Rekstur Isavia gekk vonum framar - 1723 millj kr. hagnaður
Isavia ohf. tókst á við fordæmalausa röskun í alþjóðaflugi á fyrstu dögum starfsemi félagsins og kom í veg fyrir stöðvun millilandaflugs. Umferðarþungi á flugstjórnarsvæði félagsins margfaldaðist fyrirvaralaust þegar allri flugumferð yfir norðanverðu Atlantshafi var beint norður fyrir víðáttumikil öskuský frá eldstöðvunum í Eyjafjallajökli. Starfsmenn Isavia hlutu alþjóðlega viðurkenningu fyrir hnökralausa þjónustu sem þótti til fyrirmyndar við mjög erfiðar aðstæður. Stjórnarformaður segir náttúruhamfarirnar hafa þjappað starfsmönnum saman og skapað sterka liðsheild í nýju félagi, segir í frétt frá Isavia ohf.
Fyrsti aðalfundur Isavia ohf. var haldinn í dag en félagið annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla og flugleiðsöguþjónustu í landinu. Dótturfélög Isavia eru Fríhöfnin ehf. og Tern Systems hf. Á fundinum greindi Þórólfur Árnason stjórnarformaður frá helstu störfum félagsins frá því að það var stofnað 29. janúar á síðastliðnu ári og sameinaði rekstur opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar 1. maí sama ár.
„Undirbúningur og samruni Flugstoða og Keflavíkurflugvallar í nýtt félag var langfyrirferðarmesta verkefni stjórnar á fyrsta starfsári. Sameining svo umsvifamikillar starfsemi á stuttum tíma kostaði mikið átak og krafðist útsjónarsemi og þrautseigju. Eldgosið í Eyjafjallajökli sem hófst rétt fyrir formlegan samruna félaganna dró fram styrk hins nýja félags með afgerandi og eftirminnilegum hætti. Verðandi starfsmenn nýja félagsins tókust á við fordæmalausar aðstæður í rekstri flugssamgangna og leystu verk sín með miklum sóma. Náttúruhamfarirnar áttu þannig sinn þátt í að þjappa félögunum saman og skapa sterka liðsheild og voru í raun sannkölluð „eldskírn“ hins nýja félags.
Erfiðar efnahagsaðstæður hafa knúið ríkissjóð sem eiganda félagsins til þess að draga úr samningsbundnum rekstrarframlögum og leggja auk þess álögur á reksturinn. Félagið brást við vandanum af festu með aukinni hagræðingu. Einnig jukust tekjur félagsins vegna aukinna umsvifa og nauðsynlegra hækkana á notendagjöldum, en þau höfðu ekki fylgt verðlagsbreytingum á undanförnum árum.
Reksturinn er í jafnvægi en fjármunamyndun ekki nægileg til þess að standa undir nauðsynlegri endurnýjun flugvallarmannvirkja og flugleiðsögutækja til framtíðar. Viðfangsefni á næstu misserum verður að tryggja fjármagn til fjárfestinga en Isavia er ekki eina opinbera hlutafélagið sem glímir við þennan vanda í kjölfar efnahagskreppunnar. Langan tíma mun taka að byggja upp fjárhag félagsins en stefnan er mörkuð og við munum halda ótrauð áfram við að byggja upp sterkt og öflugt félag í flugvalla- og flugleiðsögurekstri“.
Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2010 voru alls um 14.136 milljónir króna og rekstrarhagnaður 1.723 milljónir. Fjármagnsliðir eru jákvæðir um 843 milljónir króna, en þar af er gengishagnaður 1.399 milljónir króna. Heildarafkoma félagsins er því jákvæð um 2.125 milljónir króna. Heildareignir í árslok voru um 32 milljarðar króna og var bókfært eigið fé 10.302 milljónir króna og eiginfjárhlutfall félagsins 32%.
Það er mat stjórnar að stofnun Isavia og samruni Flugstoða og Keflavíkurflugvallar hafi tekist vel. Þá má fullyrða að rekstur félagsins hafi gengið vonum framar á árinu 2010 þegar tekið er tillit til ýmissa atriða sem voru félaginu mótdræg. Framtíð félagsins þegar á heildina er litið er björt.
Isavia á aðild að Samtökum ferðaþjónustunnar sem er aðili að Samtökum atvinnulífsins. Með því er undirstrikað að félagið er hluti af ferðaþjónustunni í landinu og reyndar annað stærsta félagið innan þeirra samtaka. Ferðaþjónustan á bjarta framtíð fyrir sér og mun Isavia verða leiðandi fyrirtæki og öflug stoð hennar um ókomna framtíð.
Fjármálaráðuneytið fer með eignarhald félagsins fyrir hönd ríkissjóðs. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra tók undir með formanni stjórnar og kvað snövurmannlega hafa verið staðið að verki. Flugsamgöngur og ferðaþjónusta skiptu mjög miklu máli fyrir Íslendinga og Isavia væri miðlægt fyrirtæki í ferðaþjónustu og stórrekstraaðili og vinnuveitandi. Vænlega horfði í ferðaþjónustu um þessar mundir og þar léki flugið og Isavia lykilhlutverk.
Aðalfundurinn gerði þá breytingu á samþykktum félagsins að stjórn þess skyldi skipuð fimm manns og fimm til vara í stað sjö sem skipuðu stjórnina á þessu umsvifamikla fyrsta starfsári félagsins. Í stjórninni eiga sæti: Arnbjörg Sveinsdóttir, Ásta Rut Jónasdóttir, Jón Norðfjörð, Ragnar Óskarsson og Þórólfur Árnason.
Í varastjórn voru kosin Arngrímur Jóhannsson, Jóhanna Harpa Árnadóttir, Jónas Bjarnason, Ólafur Sveinsson, og Sigrún Pálsdóttir.
Einnig var samþykkt að ráðstafa hagnaði ársins með þeim hætti að hann legðist við eigið fé félagsins. Þá var samþykkt starfskjarastefna fyrir félagið sem birta skuli á vefsvæði félagsins.