Menningarráð Suðurnesja: Styrkjum úthlutað til 39 menningarverkefna
Menningarráð Suðurnesja úthlutaði á föstudag styrkjum til 39 menningarverkefna á Suðurnesjum, samtals að upphæð 17 milljónir króna. Hæstu styrkir námu 1,0 milljón króna en þeir lægstu 100 þúsund krónum. Alls bárust menningarráðinu 57 styrkumsóknir í þetta fyrsta skipti sem ráðið auglýsir menningarstyrki.
Sveitarfélögin á Suðurnesjum undirrituðu 3. maí 2007 samning við menntamála-ráðherra og samgönguráðherra um samstarf ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum um menningarmál. Tilgangur samningsins er að efla menningarstarf á Suðurnesjum og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum við slíkt starf í einn farveg.
Þessi úthlutun er sú fyrsta sem fimm manna Menningarráð Suðurnesja ákveður en það er skipað fulltrúum allra sveitarfélaganna fimm.
Af umsóknum og úthlutunum má ráða að menningarstarf á Suðurnesjum er blómlegt og víða að finna kraftmikla nýsköpun, hvort heldur er á sviði lista eða menningartengdrar ferðaþjónustu.
Úthlutunin fór fram við hátíðlega athöfn í Duushúsum í Reykjanesbæ.
Hæstu styrkir fara til eftirfarandi verkefna:
1.000.000 Sagan sögð. Margmiðlunarverkefni Menningarsetursins að Útskálum
Sögu Suðurnesja miðlað út frá lífi og starfi á prestssetrinu. Upplýsingar um margvísleg hlutverk prestssetra verður að finna á Menningarsetrinu.
1.000.000 Séra Oddur. Verkefni grindvíska atvinnuleikhússins (GRAL)
Uppsetning nýs atvinnuleikhúss á leiksýningu um séra Odd V. Gíslason í Flagghúsinu haustið 2008.
1.000.000 Víkingaheimar
Uppsetning sýningar um siglingar víkinga, listrænt gildi víkingaskipa og tengingu milli forms og sjóhæfni skipanna.
750.000 Skessan í fjallinu
Hellir Skessunnar úr sögum Herdísar Egilsdóttur gerður í fullri stærð og heimili hennar búið viðeigandi munum með lifandi sýningu.
750.000 Hallgrímspassía eftir Sigurð Sævarsson
Flutningur á Hallgrímspassíu með hljómsveit, kór og einsöngvara. Schola Cantorum, Caput-hópurinn, Jóhann Smári Sævarsson. Hljómsveitarstjóri: Hörður Áskelsson.
750.000 Ávaxtakörfudagurinn - Barnamenningarhátíð
Tvíþætt verkefni: Barnamenningarhátíð með krakkafundi þar sem börnin ræða framtíðina á Suðurnesjum. Stórtónleikar haldnir á opnu svæði.
750.000 Menningarverkefnið Hlaðan
Fyrstu verkefni í nýrri lista- og menningarmiðstöð að Minni-Vogum. Tónlist, myndlist, bókmenntir. Rými til listsköpunar, gestavinnustofa, uppákomur.
500.000 Þekking er upphaf
Upptökuheimili Geimsteins, með 30 ára sögu, verður gert að móttökusetri fyrir ferðamenn. Lítið safn með sögu Rúnars Júlíussonar.
500.000 Karlakór Keflavíkur og poppgoð Suðurnesja
Upptaka og útgáfa á hljómdiski með völdum lögum eftir hljómlistarmenn á Suðurnesjum, fluttum með þátttöku þeirra og hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar.
500.000 Barnaland og vísir að húsdýragarði
Uppbygging á aðstöðu fyrir börn og ungmenni í formi leikja-, þrauta- og húsdýragarðs. Verður hluti af Víkingaheimum.
500.000 Þjóðleiðabæklingar. Ferðamálasamtök Suðurnesja
Útgáfa fimm bæklinga á ári í þrjú ár um fornar þjóðleiðir að verstöðvum á Reykjanesi og milli þeirra.
500.000 Landnámsminjar í Höfnum
Fornleifarannsókn Fornleifastofunnar og Byggðasafns Reykjanesbæjar á landnámsskála við Kirkjuvogskirkju í Höfnum sem fannst haustið 2002.
500.000 Tónlistarauður Suðurnesja
Tónleikaröð í þremur hlutum á vegum Jóhanns Smára Sævarssonar; Söngvarar, tónlistarmenn og tónskáld Suðurnesja.
500.000 Viðburða- og menningardagskrá í Grindavík
Fjölbreytt viðburða- og menningardagskrá allt árið: Tónleikar, sýningar, gönguferðir, sagnakvöld og fleira.
500.000 Minnisvarði um sjómennsku og útgerð frá Vogum
Verkið Íslands Hrafnistumenn eftir Erling Jónsson verður reist í Vogum sem minnisvarði um sjómennsku og útgerð á staðnum.
500.000 Ávaxtakarfan - sjónvarpsþáttaröð
Framleiðsla 12 sjónvarpsþátta sem fylgja lífsspeki Ávaxtakörfunnar sem boðar vináttu, jafnrétti og bræðralag.
500.000 Tónleikaröð í Grindavíkurkirkju
Fjölbreytt tónlistardagskrá allt árið en nýtt orgel og ráðning organista gerir kirkjunni kleift að efna til reglubundins tónleikahalds.