Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samstarf allra aðila er lykilatriði
Fimmtudagur 20. september 2007 kl. 15:38

Samstarf allra aðila er lykilatriði

Forvarnarmál eru í öndvegi í Reykjanesbæ á forvarnarviku sem nú stendur yfir. Baráttan gegn fíkiefnavánni geysar ekki síður hér suður með sjó, en þó bárust góðar fréttir af þeim málum fyrr á árinu þegar rannsókn leiddi í ljós að neysla unglinga í 10. bekk hafði dregist saman, sem og tóbaksnotkun.

Víkufréttir tóku þær Heru Ósk Einarsdóttur, fráfarandi verkefnastjóra forvarnarmála hjá Reykjanesbæ, og arftaka hennar Ásu Eyjólfsdóttur, félagsráðgjafa, tali um stöðuna í forvarnarmálum og framtíðarsýn í Reykjanesbæ. „Aðaláherslan hjá okkur er á þverfaglegt samstarf allra sem koma að forvarnarmálum,“ segir Hera. „Svo er það auðvitað aukin fræðsla, ekki bara til barna heldur líka til þeirra sem vinna með börnum, ss. foreldra, kennara og íþróttaþjálfara því það er lykilatriði að þau geti lært að þekkja merki um að börn séu að villast út af sporinu.“  

 

Margvísleg forvarnarúrræði

Síðustu misseri hefur verið gripið til ýmissa ráða í forvarnarmálum í Reykjanesbæ. Fyrir um tveimur árum var stofnaður samráðshópur, Samtaka-hópurinn, sem að koma flest allir sem vinna með börnum og unglingum, fjölskyldu- og félagsþjónusta og fræðslusvið Reykajnesbæjar, grunnskólar, FS, 88 húsið og Fjörheimar, lögreglan, FFGÍR og fleiri. Samtaka-hópurinn hittist á tveggja vikna fresti og fylgist almennt með vandamálum sem tengjast unglingum í Reykjanesbæ. Safnar saman upplýsingum, veitir stuðning og samræmir aðgerðir. Hlutverk Samtaka-hópsins er jafnframt að fylgjast með og þróa nýjungar varðandi úrræði í unglingamálum, koma hugmyndum á framfæri við viðkomandi stofnanir og félagasamtök og vera ráðgefandi um stofnun ýmissa meðferðarúrræða. „Við höfum haft afskipti af börnum vegna vandamála tengd vímuefnum og fleiru. Með þeim erum við að vinna að nýjum verkefnum, m.a. verkefnið Á brautinni sem við unnum með krökkum í 8.-10. bekk í Myllubakkaskóla og Njarðvíkurskóla í vetur. Þar vorum við að vinna að sjálfsstyrkingu hópsins, tilfinningastjórn, félagslegum samskiptum, tjáningu og líðan. Svo teygjum við okkur upp fyrir þann aldurshóp, m.a. með samkomulagi veitingastaða, lögreglu og bæjarins til að sporna við fíkniefnadreifingu inni á veitingahúsum. Þetta helst allt í hendur og við erum að reyna að vera sem víðast og leggjum megináherslu á að fá fólk til að vinna saman. Svo fá markhópana til að nýta það sem er í boði.“

 

Góð viðbrögð við Lundi

Það helsta sem er nýtt á nálinni hjá bænum er samstarf við Forvarnarverkefnið Lund, en þetta nýja verkefni hefur aðsetur í 88-húsinu og starfrækir þar göngudeild fyrir SÁÁ. Þar er boðið upp á tíma hjá ráðgjöfum SÁÁ í bæði fyrir neytendur og aðstandendur þeirra. Þær Ása og Hera segja viðbrögðin við Lundi hafa farið framúr vonum. „Við héldum að það tæki lengri tíma að fá nýtingu á ráðgjafartímunum fyrir einstaklinga og fjölskyldur í Lundi en strax fyrsta og annan mánudaginn sem var opið var farið að bóka viðtöl og það voru bæði einstaklingar og foreldrar.“ Þess má einnig geta að í kvöld kl. 17.30 verður opið hús í Lundi í 88-húsinu þar sem kynnt verður starfsemi verkefnisins auk þess sem sagðar verða reynslusögur. Næst á dagskránni er enn frekari samhæfing allra aðila sem koma að forvarnarmálum, sérstaklega varðandi vímuefni. 

 

Allir þurfa að hafa sömu sýn

Eins og fyrr sagði komu unglingar í Reykjanesbæ vel út úr könnun á neyslu vímuefna og tóbaks sem hafði dregist saman milli kannana. Þar sást greinilegur árangur af forvarnastarfi en þær stöllur segja óvíst hvaða þáttur í starfinu sé að gera gæfumuninn. „Það er ekkert eitt sem gildir frekar en annað í forvörnum. Það sem skiptir mestu máli er að huga að vellíðan barna frá unga aldri. Það dregur úr áhættu á vímuefnaneyslu ungs fólks.“ Þær bæta því einnig við að vitundarvakning um mikilvægi forvarna á öllum sviðum skipti máli.  „Svefnvenjur, mataræði, hreyfing og heilbrigt líferni yfir höfuð skiptir máli og ef allir aðilar, sérstaklega foreldrar, eru með sömu sýn og ef allir aðilar hafa sama markmið getum við unnið betur af því að fá krakkana til að velja rétt og segja nei við eiturlyfjum.“ Að lokum vilja þær Ása og Hera hvetja foreldra sem hafa áhyggjur af börnunum sínum til að leita sér ráðgjafar fagaðila sem er að finna í stjórnkerfinu og víðar. Hvort sem er til að slá á grunsemdir eða til að grípa inn í ef vandamál er sannarlega til staðar. „Það er alltaf gott að geta deilt áhyggjum sínum með fólki sem þekkir til, en það mikilvægasta er að þora að taka skrefið, hringja og panta tíma.“

VF-mynd og texti/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024