Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Opið bréf til Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra
Guðrún Ösp Theodórsdóttir, hjúkrunarfræðingur.
Fimmtudagur 13. september 2012 kl. 22:25

Opið bréf til Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra

Guðrún Ösp Theodórsdóttir, hjúkrunarfræðingur á slysa- og bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, sendi á dögunum opið bréf til Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra.  Bréfið hefur nú verið birt á vef HSS en það má einnig lesa hér að neðan.

"Kæri Guðbjartur,

í ljósi ákvörðunar þinnar um launahækkun forstjóra Landspítala-háskólasjúkrahúss, sem þú tókst einn, bind ég miklar vonir við þig og þína stjórnunarhætti. Augljóst er að nú eru nýir tímar og fólk mun fara að fá umbun fyrir störf sín og uppskera eins og það hefur sáð.

Þúsundir hjúkrunarfræðinga fagna þessum tímamótum þar sem þeir hafa unnið ötullega síðustu misseri í kjölfar kreppu og stórfellds niðurskurðar á heilbrigðisstofnunum. Stjórnendur hafa neyðst til að krefjast þess af hjúkrunarfræðingum að þeir vinni að minnsta kosti á við tvo með verri tækjakost, lakari aðstöðu og lengri vegalengdir á milli mismunandi stiga heilbrigðisþjónustu. Þetta hefur stefnt öryggi skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins í hættu. Í hvert sinn sem hjúkrunarfræðingar hafa orðað áhyggjur sínar af þessari þróun hefur svarið verið: „Það eru engir peningar til, því miður”. Nú er augljóst að að minnsta kosti 450 þúsund krónur á mánuði eru til og sennilega meira, en hjúkrunarfræðingar hafa hreinlega ekki farið rétt að þessu, að sjálfsögðu ættu þeir að lýsa því fyrir þér hversu ómissandi þeir eru, og ef það dugar ekki þá kannski sýna þér það.

Nú veit ég ekki hvernig dæmigerður dagur forstjóra Landspítala-háskólasjúkrahúss gengur fyrir sig, sérstaklega þar sem það á undarlegan hátt virðist ekki vera fullt starf, en ég veit það vel að það er ekkert til sem heitir dæmigerður dagur hjá hjúkrunarfræðingi í heilbrigðisgeiranum í dag. Starf og ábyrgð hjúkrunarfræðings spannar mjög vítt svið; allt sem kemur að velferð og heilsu skjólstæðingsins. Það eru hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar sem eru viðstaddir allan sólarhringinn til að sinna skjólstæðingum. Launin fyrir þessi störf eru þó ekki uppá marga fiska, en samt virðast þau vera hvað fyrirferðamest í heilbrigðiskerfinu því helst virðist vera hægt að skera niður stöðugildi hjúkrunarfræðinga.

Ekki er langt síðan að flótti heilbrigðisstarfsmanna af landi brott var fyrirferðamikill í fréttum. Þá taldi ráðherra enga þörf á áhyggjum eða viðbrögðum við því. Hefur ráðuneytið núna aðra skoðun á þessum flótta og mun það bregðast við með þessum hætti í framtíðinni? Munu kjör heilbrigðisstarfsmanna verða stórbætt vegna girnilegra atvinnutilboða erlendis frá? Eða á þetta bara við um þennan eina mann? Hafa forstjórar annarra heilbrigðisstofnana ekki staðið sig vel? Þeir, sem í mörgum tilfellum, hafa þurft að ganga í gegnum blóðugan niðurskurð með því að loka deildum, segja upp starfsfólki og þannig þurft að breyta allri starfsemi stofnananna til muna. Mega þeir þá eiga von á kjaraleiðréttingu líka?

Ég veit ekki hvernig forstjóri Landspítala-háskólasjúkrahúss hefur staðið sig í starfi, en ég hef heyrt að biðlistar séu að lengjast, bið á bráðamóttöku sé yfirleitt í lengri kantinum og starfsfólkið sem sinnir sjúklingunum sé orðið langþreytt. En mér skilst á öllu að hann sé ómissandi, mér er spurn: En við hin, erum við „missandi”?

Guðrún Ösp Theodórsdóttir, hjúkrunarfræðingur."

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024