Rannsókn á falli Sparisjóðanna mun leiða í ljós hvað gerðist hjá SpKef
Mikið er fjallað um mál SpKef þessa dagana á Alþingi og í fjölmiðlum landsins. Hart er vegið að stjórnvöldum og öll spjót standa á Oddnýju Harðardóttur fjármálaráðherra. Víkurfréttir spurðu Oddnýju út í málefni SpKef og aðför stjórnarandstöðunnar að ríkisstjórn í málinu.
„Það er afar eðlilegt að málefni SpKef séu fyrirferðarmikil í umræðunni nú þegar loks er komin niðurstaða úrskurðarnefndar vegna sameiningar Landsbankans á SpKef og óvissunni eytt með hver kostnaður ríkisins er vegna hins fallna sparisjóðs,“ segir Oddný Harðardóttir í samtali við VF.
„Málið allt er afar erfitt. Reikningurinn sem ríkissjóður situr uppi með er þungbær og það er átakanlegt að horfa upp á ítrekaðar skoðanir endurskoðenda hversu bagaleg staða sparisjóðsins var í raun og veru. Það er ekki síður átakanlegt fyrir okkur Suðurnesjamenn að horfa upp á það hvernig komið var fyrir Sparisjóðnum í Keflavík, banka sem stofnaður var að Útskálum í Garði árið 1907 og var í 100 ár eitt helsta stolt Suðurnesjamanna.
Virði eignasafns hans hafði verið stórlega ofmetið, innviðir sparisjóðsins mun veikari en menn grunaði, staða fyrirtækja og atvinnuástand á starfssvæði sjóðsins slæmt og orðspor sjóðsins mjög laskað. Það má líka taka það fram að gengislánadómar höfðu áhrif á stöðu sparisjóðsins. En núverandi ríkisstjórn víkur sér ekki undan ábyrgðinni á reikningnum, heldur axlar þá ábyrgð, enda er það einlægur ásetningur hennar að standa við fyrri yfirlýsingar stjórnvalda um tryggingu innstæðna innstæðueigenda. Þar geta innstæður viðskiptavina SpKef ekki verið undanþegnar.
Hvað varðar aðför stjórnarandstöðunnar í þessu máli þá er skiljanlegt að hún láti til sín taka þegar um viðlíka fjármuni er um að ræða en málflutningur hennar er því miður ómálefnalegur. Spurningar forsvarsmanna stjórnarandstöðunnar hafa að mestu snúist um af hverju ríkissjóður lét ekki Sparisjóð Keflavíkur falla þegar ljóst er að það var og er einlægur vilji stjórnvalda að tryggja innstæður innstæðueigenda í bönkum og fjármálastofnunum. Þeir láta því ósvarað hvernig átti þá að tryggja innistæður viðskiptavina sparisjóðsins með sama hætti og annarra landsmanna.
Rökin fyrir ákvörðuninni um að færa innstæður Sparisjóðsins í Keflavík yfir í nýtt félag koma fram í minnisblaði nefndar um fjármálakerfið sem skrifað var 21. apríl 2010, en í nefndinni voru fulltrúar frá forsætis-, fjármála-, og efnahags- og viðskiptaráðneyti, FME og Seðlabanka Íslands. Það var mat nefndarinnar að staða Sparisjóðsins í Keflavík hafi verið þannig, að nauðsynlegt hafi verið að Fjármálaeftirlitið tæki yfir stjórn sparisjóðsins og færi með innstæður og eignir til nýs fjármálafyrirtækis. Þetta var talið nauðsynlegt til að tryggja fjármálastöðugleika og viðhalda eins og kostur væri óskertan og truflunarlausan aðgang að innstæðum og bankaþjónustu fyrir viðskiptamenn sparisjóðsins eins og stjórnvöld höfðu heitið öllum innlendum innstæðueigendum, líka Suðurnesjamönnum og öðrum viðskiptavinum Sparisjóðsins í Keflavík. Að auki var það mat yfirvalda að miðað við stærð og umfang Sparisjóðsins í Keflavík, með sínar 16 starfsstöðvar vítt og breitt um landið, að hann væri ómissandi hlekkur í endurreisn sparisjóðakerfisins í landinu.
Þær væntingar reyndust því miður ekki reistar á traustum grunni líkt og síðar kom í ljós við nánari skoðun á eignum og skuldum sparisjóðsins og mismuninum þar á.
Það er von mín og eflaust fleiri, þar á meðal margra Suðurnesjamanna, að rannsókn á falli sparisjóðanna sem nú stendur yfir og niðurstöðu er að vænta í haust, muni leiða skýrt í ljós hvað gerðist í aðdraganda hruns Sparisjóðsins í Keflavík. Tengsl bankans og sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ munu með þeirri rannsókn vonandi skýrast líka. Reiði stofnfjáreigenda sem töpuðu öllu sínu er skiljanleg og eðlilegt að þeir krefjist skýringa. Það er hins vegar umhugsunarefni að þingmenn Sjálfstæðisflokks vilji kasta ryki í augu almennings með því að draga athyglina frá raunverulegum ástæðum þess að ríkissjóður þarf að reiða út rúma 19 milljarða til að tryggja innstæður vegna falls Sparisjóðsins í Keflavík og beina sjónum frá ábyrgð og hegðun stjórnenda Sparisjóðsins og þeim sem auðvelduðu þeim hátternið,“ segir Oddný að lokum.