Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Niðurlægjandi lífsreynsla
Fimmtudagur 19. febrúar 2009 kl. 16:53

Niðurlægjandi lífsreynsla



„Þetta er eiginlega það asnalegasta sem ég hef gert um ævina. Eftir á að hyggja hefði ég viljað sleppa þessu og í raun var þessi lífsreynsla niðurlægjandi.“
Þannig lýsir Karen Lind Tómasdóttir reynslu sinni af þátttöku í fegurðarsamkeppnunum Ungfrú Suðurnes og Ungfrú Ísland árið 2007. Karen var valin Ungfrú Suðurnes og var meðal fimm efstu í Ungfrú Ísland þar sem hún hlaut titilinn „Soothys stúlkan“ og Netstúlkan 2007.
„Ég tel mig hafa þroskast síðan þá og sé að það eru aðrir hlutir í lífinu sem skipta miklu meira máli heldur en það að vera í kjól, með hvítt hár og kórónu,“ segir Karen reynslunni ríkari.



Hafði alltaf bakþanka

„Það var oft haft samband við mig og ég beðin um að taka þátt í Ungfrú Suðurnes. Ég afþakkaði það alltaf því mér fannst þetta ekki höfða til mín. Síðan var hringt enn og aftur og sagt að nú væri síðasti séns, ég mætti ekki missa af þessu einstaka tækifæri sem myndi gera mér svo gott og ég ætti góða möguleika. Ég lét því undan að lokum á ákvað að vera með,“ svarar Karen aðspurð að því hvað hafi rekið hana til þátttöku. Hún bætir því við að eftir að undirbúningur fyrir keppnina hófst hafi hún alltaf haft bakþanka um þessa ákvörðun. Hún hafi reyndar ekki verið ein um það.


Með bláa fótleggi

„Það var illa staðið að þessari keppni og skipulag lítið. Enda var litið á okkur sem hálfgerð viðundur þegar við svo mættum í Fegurðarsamkeppni Íslands og haft á orði að við kynnum ekki neitt, ekki einu sinni rétt göngulag. Þó ég hafi sloppið við meiriháttar krítík í Suðurnesjakeppninni voru nokkrar sem fengu að heyra að þær væru með „bláa“ fótleggi, alltof æðaberar og fleira í þeim dúr. Þetta var í sjálfu sér ósköp saklaust miðað við keppnina í Reykjavík því þar byrjaði vitleysan fyrir alvöru.

Við hittumst fyrst um miðjan apríl og þá var okkur sagt að eftir viku færum við í mælingu. Mér kveið ekkert fyrir því, enda taldi ég mig í góðu formi, fannst ég aldrei hafa litið betur út en einmitt þá.  Þegar að mælingunni kemur er okkur smalað inn í einn sal í World Class, sitjum þar í hring með vigtina í miðjunni og ein og ein tekin fyrir að hinum viðstöddum.


Hrein hörmung

Ég var með magavöðva, í toppformi og nýbúin í mælingu hjá einkaþjálfara þar sem fituhlutfallið mældist 16%, sem telst ekki mikið.  Að eðlisfari er ég fremur þung sem skrifast á vöðvamassa enda æft af kappi frá unga aldri.

Svo stíg ég þarna á vigtina, sem sýndi 64 kg. Viðbrögðin voru þau að þetta væri hrein hörmung.  Sú sem annaðist vigtunina lét þau orð falla að ég liti út eins og ég hefði aldrei hugsað um mig í lífinu. Ég spurði hvað hún ætti við. Svörin voru á þau leið að ég væri engan veginn „í samhengi“ Það væri bara hræðilegt að sjá mig. Hvað ég væri eiginlega að gera í þessari keppni ef ég væri ekki tilbúin til að taka þátt. Mér var svo brugðið að ég kom varla upp orði. Svaraði samt að þetta væri ekki rétt. Hin svaraði með þjósti að þetta væri víst rétt, hún hefði mig þarna fyrir framan sig og sæi hvernig ég liti út.
Síðan fitumældi hún mig og fékk það út að fituhlutfallið væri 27%, og ég bendi réttilega á að offita er í kringum 30%. Hún segir við mig að þetta sé hræðileg niðurstaða sem segi meira en nóg. Síðan komu athugasemdir um stór brjóst, breið læri og stóran rass.
Fólk getur skoðað myndir af mér á sundbol í keppninni og velt því fyrir sér hvort þetta hafi verið rétt.

Aðrar stúlkur úr hópnum fengu einnig harða gagnrýni á útlit sitt. Meðal annars að hendur væru ekki í samræmi við fætur og búk, svona rétt eins og maður hefði sjálfur eitthvað með það gera.  
Ég spurði sjálfa mig að því út í hvað ég væri eiginlega komin og fannst ég meira virði en svo að ég þyrfti að hlusta á svona niðurrif.



Kastaði upp mat í þrjá daga

Karen segist hafa verið mjög niðurbrotin eftir þetta og það hafi komið henni nokkuð á óvart. „Ég er ekki þannig týpa. Yfirleitt er ég mjög örugg með mig, stend með sjálfri mér og veit hvað ég vil í lífinu.
Ég var heima í þrjá daga eftir þetta niðurrif og lagðist undir sæng. Þessa daga borðaði ég með svo miklu samviskubiti að ég kastaði nokkrum sinnum upp því sem ég lét ofan í mig og hafði hreinlega viðbjóð á sjálfri mér, eitthvað sem ég hafði ekki upplifað áður.
Sem betur fer á ég góða fjölskyldu og kærasta sem studdu mig og hvöttu mig eindregið til að draga mig út úr keppninni, enda væri þetta ekki fyrir mig og ég ætti ekki að láta koma svona fram við mig.“



Karen Lind sem Fegurðardrottning Suðurnesja 2007. Hin myndin er tekin viku eftir mælinguna þar sem hún fékk gagnrýni fyrir of stór brjóst, stóran rass og þykk læri.
------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Bundin samningi og gat ekki hætt við

Hvað kom veg fyrir að þú drægir þig út úr keppninni?

