Maður ársins 2014: Þarf að koma flösku til Kardashian
Lét ekki lesblindu stöðva sig á menntaveginum. Vendipunktur þegar hún kom til Keilis á Ásbrú. Komin á fleygiferð með nýsköpunarfyrirtæki með fæðubótarefni úr kísil.
Frumkvöðullinn Fida Abu Libdeh sem stofnaði nýlega nýsköpunarfyrirtækið Geosilica á Ásbrú er „Maður ársins á Suðurnesjum 2014“.
Hún kom 16 ára frá Palestínu, gekk í menntaskóla í Reykjavík en náði ekki að ljúka stúdentsprófi vegna erfiðleika með íslenskuna. Hún vildi mennta sig meira og gera meira á lífsleiðinni en var komin í öngstræti þegar hún uppgötvaði háskólabrú í Keili á Ásbrú. Þar var hún greind með lesblindu og fékk viðeigandi hjálp til að halda áfram að læra. Það gerði hún með stæl, lauk stúdentsprófi og síðan í framhaldinu þriggja ára háskólanámi í umhverfis- og orkutæknifræði. Hún stofnaði síðan frumkvöðlafyrirtæki með skólafélaga sínum Burkna Pálssyni og nú um áramótin kom vara þeirra á markaðinn en það er hágæða kísilfæðubótarefni, unnið úr náttúrulegum íslenskum jarðhitakísli. Hún lét ekki þar við sitja á menntunarbrautinni heldur fór samhliða vinnu sinni í nýja fyrirtækinu í MBA nám í Háskólanum í Reykjavík sem hún klárar næsta vor. Það var ekki alveg nóg því hún bætti við þriðja barninu en hún er gift Jóni Kristni Ingasyni viðskiptafræðingi. Fjölskyldan býr á Ásbrú og var með fyrstu íbúunum sem flutti þangað árið 2007.
Fida er frábær fyrirmynd þeirra sem hafa draum og gera allt til þess að láta hann rætast. Þrátt fyrir margar hindranir hefur hún afrekað ótrúlega hluti frá því hún kom til Íslands frá Palestínu á unglingsaldri. Eftir erfiðleika í menntaskóla á Íslandi þar sem erfitt tungumál og lesblinda gerðu ferðina torsótta í menntuninni sá hún tækifæri hjá háskólasamfélaginu Keili á Ásbrú árið 2007. Fida lauk þar stúdentsprófi og fylgdi því eftir með háskólanámi í tæknifræði frá sama skóla. Lokaverkefni hennar fjallaði m.a. um nýtingu affalsvatns jarðvarmavirkjana til að framleiða hágæða kísilheilsuvörur úr 100% náttúrulegum íslenskum jarðhitakísli án aukaefna. Draumur hennar rættist þegar hún stofnaði, ásamt Burkna Pálssyni, fyrirtækið Geosilica sem nú hefur hafið framleiðslu á hágæða heilsubótarvörum úr affalsvatninu. Saga Fidu tengist mörgum jákvæðum þáttum í uppbyggingu Suðurnesja eftir efnahagshrun, þar sem hún náði að nýta sér mörg tækifæri til menntunar og betri framtíðar. Fida Abu Libdeh er „Maður ársins á Suðurnesjum 2014“.
„Þetta er búið að vera löng og ströng leið og að fá svona viðurkenningu er mikill heiður. Maður heldur alltaf að maður sé ekki búinn að gera nóg, þurfi að gera meira. Þetta er líka innspýting, færir manni meiri orku en líka pressa því vissulega er stefnan að afreka meira,“ segir hin ljúfa og skemmtilega Palestínukona sem talar reiprennandi íslensku. Hún skellir líka af og til upp úr með smitandi hlátri en framkoma hennar þykir einstök og lundin ljúf.
Við setjumst niður með Fidu í frumkvöðlasetrinu Eldey á Ásbrú og spyrjum hana út í troðna leið hennar sem skólameistari Keilis segir vera öskubuskusögu. „Þetta hefur ekki verið auðvelt ævintýri,“ segir hún pínu alvarleg en það er alltaf stutt í brosið og hún bætir strax við að þetta hafi allt verið svo skemmtilegt og virkilega þess virði.
