Órjúfanlegur hluti af Ljósanótt
Hanakambar, hárlakk og herðapúðar er lokakafli Þríleiksins Með blik í auga
Þríleiknum Með blik í auga verður lokað næstkomandi Ljósanæturhelgi, en þá verður sett upp sýningin Hanakambar, hárlakk og herðapúðar. Tónlist og tíðarandi áratugarins 1980-1990 verður tekinn fyrir í sýningunni sem er hluti af hátíðardagskrá Ljósanætur og hefur aldeilis slegið í gegn undanfarin ár. Hvergi verður til sparað í umgjörð sýningarinnar sem verður líkt og undanfarin ár, haldin í Andrews leikhúsi á Ásbrú og að þessu sinni hefur verið ráðinn til sýningarinnar leikstjórinn og reynsluboltinn Gunnheiður Kjartansdóttir.
Skipuleggjendur, höfundur handrits og tónlistarstjóri eru áfram þeir Kristján Jóhannsson, Arnór B. Vilbergsson og Guðbrandur Einarsson. Að venju mæta til leiks fjöldi söngvara af Suðurnesjum ásamt stórhljómsveit en aldrei hafa fleiri tónlistarmenn tekið þátt. Eyþór Sæmundsson, blaðamaður Víkurfrétta hitti forsprakkana þrjá ásamt Gunnheiði leikstjóra og fotvitnaðist um hanakamba, hárlakk og herðapúða.
Undirbúningur sýningarinnar hefur staðið yfir allt frá því að þeirri síðustu lauk, eða í tæpt ár. Öllu skal tjaldað til og verkefnið klárað með pompi og prakt. Þeir félagar Arnór og Kristján hafa frá upphafi sankað að sér hæfileikaríku fólki og í ár verður það leikstjórinn Gunnheiður Kjartansdóttir sem sér um að pískra mannskapinn áfram. Í fyrra kom Guðný Krisjánsdóttir og aðstoðaði hópinn á lokametrunum en nú skal hafa reglu á hlutunum allt frá upphafi. „Við fengum góða aðstoð frá Guðnýju í fyrra. Það er erfitt að vera uppi á sviði og ætla sér líka að fylgjast með öllu sem fer fram og koma auga á hnökrana,“ segir Kristján. Áfram verður haldið í sömu formúlu og áður en leitast er eftir því að endurskapa tónlist, tíðaranda og tísku tímabilsins 1980-1990. Að sjálfsögðu verður grín og glens líka haft að leiðarljósi, þetta á jú að vera gaman.
Slappir í rappi en líklegt áframhald á samstarfi
Þó svo að nú sé verið að loka hringnum eftir að hafa áður tekið fyrir tímabilin, 1950-1960 og 1960-1970, þá er ekki loku fyrir það skotið að þessi hópur haldi samstarfi áfram. „Þetta þema er búið en við gætum komið að öðrum hátíðartónleikum á Ljósanótt. Við erum svo slappir í því sem kemur næst, er það ekki Quarashi og rappið?,“ segir Arnór og hlær. Suðurnesjamenn eru að venju í aðalhlutverkum í sýningunni, en nóg virðist vera til af hæfileikaríku fólki á svæðinu. „Það er kannski aðalatriðið í þessu öllu. Það eru þrír hljóðfæraleikarar sem koma úr Reykjavík en þeir eru allir að kenna, eða hafa kennt við tónlistarskólann hérna,“ segir Arnór, en annars eru aðrir þátttakendur Suðurnesjamenn.
Nú verður pönkið m.a. tekið fyrir og Kristján lofar því að upphafsatriði þessarar sýningar verði lengi í minnum haft. „Við vorum lengi að nálgast pönkið. Þau lög voru flott en voru bara illa spiluð. Pönkið snerist að miklu leyti um viðhorf og við munum reyna að koma því til skila, þó skal það tekið fram að þetta eru engir anarkistatónleikar,“ segir Kristján sem vill síður fæla fólk frá. Hann hefur litla ástæðu til þess að óttast þar sem vinsældir sýninganna hafa verið gríðarlegar og virðast Suðurnesjamenn hæstánægðir með framtakssemi þeirra félaga.
Á árunum 1980-1990 var Stöð 2 að hefja starfsemi, Bylgjan fór í loftið og Íslendingar ætluðu að sigra heiminn í Eurovision. Hópurinn leggur sig fram um að koma þessum tíðaranda til skila til áhorfenda. „Þetta er svolítið „nostalgíufyllerí,“ fólk er að sækjast í þessar minningar,“ segir Gunnheiður leikstjóri. Mikið er gert út á sjónræna hlutann í sýningunni en þar kemur Gunnheiður sterk inn. „Það verður virkilega spennandi að sjá hvað hún mun gera við Kristján. Í fyrra fór hann í fermingarjakkann sinn á sviðinu og það er aldrei að vita hvað gerist núna,“ segir Arnór en Kristján virðist vera tilbúinn í hvað sem er. Hann segir að fyrst og fremst eigi að hafa gaman af og þessi hópur eigi ekki í teljandi erfiðleikum með að skemmta sér og öðrum.
Þurfum ekki að toppa okkur
„Við kynntum þetta fyrir Rúv á sínum tíma en áhuginn var nú ekki mikill. Við hugsum þetta þó bara þannig að við erum að gera þetta fyrir okkar fólk. Þetta er orðinn órjúfanlegur huti af Ljósanóttinni. Þetta er bara eins og heimamenn fara á húkkaraballið og í hvítu tjöldin á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum,“ segir Kristján. Þegar þeir Arnór og Kristján fóru fyrst af stað með tónleikana árið 2011 var þó ekki útlit fyrir að framhald yrði á. „Ég ætlaði aldrei að gera þetta aftur,“ rifjar Arnór upp en þeir félagar sáu meira og minna um alla þætti sýningarinnar. Hvort sem það var að útsetja tónlistina eða standa í miðasölu. Þau áform um að láta gott heita að lokinni fyrstu sýningu breyttust fljótlega. Fleira gott fólk var fengið til þess að aðstoða og róðurinn léttist hjá þeim kumpánum. Suðurnesjamenn hafa látið afar vel af sýningunni hingað til og nú er hálfgerð pressa á hópnum að standa sig. „Fyrsta sýningin tókst vel, önnur sýningin var betri og örlítið stærri í sniðum. Nú þurfum við ekkert endilega að toppa okkur, heldur viðhalda gæðunum,“ segir Kristján. Vinsælustu lög níunda áratugarins verða leikin í sýningunni en af mörgu er að velja. Þegar farið var af stað voru yfir 100 lög í pottinum en eftir sitja 25 lög sem leikin verða í Andrews Theater. Að þessu sinni eru einungis tvö lög sem eiga rætur sínar að rekja erlendis. „Þetta sýnir ákveðna þróun í sögu íslenskra dægurlaga. Þarna var mikil gróska í gangi,“ segir Kristján en að sjálfsögðu verður reynt að koma til móts við sem flesta hvað varðar lagaval.
Miðasala hófst föstudaginn 9. ágúst á midi.is og eru Suðurnesjamenn hvattir til þess að tryggja sér miða tímanlega. Frumsýning er miðvikudaginn 4. september, 2. sýning 5. september og boðið verður upp á tvær sýningar sunnudaginn 8. september.