Ríkisbanki með útrétta Reykjaneshönd
Bankastjóri Landsbanka Íslands, þjóðarbankans okkar, kynnti framtíðarstefnu og miklar breytingar á opnum fundi í Keflavík í vikunni. Þar hvatti hann okkur Suðurnesjamenn til að vera duglegri til að koma inn á borð bankans með fleiri hugmyndir að atvinnutækifærum. Peningar í góð verk eru til þar á bæ. Landsbankinn vill lána. Hann á í raun til helling af krónupeningum sem hann vill setja út í samfélagið. Það veit á gott.
Nýi Landsbankastjórinn, Steinþór Pálsson, kom vel fyrir á fundinum og í viðtali við VF sem sjá má á vf.is. Hann virkaði mjög þægilegur og talaði mannamál. Minna um stýrivexti Seðlabankans en forverar hans gerðu á Landsbankafundum hér í góðærinu. Engin jöklabréf í gangi núna. Meira jarðbundið og framtíðarsýnin var raunverulegri. Helstu verkefnin eru að hjálpa fólki í skuldafeni og laga þau mál. Laga til hjá þeim verst stöddu. Hjá þeim sem fóru of geyst í góðærinu. Það var því góð spurning sem hann fékk þegar hann var spurður að því hvort það væri eitthvað gert fyrir þá sem hafa staðið sig eftir kreppu, greitt af sínum lánum skilmerkilega þótt erfitt væri. Neitað sér um ýmsa hluti til þess og ekki flutt úr landi. Það var því gott að heyra hann segja að það yrði eitthvað gert fyrir þá skilvísu. Þeir sem eru í Landsbankanum fá afslátt af vöxtum síðasta árs og svo ætlar ríkið að verðlauna alla skilvísa með vaxtabótum tvisvar á þessu ári. Þetta er millistéttarfólkið sem hefur einhvern veginn þurft að taka á sig erfiðari byrðar eftir framúrakstur margra annarra.
Nú er bara fyrir Suðurnesjamenn að fylgja þessu eftir og mæta með góðar hugmyndir inn á borð bankanna. Það virðist þó sem vígtennurnar hafi verið dregnar úr mörgum í erfiðu mótlæti eftir hrun. Langvinnt atvinnuleysi hefur þannig áhrif og bankastjórinn hafði áhyggjur af þeirri stöðu hér. Vonandi fer eitthvað að gerast. Kísilverksmiðja er fjármögnuð hjá Landsbankanum og hann segir það mál á lokastigi. Vonandi er það rétt. Þar eru um hundrað störf í farvatninu og slík innsprautun hefði góð áhrif og myndi eflaust hjálpa mikið til.
Það sló mig þó aðeins að heyra að Landsbankinn fékk 120 milljarða til endurreisnar eftir hrun frá ríkinu. Hann er í framtíðarvinnu og hún lítur vel út. Án þess að setja niður Landsbankann þá vekur það athygli að ennþá bíður SpKef sparisjóður eftir ríkisaðstoð þó fjármálaráðherra hafi sagt að hann vildi að sparisjóðakerfið lifði. Það er kannski dæmi um hvernig málefni Suðurnesjamanna hafa verið afgreidd hjá þeim sem ráða í þessu landi. Við megum bíða og bíðum áfram þótt blæðandi sárið sé orðið stórt.
Páll Ketilsson, ritstjóri.