Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samkaup styður konur og kvár til að taka þátt í kvennaverkfallinu
Höfuðstöðvar Samkaupa í Krossmóa í Reykjanesbæ.
Mánudagur 23. október 2023 kl. 16:20

Samkaup styður konur og kvár til að taka þátt í kvennaverkfallinu

Samkaup styður konur og kvár sem hjá þeim starfa til að taka þátt í kvennaverkfallinu sem fram fer á morgun. Þær konur og kvár sem taka þátt í verkfallinu verða ekki fyrir tekjutapi. Samkaup rekur 65 verslanir um allt land, undir merkjum Nettó, Kjörbúðarinnar, Krambúðarinnar og Iceland og hjá fyrirtækinu starfa 1446 manns. Þar af eru 704 konur og 8 kvárar.

„Vissulega hefur það verið mikil áskorun að búa til áætlanir í kringum það að missa um helming starfsfólksins þennan dag en það er áskorun sem er algjörlega þess virði til að leggja baráttunni lið,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, í tilkynningu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„En jafnrétti vinnst ekki með því að hugsa um það aðeins þennan eina dag heldur þarf að vinna að því stöðugt og það hefur verið risa verkefni hjá okkur að gera Samkaup að þeim jafnréttismiðaða vinnustað sem við erum í dag og snýst fyrst um að taka ákvörðun um jafnrétti. Hjá Samkaup er jöfn skipting karla og kvenna hvort sem litið er til verslana, stjórnenda, skrifstofu, framkvæmdarstjórnar eða stjórnar. 

Við erum einn af stærri vinnustöðum landsins og hjá okkur starfar fjölbreyttur hópur. Má nefna sem dæmi að hjá okkur starfar fólk af 38 þjóðernum og um 25% okkar starfsmanna af erlendum uppruna. Við erum meðvituð um ábyrgðina sem því fylgir að vera með svona fjölbreyttan hóp í vinnu og leggjum við okkur fram við að tryggja ánægju þeirra, vöxt og vellíðan á vinnustaðnum. Starfsánægjan okkar er mæld reglulega yfir árið og fer stöðugt hækkandi sem við tengjum beint við aukna áherslu á jafnréttismál.  

Jafnréttis- og jafnlaunastefnan okkar er hluti af mannauðsstefnu Samkaupa og nær til alls starfsfólks óháð kyni, aldri, þjóðerni, kynþætti, trúarbrögðum og kynhneigð og skerðingu. Tilgangur jafnréttis – og jafnlaunastefnunnar er að stuðla að jafnrétti kynjanna í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Eitt mikilvægasta tól sem við höfum til þess að stuðla að þessu er jafnlaunakerfið okkar sem nær til alls starfsfólks og inniheldur jafnréttisáætlun. Samkvæmt okkar stefnu greiðum við öllum kynjum jöfn laun og sömu kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf og notum við jafnlaunakerfið til að sjá til þess að það sé gert. 

Þegar við skoðum síðustu mælingar Hagstofu Íslands á muninum á heildarlaunum kynjanna sjáum við að hann mældist 9,1% árið 2022 sem er auðvitað alltof mikið, sérstaklega þar sem við höfum öll þau tæki og tól til þess að vera betri. Áhugavert er að skoða greiningu Hagstofunnar eftir starfsstéttum en þar má sjá sem dæmi að munur á heildarlaunum kynjanna hjá þjónustu – sölu og afgreiðslufólki, sem er stór hópur innan okkar fyrirtækis, er 8,7%. Árið 2018 var launamunurinn okkar rétt rúm 3% en það sama ár hlutum við okkar fyrstu jafnlaunavottun. Fyrir tæpu ári fórum við í okkar fimmtu úttekt og hafa þær allar verið án athugasemda. Aðgerðirnar hafa klárlega skilað sér en í dag er launamunurinn okkar vart mælanlegur eða 0,2%. Þetta sýnir að til þess að ná árangri þarf fyrst og fremst vilja til breytinga og að vera ekki feimin við að skoða sitt eigið fyrirtæki með gagnrýnum augum. 

En það þarf að hafa í huga að þó svo að jöfnun launa sé mikilvæg snýst jafnrétti á vinnustöðum um svo miklu meira en það.  

Það þarf fyrst og fremst að stuðla að því að vinnustaður fólks sé laus við áreitni, fordóma og annað ofbeldi og höfum við til þess að stuðla að því sett áherslu á fræðslu. Í okkar jafnréttisstefnu leggjum við sérstaka áherslu á jafnrétti þriggja hópa sem hjá okkur starfa. Þeir eru, starfsfólk af erlendum uppruna, starfsfólk með skerta starfsgetu og hinsegin starfsfólk. Á síðasta ári var Jafnréttisráð Samkaupa stofnað þar sem óskað var eftir þátttöku fólks af öllum stigum fyrirtækisins og komu 20 manns saman. Tilgangur ráðsins er að vera vettvangur fyrir starfsfólkið til þess að hafa áhrif á vinnustaðinn og hafa meðlimir þess umboð til að taka á málum sem koma upp og standa fyrir fræðslu á sínum vinnustöðvum. Við höfum hingað til fengið fræðslu á vegum Samtakanna ´78, Þroskahjálpar og Mirru, rannsóknar- og fræðsluseturs um málefni innflytjenda. Gerðir hafa verið samstarfssamningar við öll þessi samtök um áframhaldandi fræðslu og sérfræðiaðstoð til starfsfólksins okkar enda er fræðsla lykilatriði í vegferðinni.  

Við hjá Samkaupum hlökkum til að taka þátt í kvennaverkfallinu á morgun og hvetjum alla íslenska atvinnurekendur til þess að gera það sama og styðja konur og kvár í baráttunni,“ segir Gunnar Egill í tilkynningunni.