Lýsa áhyggjum af húsnæðisöryggi á Suðurnesjum
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Reykjanesbæ 11. – 12. október 2013, lýsir yfir áhyggjum af húsnæðisöryggi Suðurnesjamanna. Það er lykilatriði fyrir uppbyggingu á Suðurnesjum og velferð á svæðinu að allir íbúar þess eigi kost á að búa í tryggu húsnæði. Þetta kemur fram í ályktun fundarins.
Fjöldi þess fólks sem misst hefur íbúðir sínar í nauðungarsölu á Suðurnesjum er hlutfallslega miklu meiri en annars staðar á landinu og það sama gildir um fjölda fólks í greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Of dýrar fjárfestingar, ófullkomið greiðslumat lánastofnana og erfitt atvinnuástand hefur komið mörgum fjölskyldum á Suðurnesjum í vanda og skapað fjölþættan samfélagslegan vanda. Sveitarfélög á Suðurnesjum telja að fólk eigi að njóta vafans og að nauðungarsölur skuli stöðvaðar á meðan minnsta óvissa er uppi um lögmæti húsnæðisskulda og beðið er eftir tillögum ríkistjórnarinnar í skuldamálum heimilanna.
Það skýtur skökku við að við þessar aðstæður skuli dregið úr starfsemi umboðsmanns skuldara á Suðurnesjum. Umboðsmaður skuldara hefur enn stóru hlutverki að gegna og er mikið leitað til hans. Stjórnvöld eru eindregið hvött til þess að falla frá áformum um samdrátt í þjónustu umboðsmanns skuldara á svæðinu.
Íbúðalánasjóður er eigandi stórs hluta þeirra eigna sem seldar hafa verið nauðungarsölu og nú á sjóðurinn 881 íbúð á Suðurnesjum og eru einungis 294 þeirra í útleigu. Það standa 391 íbúðarhæfar eignir í eigu sjóðsins auðar á Suðurnesjum þegar eftirspurn eftir leiguhúsnæði hefur sjaldan eða aldrei verið meiri. Fasteignum sjóðsins er ekki ekki vel við haldið og hefur það neikvæð áhrif á ásýnd bæjarfélaganna. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir bæjaryfirvalda á Suðurnesjum til Íbúðalánasjóðs um samvinnu um lausn á þessum vanda og velvilja einstakra starfsmanna sjóðsins til þess að leysa úr málum þokar þeim lítið sem ekkert.
Sveitarfélög á Suðurnesjum geta ekki sætt sig við þetta ástand og hvetja ríkisstjórnina eindregið til þess að taka á þessum málum af fullri alvöru og vinna með sveitarfélögum á Suðurnesjum að áætlunum um framkvæmdir til lausnar, segir að endingu í ályktuninni.