Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Óafturkræft stórslys ef gamla Sundhöll Keflavíkur verður rifin
Mánudagur 8. janúar 2018 kl. 22:12

Óafturkræft stórslys ef gamla Sundhöll Keflavíkur verður rifin

- segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi ráðherra. Húsanes mun byggja stórhýsi á lóðinni

„Sundhöllin er ekki bara mikilvæg í byggingarsögu okkar Keflvíkinga, heldur má einnig líta til byggingarsögu Íslands,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi ráðherra en hún er ein fjölmargra sem hafa lýst því sem stórslysi ef gamla Sundhöll Keflavíkur verði rifin. Hún sendi athugasemd við auglýsta breytingu á deiliskipulagi við Framnesveg en fundur var haldinn um deiliskipulagsbreytingu við Framnesveg  11 og Víkurbraut 21-23 í Reykjanesbæ í Duus-safnahúsum í síðustu viku.

Verktakafyrirtækið Húsanes keypti Sundhöllina fyrir nokkrum árum síðan, lóð hennar og áætlar að byggja þar þrjú stór fjölbýlishús, þ.e. við Framnesveg 11. Fyrirtækið er einnig með í áætlun að byggja þrjú önnur stórhýsi við Víkurbraut sem er við Keflavíkurhöfn. Á fundinum þar sem þessar byggingarframkvæmdir voru kynntar sátu fyrir svörum Jón Stefán Einarsson arkitekt Húsaness og Gunnar K. Ottósson, skipulagsfulltrúi Reykjanesbæjar. Ekki komu fram miklar athugasemdir. Nokkrir fundargestir sem búa við Pósthússtræti voru með  ábendingar sem skipulagsstjóri og arkitektinn sögðu hafa verið gagnlegar. Ekki kom nein gagnrýni á þessi áform nema sem snéri að því að Sundhöll Keflavíkur verði rifin, áður en bygging húsanna hefst því hún er á lóðinni. Ragnheiður stóð upp á fundinum og fór yfir málin.

Ragnheiður Elín segir það ótækt verði af því að gamla Sundhöllin verði rifin. Hægt er að koma með athugasemdir til miðnættis í kvöld, mánudag. „Mín athugasemd varðar fyrirhugað niðurrif gömlu Sundhallarinnar að Framnesvegi 9. Ég lít svo á að ef þetta sögufræga hús verður rifið yrði þar um óafturkræft stórslys að ræða, bæði þegar litið er til byggingarsögunnar og menningar- og íþróttasögu okkar Keflvíkinga. Vissulega má húsið muna sinn fífil fegurri og ljóst að kostnaðarsamt verður að koma því í upprunalegt horf. Það er hins vegar einfaldlega verkefni sem ráðast verður í og ég er sannfærð um að hægt sé að bindast samtökum um að fjármagna þær breytingar og finna húsinu verðugt verkefni til framtíðar. Húsið er eitt af þremur hér í bænum sem teiknuð eru af Guðjóni Samúelssyni og er því mikilvægt í byggingarsögulegu samhengi. Þrátt fyrir að Bárður Ísleifsson hafi einnig komið að hönnun hússins á sínum tíma ber húsið skýrt höfundareinkenni Guðjóns og var stórfalleg bygging. Breytingar sem gerðar hafa verið í gegnum tíðina hafa ekki allar verið vel heppnaðar en þær eru afturkræfar.

Í bréfi Minjastofnunar um bygginguna segir: „Sundhöll Keflavíkur er meðal nokkurra sundhallarbygginga sem Guðjón Samúelsson húsameistari hannaði um svipað leyti, eins og t.d. sundhöll Seyðisfjarðar sem byggð var árið 1948 og sundhöll Ísafjarðar, sem tekin var í notkun árið 1946. Báðar eru þessar sundlaugar enn í notkun og hafa fengið gott viðhald.“ „Til viðbótar má einnig nefna Sundhöll Reykjavíkur sem teiknuð var af Guðjóni Samúelssyni árið 1937 sem Reykjavíkurborg er nýlega búin að byggja við af miklum sóma. Mér þætti dapurlegt til þess að hugsa og bera vott um mikla skammsýni að nánast á sama tíma yrði okkar sögufrægu byggingu fargað,“ segir Ragnheiður Elín en hún er borin og barnfæddur Keflvíkingur.



Hún segir í lokakafla athuagsemdarinnar: „Að lokum vil ég nefna að strandleiðin okkar er ein af best heppnuðu framkvæmdum hér í bæ og gríðarleg lífsgæði sem felast í því fyrir okkur íbúana að geta stundað útivist og notið náttúrunnar alla daga á þessari fallegu leið í hvaða veðri sem er. Það sem helst mætti bæta við strandleiðina eru áfangastaðir þar sem hægt væri að setjast niður yfir kaffibolla og njóta mannlífsins í bland við náttúruna. Ég sé Sundhöllina fyrir mér sem slíkan áningarstað, hvort sem hún yrði gerð að safni, veitingastað, hóteli, svo nokkur dæmi sem verið hafa í umræðunni séu nefnd, og að með vel heppnaðri endurbyggingu mætti tryggja líf í húsinu og gróskumikið mannlíf.
Ég fer fram á að þessi áform verði endurskoðuð og að leitað verði allra leiða af alvöru til þess að koma í veg fyrir niðurrif Sundhallar Keflavíkur. Eins og Minjastofnun bendir á er framtíð hússins í höndum sveitarfélagsins og brýnt að bæjaryfirvöld axli þá ábyrgð.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Teikning af fyrirhugum byggingum á lóð gömlu Sundhallar Keflavíkur.