„Ég var alveg kominn inn á það að hætta en gat það ekki vegna samnings sem ég hafði undirritað þremur dögum fyrir þessa mælingu. Eins og aðrir þátttakendur skrifaði ég undir þennan samning. Við vorum staddar á Broadway í myndatöku þegar framkvæmdastjóri keppninnar kallaði okkur eina og eina afsíðis til að skrifa undir samninginn. Ég var kölluð inn í herbergi og mér réttur samningurinn í hendur. Ég átti að sitja fyrir framan framkvæmdastjórann og lesa samninginn yfir, sem var upp á einar 10 blaðsíður að mig minnir og þriggja ára gildistíma. Í honum voru m.a. ákvæði um að ég mætti ekki lita á mér hárið í þrjú ár eftir keppni eða gera aðrar meiriháttar útlitsbreytingar. Þá gæti maður átt á hættu að vera sektaður. Einnig mátti maður ekki fitna um meira en þrjú kíló á umræddu tímabili svo nokkuð sé nefnt. Eins og gefur að skilja hlýtur það að orka tvímælis þegar samningur er kynntur með þessum hætti og undirritaður undir pressu án þess að þriðji aðili sé vottur. Ég óskaði eftir því að taka með mér samninginn heim en það var ekki leyfilegt, annað hvort væri skrifað undir hann á staðnum eða ég væri ekki með í keppninni. Mjög ólýðræðisleg vinnubrögð.
Í samningnum var m.a. ákvæði um að maður mætti ekki hætta keppni innan sex vikna frá kjörinu. Þessi samningagerð fór hins vegar fram fimm vikum fyrir keppni.
Ef maður hætti innan tilskilins tíma þyrfti maður að borga sig út úr keppninni, upphæð sem nam á annað hundrað þúsund.“


Fékk alveg nóg

Því er gjarnan haldið á lofti að þátttaka í  fegurðarsamkeppnum feli í sér persónulegan ávinning þátttakenda s.s. aukið sjálfstraust, örugga framkomu, læri að hugsa um heilsuna og fleira. Er það ekki svo?

„Því fer fjarri. Sumir þátttakendur hafa meira sjálfstraust en aðrir og fá út á það meiri athygli. Það er lítið unnið með þær sem hafa minna sjálfstraust og hafa sig minna í frammi. Það er einblínt á einhverja sex til sjö keppendur, hinir eru bara með. Þannig upplifði ég þetta,“ segir Karen Lind.
Að sögn Karenar fékk hún alveg nóg eftir Ungfrú Ísland.  Margvísleg tilboð bárust næstu mánuði á eftir um fyrirsætustörf og fleira í þeim dúr en Karen ákvað að þessi kafli í lífi hennar væri að baki. „Ég kærði mig ekki um þetta og passaði hreinlega ekki inn í slíkt prinsessuhlutverk. Í mínum huga er þetta svo mikill gerviheimur og ég veit að sumar stelpnanna eru mér sammála. Þetta er voðalega innantómt.“

Stöðluð ímynd

„Ég vil þakka fyrir það að vera eins sterk og ég er því jafnvel hefði þessi reynsla leitt mig inn á götur anorexíunnar. Við komum þarna hópur af ungum stúlkum alls staðar af landinu og með mismunandi bakgrunn. Við erum gagnrýndar harkalega vegna útlits og allar dæmdir eftir staðlaðri ímynd fegurðardrottningarinnar. Því miður er mismunandi hvernig sú gagnrýni fékk á okkur, margar lifðu á orkudrykkjum síðustu dagana fyrir keppni og gerðu allt til að falla að þessari stöðluðu ímynd. Það skipti ekki máli hvernig við vorum innrættar og í raun engin áhugi á að kynnast okkur sem tilfinningaverum.“


Fannst ég ekki þekkja sjálfa mig

Hún segir það hafa komið illa við sjálfsvirðingu sína að taka þátt í Ungfrú Ísland. „Þetta var ekki ég. Maður er eins og einhver sýningargripur, hannaður eftir ákveðinni forskrift. Ekki maður sjálfur. Mér fannst ég ekki þekkja sjálfa mig á lokakvöldinu, útsprautuð af einhverju brúnkuefni og með hvítt hár, ekki minn ljósa háralit, gervineglur og gerviaugnhár, meik í bak og fyrir og teiknaða magavöðva en þetta allt tilheyrir hlutverkinu.
Það kann að vera að einhver spyrji hvort ég sé bitur og tali svona vegna þess að ég hafi ekki náð tilætluðum árangri. Svo er alls ekki, svo það sé á hreinu. Enda náði ég góðum árangri, varð Ungfrú Suðurnes og netstúlka Víkurfrétta og náði langt í Ungfrú Ísland, hlaut þar tvo titla og varð í einu af fimm efstu sætunum. Ég fékk meira en margar hinna og nóg af tilboðum eftir þetta þannig að ekki hef ég ástæðu til að kvarta yfir því.“
Karen segist vel skilja að stúlkur á aldrinum 17 til 19 ára sjái svona keppnir í einhvers konar glansmynd þar sem allir fá viðurkenningu og athygli. Sú sé hins vegar ekki raunin og hún geti reynslu sinnar vegna ekki mælt með þátttöku í svona keppnum.


„Ef ég væri móðir vildi ég ekki sjá dóttur mína í þessari keppni,“ segir Karen Lind Tómasdóttir.


[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024