Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Marel og Fisktækniskóli Íslands endurnýja samstarf
Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir og Ólafur Jón Arnbjörnsson undirrituðu samninginn. Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, var viðstödd við athöfnina.
Mánudagur 24. maí 2021 kl. 07:29

Marel og Fisktækniskóli Íslands endurnýja samstarf

Samstarfssamningur milli Fisktækniskóla Íslands og Marel var undirritaður nýlega. Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fiskiðnaðar Marel, og Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólameistari Fisktækniskóla Íslands, undirrituðu samning til þriggja ára um nám í Marel vinnslutækni. Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, var viðstödd athöfnina sem fór fram í höfuðstöðvum Marel.

Síaukin tæknivæðing við fiskvinnslu umbreytir störfum og krefst nýrrar færni, ekki síst á sviði hugbúnaðar og tækni. Sérhæfing í Marel vinnslutækni er sex mánaða námsbraut og ein af fjórum framhaldsbrautum sem nemendur geta valið að loknu grunnnámi við Fisktækniskólann. Nemendur öðlast færni og þekkingu á hátæknilausnum og hugbúnaði frá Marel með þessari sérhæfingu og læra að beita nýjustu tækni til þess að hámarka afköst, verðmæti og gæði sjávarafurða. Að auki er áhersla lögð á að tryggja rekjanleika, matvælaöryggi og sjálfbærni við fiskvinnslu, segir í frétt frá Fisktækniskólanum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bein tenging við sérfræðinga og atvinnulífið

Gestakennarar frá Marel miðla þekkingu til nemenda sem lúta að hátæknilausnum, kerfum og hugbúnaði. Marel tengir nemendur einnig við atvinnulífið með heimsóknum og kynningum á fiskvinnslufyrirtækjum en á Íslandi má finna sumar tæknivæddustu vinnslur heims þar á meðal Brim, Búlandstind, og Vísi.

Nemendur fá innsýn í heim nýsköpunar við þróun hátæknilausna við fiskvinnslu með heimsókn í höfuðstöðvar Marel í Garðabæ. Þau heimsækja einnig Progress Point, sýningarsal Marel í Kaupmannahöfn, þar sem þau sjá slíkar hátæknilausnir vinna hráfefni í rauntíma og fræðast um samspil tækni og hugbúnaðar við að hámarka nýtingu, afköst og gæði.

Farsælt samstarf

Frá því að samstarf Marel og Fisktækniskólans hófst árið 2014 hafa um 40 nemendur útskrifast með sérhæfingu í Marel vinnslutækni. Mörg þeirra starfa nú við fjölbreytt störf í fiskiðnaði og stuðla að aukinni verðmætasköpun og sjálfbærni við vinnslu sjávarafurða.