Risar í kísiliðnaði vilja kaupa verksmiðjuna í Helguvík
- Þórður Ólafur Þórðarson, stjórnarformaður Stakksbergs segir stefnt að því að hefja rekstur á endurbættri verksmiðju haustið 2020. Um tuttugu aðilar hafa sýnt áhuga á að kaupa hana
„Það dylst mér ekki að við erum að koma hér inn í kringumstæður þar sem er mikið vantraust. Það var margt sagt áður en hlutir síðan gerðir öðruvísi og svo var líka margt sagt ósatt. Það er því eðlilegt að fólk hafi varan á sér þegar það sé nýjan rekstraraðila eins og okkur. Það eru mín von að orð séu til alls fyrsta og að við náum að eiga góðar og gagnlegar viðræður við bæjaryfirvöld og bæjarbúa og að þetta verkefni komist á laggirnar á þann veg að bæði rekstaraðilar og bæjarbúar séu sáttir með það til framtíðar,“ sagði Þórður Ólafur Þórðarson, stjórnarformaður Stakksbergs í viðtali við Víkurfréttir eftir fundinn í Stapa.
Aðspurður um hvað Arion banki, eigandi verksmiðjunnar, hafi hugsað sér með verksmiðjuna sagði Þórður: „Hann hefur lýst því yfir að hann vilji ekki verða eigandi til framtíðar, fjármálafyrirtækjum er það ekki leyfilegt. Bankinn getur ekki átt verksmiðjuna. Hann vill hins vegar koma þessu verkefni í þann farveg að verksmiðjunni verði fundinn nýr farvegur, að bætt verði á þeim ágöllum sem voru og að nýr rekstrarðili verði á þann hátt bundinn að það verði staðið að þessum rekstri eins og best verður á kosið. Þar horfum við til reynslu Norðmanna sem hafa rekið svona kísilverksmiðjur af þessum toga inni í sveitarfélögum í sátt við íbúa.“
Hefur bankinn fundið fyrir áhuga á kaupum á verksmiðjunni?
„Eftirspurn eftir kísilmálmi er mikil í heiminum og er vaxandi. Um tuttugu aðilar hafa gefið sig fram við bankann um að kaupa verksmiðjuna. Í þeim hópi eru aðilar sem er risarnir í þessum iðnaði, sem eru með rekstur víða um heim, t.d. í Noregi, Svíþjóð og í Þýskalandi.“
Hver eru næstu skref hjá nýju félagi?
„Tímaáætlun gerir ráð fyrir því að verksmiðjan hefji rekstur á haustmánuðum 2020 og það taki því um tvo ár að ljúka þessum úrbótum á verksmiðjunni sem þarf að gera.
Fyrra umhverfismat á verksmðjuni var óforsvaranlegt en erum að vinna nýtt frá grunni og munum kynna frumdrög að nýju umhverfismati fyrir íbúum eftir áramótin og óska eftir athugasemdum við það til að tryggja að við séum að hyggja að þeim þáttum sem skipta bæjarbúa mestu.“
Þú ert sem sagt ekki hissa á neikvæðri umræðu og heitum viðbrögðum íbúa?
„Staðreyndin er sú að ég á sjálfur fjölskyldu hér í bænum og úti í Garði þannig að ég skil viðhorf bæjarbúa mjög vel.“
Bæjarbúar komi að framtíð kísilvers
- sagði Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar
„Þetta var upplýsandi fundur og margar góðar athugasemdir sem komu fram. Það sem snýr að bæjarstjórn er að skipulagsvaldið liggur hjá bæjaryfirvöldum. Þetta er fordæmalaus staða sem liggur fyrir. Bæjarstjórn mun auðvitað skoða hvaða aðkomu hún hefur varðandi deiliskipulagsmálin. Svo er spurning hvernig aðkoma bæjarbúa verði. Það er okkar vilji að bæjarbúar komi sem mest að ferlinu og helst með íbúakosningu,“ sagði Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í viðtali við VF eftir fundinn í Stapa.
Jóhann sagði að það hafi verið gert ráð fyrir tekjum af kísilverinu til Reykjaneshafnar og að það munaði vissulega um slíkar upphæðir. Þær hefði hins vegar ekki enn komið og ný framtíðarnefnd bæjarins væri að skoða möguleika hafnarinnar í tekjuöflun t.d. með komu skemmtiferðaskipa. „Ég held að þetta sé erfitt ferli. Þeir gæta sinna hagsmuna og við þurfum að gæta okkar hagsmuna og bæjarbúa. Það er það sem stendur upp úr. Við vviljum auðvitað skila ferlinu í þann farveg að við getum búið hér áfram í sátt og samlyndi og það er það sem skiptir máli.“