Hún segir í upphafi spjalls okkar endilega vilja koma á framfæri þökkum til nokkurra aðila því án aðstoðar þeirra hafi þetta aldrei orðið að veruleika með stofnun nýsköpunarfyrirtækisins Geosilica. Þar nefnir hún fyrst Keili en einnig Kadeco, Vaxtasaming Suðurnesja, Atvinnumál kvenna og Tækniþróunarsjóð Íslands en Fida hefur fengið nærri 40 milljónir króna í styrki þessum sjóðum og aðilum. Það er vissulega magnað að eitt fyrirtæki fái svo góða aðstoð en þeir sem til þekkja segja flest nýsköpunarfyrirtæki oftast deyja eða lenda í vandræðum í upphafinu - í uppbyggingarfasanum. Fida tekur undir það.
Erfið byrjun á Íslandi
Fida kom til Íslands með móður sinni og fimm systkinum og þá var hún 16 ára og eldri systir hennar ári eldri. Tengingin við Ísland kom í gegnum móðurbróður þeirra sem hafði búið í marga áratugi á Íslandi.
Fida byrjaði í 10. bekk í grunnskóla í Reykjavík en segir að hún hafi lent í miklum erfiðleikum í framhaldsskóla með fög eins og íslensku og dönsku og hún hafi ekki náð að ljúka stúdensprófi vegna þess á þeim tíma. Ekki hafi verið horft til aðstæðna með móðurmálið hjá henni og eldri systur í kerfinu. Á næstu sjö árum hafi henni tekist að ljúka öllum áföngum nema íslensku og dönsku. Það hafi verið erfitt að geta ekki fengið stúdentsprófið viðurkennt en Fida þráði heitt að ganga menntaveginn en á þessum árum þurfti hún einnig að vinna með náminu. Fida sótti um undanþágu í Háskóla Íslands til halda áfram en var synjað en eldri systir hennar hætti námi.
Fyrstu árin var Fida með mikla heimþrá og eftir menntaskólaárin ákvað hún að snúa aftur til Palestínu. Seldi allt sem hún átti og fór til heimalandsins. „Ég fann það fljótt að ég var orðin meiri Íslendingur og sneri því aftur hálfu ári síðar,“ segir Fida og ekki löngu seinna sá hún auglýsingu frá Háskólabrú Keilis á Ásbrú og þá fóru hjólin að snúast hjá henni.
„Ég sá auglýsingu frá Keili og eftir að hafa skoðað þetta hjá skólanum á netinu mætti ég á staðinn og fór í viðtal. Ég var spurð hvað ég vildi verða og ég sagði auðvitað að ég vildi verða bankastjóri enda var það vinsælt eða inni eins og sagt er árið 2007. Ég fékk það svar að ég þyrfti ekki að taka fögin sem ég var í erfiðleikum með, heldur gæti einblínt á stærðfræði, bókhald og hagfræði og slík fög. Háskólabrúna kláraði ég á einu ári og þaðan lá leiðin í umhverfis- og orkutæknifræði og ég lauk þar BS háskólagráðu. Reyndar fór ég í millitíðinni í viðskiptafræði í Háskóla Íslands en líkaði það ekki, hafandi samanburð við Keili. Eftir tæknifræðinámið mitt í Keili langaði mig samt að bæta við mig viðskiptaþekkingu og samhliða uppbyggingu okkar á fyrirtækinu og vinnu minni þar er ég núna að ljúka í vor MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík.“
Þáttaskil með lesblindugreiningu
Það urðu þó veruleg þáttaskil í menntunarsókn Fidu í Keili þegar hún var greind með lesblindu. Hún segist alltaf hafa átt erfitt með að skilja íslenskuna þegar hún var í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Gerði ráð fyrir því að móðurmálið hennar, arabískan, hafi átt þátt í því. En við komuna í Keili sendi námsráðgjafi hana í lesblindugreiningu, m.a. vegna erfiðleika hennar með fög eins og íslensku en einnig ensku og dönsku. Hún var greind lesblind og í framhaldinu fékk hún aðstoð á þann hátt að hún gat hlustað á allt námsefnið í tölvunni, bækur, glærur og fleira. Þá urðu erfiðu fögin auðveldari fyrir Fidu sem var ekki í neinum erfiðleikum í öðrum fögum og náði mjög góðum árangri. „Ég er ekki í nokkrum vafa að lesblinda háði mér áður en ég fékk greiningu og þetta var því enn erfiðara fyrir mig hafandi annað móðurmál en íslenskuna.“
Er íslenska erfið fyrir útlendinga?
