Sex hundruð gámar í leyfisleysi í Reykjanesbæ
Nýverið fóru starfsmenn Umhverfissviðs í talningu á gámum á skipulagssvæði Reykjanesbæjar og kom í ljós að tæplega 600 gámar eru í sveitarfélaginu og af þeim eru mjög fáir með stöðuleyfi sem og því í leyfisleysi.
Í grein 2.6.1 í byggingarreglugerð segir: „Sækja skal um stöðuleyfi til leyfisveitanda til að láta eftirfarandi lausafjármuni standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna:
a. Hjólhýsi, á tímabilinu frá 1. október til 1. maí.
b. Gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum, sem ætlað er til flutnings, og stór samkomutjöld.
Umsókn um stöðuleyfi skal vera skrifleg og undirrituð af eiganda eða ábyrgðarmanni viðkomandi hlutar og skal fylgja samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað er að lausafjármunirnir standi á. Í umsókn skal gerð grein fyrir tilgangi og lengd stöðuleyfis. Með umsókn skulu fylgja uppdrættir og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að sýna staðsetningu, útlit og gerð, fyrirkomulag og öryggi lausafjármunanna. Lausafjármuni skal staðsetja þannig að almenningi stafi ekki hætta af og ekki sé hætta á að eldur geti borist frá þeim í aðliggjandi hús. Enn fremur skal þess gætt að aðgengi slökkviliðs að aðliggjandi húsum sé ekki torveldað. Handhafi stöðuleyfis er ábyrgur fyrir því að ekki skapist hætta vegna lausafjármuna og er leyfisveitanda heimilt að krefja eiganda um gögn og rökstuðning þar að lútandi. Handhafi stöðuleyfis er ábyrgur fyrir því að hreinlætisaðstaða í og við lausafjármuni sem falla undir þessa grein uppfylli ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og ákvæði laga um fráveitur og laga, reglugerða og reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eftir því sem við á hverju sinni. Stöðuleyfi skulu mest veitt til 12 mánaða nema ákvæði skipulags mæli fyrir um annað.“
Að sögn Guðlaugs Helga Sigurjónssonar, forstöðumanns Umhverfissviðs mun skrifstofa byggingarfulltrúa senda bréf á lóðarhafa á næstunni þar sem gámarnir eru staddir og lóðarhöfum verður gefinn kostur á að sækja um stöðuleyfi fyrir gámunum. „Það er mikilvægt að sveitarfélagið hafi yfirlit yfir þessa gáma, eigendur þeirra og ábyrgðaraðila. Í framhaldi stendur svo til að fara í hreinsunarátak á gámum sem ekki verður sótt um stöðuleyfi fyrir eða vitjað. Við hvetjum því alla eigendur og eða forráðamenn gáma til að svara kalli Umhverfissviðs og sækja um stöðuleyfi en það er gefið til eins árs í senn,“ sagði Guðlaugur Helgi.