Mikill vandi Sandgerðisbæjar: þarf að greiða 80 milljónir vegna hæstaréttardóms
Sandgerðisbær þarf að greiða Flugstöð Leifs Eiríkssonar um 80 milljónir króna vegna dóms hæstaréttar um að fasteignaskattur á flugstöðina hafi verið of hár á árunum 1998 til 2000. Kom þetta fram á fundi sem bæjarstjórn Sandgerðis hélt með þingmönnum Suðurkjördæmis í gær. Hæstiréttur dæmdi bæinn til greiðslu 37 milljóna króna, en með lögbundnum vöxtum er upphæðin sem Sandgerðisbær þarf að greiða um 80 milljónir króna. Á fundinum kom einnig fram að Sandgerðisbær verður af 35 milljóna króna framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna breytinga og áhrifa af dómi Hæstaréttar. Í tekjuáætlun Sandgerðisbæjar fyrir árið 2002 var gert ráð fyrir þessum tekjum og er ljóst að þetta mun hafa mikil áhrif rekstur bæjarfélagsins, en alls nemur tekjutap bæjarins um 35 milljónum króna.
Frá árinu 1997 hefur um 90% aflaheimilda í Sandgerði verið seldar úr bæjarfélaginu. Árið 1997 voru aflaheimildir í Sandgerði um 13 þúsund þorskígildistonn, en á nýhöfnu fiskveiðiári eru úthlutaðar aflaheimildir í Sandgerði rúm 1.300 tonn. Á síðustu árum hefur Sandgerðisbær staðið fyrir miklum hafnarframkvæmdum þar sem sérstaklega var horft til aukinna landana uppsjávarafla. Á þessu ári var fiskimjölsbræðslu Síldarvinnslunnar á Neskaupsstað hinsvegar lokað og síðustu mánuði hefur verið unnið að niðurrifi verksmiðjunnar. Er því engin verksmiðja í bænum sem getur tekið á móti uppsjávarfiski. Tekjur hafnarinnar hafa dregist saman um 12 milljónir á þessu ári.
Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri Sandgerðisbæjar sagði í samtali við Víkurfréttir að hann væri ánægður með fund bæjarstjórnar með þingmönnum í gær. Sigurður segir að meginmálið sé að bærinn hafi ekki gert neitt rangt því mistökin liggi hjá Fasteignamati ríkisins. „Álagningarstofn fasteignaskatts Flugstöðvarinnar var misreiknaður af Fasteignamati ríkisins. Bærinn stóð rétt að innheimtu fasteignaskattanna, en þess má geta að álagningarprósentan á fasteignaskattsstofn á Flugstöðina er mun lægri en álagningarprósenta í nágrannasveitarfélögunum. Álagningarprósentan var höfð lág þar sem vilji var til þess að flugstöðin myndi njóta þess,“ segir Sigurður og tekur fram að ef stuðst hefði verið við sama álagningarstofn og í Reykjanesbæ hefðu tekjur sveitarfélagsins numið um 54 milljónum króna á umræddu þriggja ára tímabili.
Sigurður segir að á fundinum með þingmönnum í gær hafi verið farið yfir þau þrjú áföll sem dunið hafi yfir bæinn á síðustu vikum. Í fyrsta lagi rekstur hafnarinnar sem hefur dregist gríðarlega saman síðustu ár. Í öðru lagi var farið yfir afleiðingar Hæstaréttardómsins og í þriðja lagi var yfir breytingar á framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Sigurður segist þrátt fyrir allt vera bjartsýnn á rekstur bæjarfélagsins. Hann segir að ef útsvar og fasteignaskattur yrðu hækkaðir til jafns við nágrannasveitarfélögin myndu þessi áföll ekki hafa áhrif á rekstur sveitarfélagsins til langframa. „Sandgerðisbær er vel statt sveitarfélag þjónustulega. Einsetningu grunnskóla er lokið, stækkun leikskóla er lokið og því er sveitarfélagið vel í stakk búið til að takast á við framtíð sína,“ sagði Sigurður Valur.