„Málfræðin finnst mér mjög erfið. Ég heyri alveg þegar ég segi eitthvað rangt eða beygi orðin vitlaust en er oftast ekki nógu fljót að leiðrétta mig og læt því bara vaða. Ég ætla samt að halda áfram að bæta mig í íslensku. Það er nauðsynlegt til að geta verið fullvirkur þátttakandi í samfélaginu.“
Samfélagsleg ábyrgð
Fida segir varðandi fyrirtækjareksturinn að það sé miklvægt að sýna samfélagslega ábyrgð og það sýni þau í fyrirtækinu með því að eiga viðskipti við fyrirtæki í nærsamfélaginu, þ.e. á Suðurnesjum en ef hún þarf að leita annað þá til höfuðborgarsvæðisins, alls ekki til útlanda. Hún segir að hún hafi alla tíð verið ánægð sem íbúi á Íslandi, fyrst á höfuðborgarsvæðinu en á Ásbrú frá 2007. Hún var verið með fyrstu íbúunum á Ásbrú, gamla varnarsvæðinu. „Það var mjög vel tekið á móti mér á Suðurnesjum. Við erum búin að vera hér í sjö ár og ég er mjög ánægð. Ég hef einnig séð hvernig tekið hefur verið á móti útlendingum hérna. Það er lögð áhersla á það sem fólk hefur að bjóða en ekki það sem það skortir.“
En hversu mikilvægt er fyrir útlendinga að læra íslensku vel? „Það er gríðarlega mikilvægt að læra íslensku, annað er skerðing á lífsgæðum. Þú getur ekki verið virkur þátttakandi í samfélaginu nema geta talað málið.“
Heimþrá alltaf til staðar
Fida fylgist vel með átökunum í heimalandinu m.a. í gegnum samskiptamiðla en segir það oft taka á og vera erfitt því hluti fjöskyldu hennar sé þar. Hún segist þakka Guði daglega það líf sem hún geti boðið börnum sínum hér á Íslandi en neiti því þó ekki að hún fái oft heimþrá.
„Ég ætla að reyna að fara með vöruna okkar til mið-Austurlanda, á mínar heimaslóðir. Það hlýtur að vera hægt að selja hana þar,“ segir hún og hlær. Aðspurð um hvort það myndi ekki vekja athygli í Palestínu hvað hún hafi náð góðum árangri á Íslandi svarar hún játandi en segir jafnframt að konur í Palestínu séu sterkar andlega. Þær þurfi að taka málin í sínar hendur þegar feðurnir fara út á vígvöllinn. Og margar hafi þurft að upplifa það að pabbarnir hafi ekki snúið heim.
Á undanförnum árum hefur Fida ekki aðeins gælt við menntagyðjuna svo um munar heldur byggt upp fjölskyldu samhliða. Hún er nýbúin að eignast þriðja barnið með manni sínum Jóni Kristni Ingasyni viðskiptafræðingi. „Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi,“ segir hún með bros á vör.“
Lokaverkefni varð að sprotafyrirtæki
Lokaverkefni Fidu í orku- og umhverfistæknifræði fjallaði um áhrif kísils á mannslíkamann og góður skólafélagi hennar, Burkni Pálsson, var á sama tíma að rannsaka aðferðir til að hreinsa jarðhitakísil. Leiðir þeirra lágu saman og þau stofnuðu nýsköpunarfyrirtækið Geosilica.
„Þessi hugmynd fæddist á lokaárinu okkar í orku- og umhverfistæknifræði í Keili. Við sáum tækifæri í affallsvatni jarðvarmavirkjana hér á landi en það er mjög kísilríkt og í raun ónýtt auðlind en um 45 þúsund tonn af kísil falla til árlega og eru ekki nýtt,“ segir Fida þegar hún rifjar upp hvernig hugmyndin að fyrirtækinu varð til.
