Líklegast að gjósi á Sundhnúksgígaröðinni
Um 50 skjálftar mældust á svæðinu í kringum kvikuganginn í gær, 16. maí, flestir undir 1,0 að stærð. Þetta er svipuð skjálftavirkni og mælst hefur síðustu daga, en um 50 til 80 skjálftar hafa mælst á sólarhring, flestir þeirra á svæðunum milli Stóra-Skógfells og Hagafells annars vegar og sunnan Þorbjarnar hins vegar. Þetta kemur fram í samantekt Veðurstofu Íslands nú síðdegis.
Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og rís land þar með sama hraða og áður. Að svo stöddu er ekki ástæða til að áætla annað en að áfram séu töluverðar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni næstu daga.
Síðasta eldgos á Sundhnúksgígaröðinni hófst 16. mars. Á þeim 62 dögum sem liðnir eru síðan þá, hafa um 16 milljónir rúmmetra af kviku bæst við kvikuhólfið undir Svartsengi. Þetta er lengsta lota kvikusöfnunar frá því að þessi atburðarás hófst í lok október 2023.
Uppfært hættumat og sviðsmyndir
Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumat sem gildir til 21. maí að öllu óbreyttu. Hætta vegna gasmengunar á svæði 7 hefur verið hækkuð í tengslum við auknar líkur á nýju eldgosi á svæði 3. Vegna breytingarinnar er heildarhætta á svæðinu nú metin töluverð (appelsínugul) en var áður nokkur (gul). Hætta vegna gasmengunar á öllum öðrum svæðum er óbreytt frá síðustu viku og metin töluverð. Vegna aukinnar smáskjálftavirkni innan svæðis 4 hefur hætta vegna jarðskjálftavirkni verið hækkuð þar.
Veðurstofan hefur einnig uppfært þær sviðsmyndir sem taldar eru líklegastar:
Sviðsmynd 1 - Eldgos milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells (Miðhluti svæðis 3 á hættumatskorti) Svipuð staðsetning og eldgos sem hófust 18. desember 2023, 8. febrúar 2024 og 16. mars 2024.
- Líklegur aðdragandi er staðbundin smáskjálftahrina milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu
- Mjög stuttur fyrirvari (innan við 30 mínútur), jafnvel enginn fyrirvari
- Hraun gæti náð að Grindavíkurvegi á 2 til 4 klukkustundum
Sviðsmynd 2 - Eldgos sunnan eða suðvestan við Hagafell (Syðsti hluti svæðis 3 á hættumatskorti) Svipuð staðsetning og eldgos sem hófst 14. janúar 2024
- Líklegur aðdragandi er smáskjálftahrina sem byrjar nærri Stóra-Skógfelli eða Sýlingarfelli og færist suður, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
- Líklega yrði fyrirvari eldgoss á þessu svæði lengri en í sviðsmynd 1, en óvíst hversu mikið.
- Hraun gæti náð að varnargörðum við Grindavík á um 1 klst..
- Kvikuinnskot sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík.
Heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi aldrei verið meira frá því fyrir 10. nóvember. Huga þarf að fleiri sviðsmyndum ef kvikusöfnun heldur áfram án kvikuhlaups eða eldgoss
Hingað til hefur verið horft til þess magns kviku sem bætist við í kvikuhólfið á milli kvikuhlaupa eða eldgosa. Þegar talað er um að kvikuþrýstingur sé að aukast í kvikuhólfinu undir Svartsengi er gott að horfa á það heildarmagn kviku sem áætlað er að sé til staðar.
Frá 25. október til 10. nóvember 2023 söfnuðust rúmlega 10 milljón m3 af kviku undir Svartsengi. Þegar 15 km langur kvikugangur myndaðist þann 10. nóvember er talið að um 80 milljón m3 af kviku hafi farið úr kvikuhólfinu. Því má gera ráð fyrir að um 70 milljón m3 af kviku hafi verið til staðar í kvikuhólfinu undir Svartsengi á þeim tímapunkti. Kvikusöfnun hefur haldið óslitið áfram síðan þá og kvika hlaupið að minnsta kosti fimm sinnum frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina. Fjögur af þessum fimm skiptum hafa endað með eldgosi.
Hvert kvikuhlaup eða eldgos hefur ekki tæmt kvikusöfnunarsvæðið og því er upphafsstaða kvikusöfnunar undir Svartsengi mismunandi í hverri lotu eftir nóvember 2023 eins og sést á myndinni hér fyrir neðan.
Línurit sem sýnir þróun kvikusöfnunar og áætlað heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi frá október 25. október. Hvert kvikuhlaup hefur ekki tæmt kvikusöfnunarsvæðið og því er upphafsstaða kvikusöfnunar undir Svartsengi mismunandi í hverri lotu eftir nóvember 2023. Hér sést að heildarmagn kviku hefur aldrei verið meira frá því að kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember.
Nokkur líkindi eru milli atburðarásarinnar á Sundhnúksgígaröðinni og þeirrar sem varð í Kröflueldum sem hófust 1975. Á 10 ára tímabili urðu þar 20 kvikuhlaup og enduðu 9 þeirra með eldgosi. Í Kröflueldum fóru kvikuhlaupin öll inn í sama kvikugang en voru mismikil að umfangi. Reynslan frá Kröflueldum sýnir að eftir því sem kvikuhlaupum fjölgar þarf meiri þrýsting til að koma þeim af stað. Því verður að teljast líklegt að kvika hlaupi aftur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, en nokkur óvissa er um hvenær nægilegum þrýstingi verður náð til að koma nýju kvikuhlaupi af stað og að kvika nái til yfirborðs.
Myndin sýnir samspil milli myndunar kvikuganga og landhæðar í miðri Kröfluöskjunni. Neðri myndin sýnir landhæð mælipunkts innan Kröfluöskjunnar, en sú efri hvar umbrotasvæði voru í hverri hrinu. Á efri myndinni táknar rauði liturinn eldgos.(Páll Einarsson og Bryndís Brandsdóttir, 2021)
Nú er svo komið að heildarmagn í kvikuhólfinu undir Svartsengi hefur aldrei verið meira síðan kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember. Eftir því sem lengra líður án þess að nýtt kvikuhlaup verði yfir í Sundhnúksgígaröðina aukast líkur á að kvika leiti á önnur svæði þar sem veikleika er að finna í jarðskorpunni.
Smáskjálftavirkni hefur verið viðvarandi undanfarnar vikur á svæðinu sunnan Þorbjarnar í stóra sigdalnum við Grindavík. Á þessu svæði eru veikleikar í jarðskorpunni sem kvika gæti nýtt sér til að ná til yfirborðs. Það að kvika hlaupi úr kvikuhólfinu yfir á svæðið sunnan Þorbjarnar er á þessum tímapunkti ólíklegri sviðsmynd en þær sem eru nefndar hér að ofan. Því er ekki tekið tillit til þessarar sviðsmyndar í uppfærðu hættumati. Veðurstofan mun safna og vinna úr gögnum næstu daga til að varpa betur ljósi á þennan möguleika.