Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Ósátt við staðsetningu þjónustubyggingar á Reykjanesi
Gréta Súsanna Fjeldsted, landeigandi á Reykjanesi, hyggst leita réttar síns. VF-mynd/hilmarbragi
Mánudagur 2. janúar 2017 kl. 06:00

Ósátt við staðsetningu þjónustubyggingar á Reykjanesi

- Verkefnastjóri Reykjanes Geopark segir málið hafa verið vel kynnt á sínum tíma

Skóflustunga var tekin að þjónustuhúsi á milli Reykjanesvita og Valahnúks á dögunum. Byggingin er á vegum Reykjanes Aurora sem var hlutskarpast þeirra sem sendu inn hugmyndir að uppbyggingu á svæðinu til Reykjanes Geopark fyrr á árinu. Áætlað er að bygging hússins hefjist næsta sumar og að húsið verði um 300 fermetrar að flatarmáli og stækkanlegt. Gréta Súsanna Fjeldsted, er eigandi næstu lóðar á svæðinu, þeirrar er Reykjanesviti og íbúðarhús standa á, og hefur hún undanfarin tvö ár skipulagt byggingu á 140 fermetra þjónustumiðstöð fyrir ferðamenn þar. Gangi allar þessar áætlanir eftir er því ljóst að á næstu misserum rísa tvær þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn á svæðinu. Svæðið tilheyrir Reykjanesbæ og er Gréta ósátt við að auglýst hafi verið eftir hugmyndum að þjónustu á svæðinu þegar embættismönnum bæjarfélagsins hafi verið ljóst að hún hyggðist byggja þar. „Hvað með einstaklingsframtakið? Það er undarlegt að Reykjanesbær standi með öðrum áformum og leigi lóð undir þau þegar ég er með svipuð áform á minni jörð. Þetta er ekki réttlátt,“ segir hún.

Að sögn Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, hafa áform Reykjanes Geopark legið fyrir í nokkurn tíma. Þegar Reykjanesbær auglýsti nýtt deiliskipulag fyrir svæðið, þar sem fram kom að þar ætti að rísa þjónustumiðstöð fyrir ferðamenn, hafi ekki verið vitað hver myndi byggja eða reka hana. Það hafi verið verkefni Reykjanes Geopark að ganga frá því og var auglýst eftir rekstraraðilum eins og komið hefur fram. Gréta var ekki á meðal þeirra sem sóttu um.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eggert Sólberg, verkefnastjóri Reykjanes Geopark, segir markmiðið með uppbyggingu á lóðinni við hlið lóðar Grétu að bæta aðstöðu fyrir ferðamenn og gesti, meðal annars með hreinlætisaðstöðu, nýjum bílastæðum og afmörkuðum og skilgreindum gönguleiðum. Hann segir Grétu hafa á öllum stigum verið upplýsta um þá vinnu sem var í gangi og um áform Reykjanes Geopark. Hann kveðst jafnframt hafa hvatt hana til að gera athugasemdir við skipulagið til Reykjanesbæjar áður en umsagnafrestur rynni út, væri hún ekki sátt. „Skipulagið fékk jafnframt ítarlega kynningu á sínum tíma. Mér vitanlega bárust ekki athugasemdir frá henni,“ segir hann.

Gréta segir svæðið sérstakt og að eðlilegast sé að byggja þjónustuhús við hliðina á íbúarhúsi fyrrum vitavarðar líkt og hún hyggst gera. Þannig verði rask á náttúrunni sem minnst. „Það má segja að svæðið í kringum Reykjanesvita séu Þingvellir Suðurnesja. Ég bið alla þá sem er annt um svæðið að standa með mér og þrýsta á að ekki verði af þessari byggingu.“

Gréta ólst upp á Reykjanesi en faðir hennar, Sigurjón Ólafsson, var þar vitavörður. Hún kveðst vera komin með sterka fjárfesta og byggingarstjóra og tilbúin að hefja framkvæmdir. Hún fékk byggingaleyfi frá Reykjanesbæ í byrjun árs og leyfi til framkvæmdanna frá Minjastofnun í febrúar 2015. Gréta hyggst leita réttar síns vegna málsins.