„Við skoðuðum rannsóknir og hvað kísillinn er nýttur í en hann er m.a. notaður sem fyllingarefni í tölvukubba og í málningu en hæsta kílóverðið var í heilsuvörum. Kísillinn er talsvert notaður í fæðubótaefni erlendis og slík efni eru flutt inn hingað til Íslands af nokkrum fyrirtækjum. Það er engin framleiðsla hér heima en nóg til af honum. Aðferðin sem við höfum þróað við kísilvinnslu er algjör nýjung og skapar fyrirtækinu okkar mikla sérstöðu. Hvergi annars staðar í heiminum er verið að hreinsa náttúrulegan jarðhitakísil á þennan hátt. Við notum engin efnafræðileg ferli við hreinsunina. Þannig verður kísillinn tandurhreinn og það eina sem við þurfum að gera er að skilja hann frá öðrum efnum sem eru yfir leyfilegum mörkum í jarðhitavökvanum. Vökvinn er mjög steinefnaríkur, blandaður arseniki, áli og öðrum óæskilegum efnum. Við höfum þróað tæknina til að skilja þessi náttuefni frá þannig að eftir verður fullkomlega hrein náttúrafurð. Til að ná upp hæfilegu magni fyrir heilsuvöruna þarf að sjóða affalsvatnið þrjátíufalt niður og þannig eyst kísilstyrkurinn. Neytandinn á að taka eina matskeið á dag til að vinna gegn beinþynningu og bæta húð, hár og neglur. “
Beinþynning vandamál
„Það er ekki langt síðan að menn uppgötvuðu mikla eiginleika kísils í formi fæðubótarefnis. Hann styrkir bein hjá körlum og konum og losar óæskileg efni sem hlaðast upp í líkamanum. Beinþynning er alvarlegt vandamál hjá konum en þriðja hver kona lendir í því og fimmti hver karl. Þetta er því mikilvægt fyrir samfélagið ef við getum hjálpað til. Nú er framleiðslan hafin hjá okkur og stefnan í byrjun er að framleiða um tólf þúsund einingar á fyrsta árinu. Markaður fyrir heilsuvörur með kísil er mjög vaxandi, kílóverðið er hátt og þannig getum við gert nýtingu jarðhitavatnsins mjög arðbæra.“
Fida bætir því við að einnig sé á stefnuskránni að þróa kísil- og steinefnaríkt drykkjarvatn sem yrði markaðssett eins og íslenskt vatn en með sérstöku tilliti til kvenna á breytingaskeiði og annarra sem eru í áhættuhópi vegna beinþynningar. Allar lokatilraunir og mælingar hafa verið gerðar og verkefnið er núna að byggja upp lagerinn og stækka tæki og búnað.
Í góðum málum í Eldey
Geosilica er með aðsetur í frumkvöðlasetrinu Eldey á Ásbrú, en þar eru um 25 fyrirtæki með aðsetur. Fida segir aðstæður mjög góðar fyrir nýsköpunarfyrirtæki því í Eldey sé fólk úr mörgum greinum með margvíslega þekkingu sem fólkið innan hússins getur nýtt sér. „Við fáum mikla aðstoð hjá þessu fólki og verkefnastjóri Eldeyjar heldur vel utan um hin ýmsu mál og hefur t.d. lesið yfir umsóknir okkar um styrki. Leiguverðið er lágt og allir eru fúsir að hjálpa hinum. Þetta verður ekki miklu betra.“
Þegar Fida er spurð út í umhverfi nýsköpunarfyrirtækja segir hún það hins vegar oft erfitt.
„Fjármögnun er erfiðasti hjallurinn í lang flestum tilfellum. Við vorum heppin að fá veglega styrki og það hjálpaði okkur mikið. Gjaldeyrishöft og litlar fjárfestingar innanlands gera þetta líka erfiðara en við erum mjög þakklát fyrir mikla hjálp sem við höfum fengið.“
Kardashian þarf flösku
„Við byrjum fyrstu 6-7 mánuðina hér heima en svo er stefnan sett á útlönd og byrja í Bretlandi en við erum t.d. að skoða samstarfsaðila hvað það varðar. Það er t.d. dýrt að flytja vöruna.“
Fida segir að þau hafi sent tuttugu manns flösku til að prófa vöruna til að athuga virknina. Ein af þeim var með psóríasis og hafði notað kísil útvortis en sagði að það hefði líka hjálpað að taka inn vökvann okkar. Við þurfum að klára að gera klíníska rannsókn þannig að við vitum nákvæmlega hvaða áhrif þetta hefur á líkamann. „Það myndi hjálpa að finna einhvern frægan. Kim Kardashian er með psoriasis. Ég þarf að koma flösku til hennar,“ segir Fida og hlær.
Á myndunum að ofan er Fida með starfsmönnum sínum og síðan meðeigandanum Burkna Pálssyni. Páll Ketilsson ritstjóri Víkurfrétta afhenti hennar viðurkenningarskjal og blóm frá VF.