðir en SBK taldi sig ekki geta orðið við því. Þá samdi hreppurinn við Aðalstöðina um fastar ferðir og greiðir þær niður og þrátt fyrir það fór SBK í Garðinn, þar til fyrir stuttu.„Staðreyndin er sú að mjög sjaldgæft er að farþegar séu á þessum leiðum. Ferðir til Reykjavíkur eru hraðferðir hjá okkur þannig að sé Ströndin farin tekur hún mun lengri tíma auk þess sem leiðin er yfir vetrartímann oft illfær. Í áratugi hafa þessar leiðir engan veginn staðið undir sér og þær verið greiddar niður af öðrum þáttum rekstrarins. „Keflavíkurbær greiddi þessar ferðir niður í áratugi en í dag er fyrirtækið orðið hlutafélag og því ekki hægt að gera slíkt. Það er hægt að segja að aðgerðir Garðmanna með samningum við annan aðila þar sem þeir greiða niður ferðir hafi verið til að fylla mælinn hjá okkur. Þeir voru tilbúnir að greiða niður ferðir hjá Aðalstöðinni en ekki hjá okkur þrátt fyrir áratugalanga niðurgreidda þjónustu af Keflavíkurbæ“, sagði Einar.Aðspurður um hvort sama ástand væri ekki upp á borðinu með Sandgerðinga sagði hann svo vissulega vera en samningar stæðu yfir við þá þar sem nú er verið að skoða fastar ferðir frá Keflavík að Leifsstöð og þar sem stöðin er í landi Sandgerðis er verið að skoða hugsanlega framlengingu á þeim ferðum þangað.