LÍFTÆKNIFYRIRTÆKI HEFUR STARFSEMI Í HÖFNUM
Líftæknifyrirtækið Bio Process er staðsett er í Höfnunum. Fyrirtækið hefur fundið upp nýja aðferð til að rækta smáþörunga í stórum stíl sem síðan má vinna úr mjög verðmæt efni. Sem dæmi má taka efni til snyrtivöruframleiðslu, í fóður, ýmiss konar fæðubótarefni og efni til lyfjaframleiðslu. Í upphafi mun fyrirtækið fyrst og fremst framleiða astaxantínríkt efni úr grænþörungnum Haematococcus pluvialis. Astaxantín er efni sem finnst í smáþörungum úti í náttúrunni og veldur rauðum lit á holdi silungs og lax og rækju. Astaxantín er einnig eitt af sterkustu andoxunarefnum sem finnast í náttúrunni og er mikil eftirspurn eftir slíkum efnum og mun sú eftirspurn aukast mikið á næstu árum.Það er því óhætt að fullyrða að þessi nýja tækni býður upp á óþrjótandi möguleika í framtíðinni.Nýr áfangiNýlega var öll starfsemi fyrirtækisins sameinuð á Íslandi, en áður hafði tilraunastarfsemin bæði verið í Skotlandi og á Íslandi. Flutt var inn í nýstandsett hús í Höfnum þar sem aðstaða til rannsókna er mun betri en áður var. Ragnheiður Ásta, sem vinnur að rannsóknum hjá BioProcess, sagði að með þessari stækkun væri ákveðnum áfanga náð í starfseminni. „Við höfum verið að rækta þörunga í 600 lítra geymum en munum nú undirbúa aðstöðu til að rækta í 3000 lítra geymum. Næsti áfangi er tilraunaverksmiðja og við vonum að hún verði fari af stað með vorinu“, segir Ragnheiður.Sterkir bakhjarlarFyrirtækið varð til í núverandi mynd fyrir rúmum tveimur árum. Niels Hendrik Norsker er danskur vísindamaður sem stofnaði BioProcess til að framleiða ræktunartæki. Síðar kom Paul Gamel til sögunnar og keypti fyrirtækið, en Niels átti áfram hlut í því. Þeir létu gera markaðskönnun og í framhaldinu ákváðu þeir að stefna hærra og fá meira fjármagn í reksturinn. „Það varð strax mikill áhugi í Danmörku fyrir þessu verkefni og þar hafa sterkir aðilar fjárfest í fyrirtækinu. Keflavíkurverktakar komu fljótlega inní þetta og nú eiga Kaupþing, Eignarhaldsfélag Suðurnesja og Nýsköpunarsjóður einnig hlut í því“, segir Ragnheiður.Orkufrekur iðnaðurRagnheiður segir að ákveðið hafi verið að staðsetja verksmiðjuna á Íslandi, því þar er ótakmörkuð og ódýr orka. „Þetta er í raun og veru stóriðja og það þarf mikla orku í öllum skrefum framleiðslunnar. Keflavíkurverktakar tóku síðan að sér að finna staðsetningu, keyptu þetta hús og lóðina hér í kring. Hér höfum við möguleika á að stækka“, segir Ragnheiður Ásta í samtali við VF.Ráða fleiri vísindamenn til starfaAuk Ragnheiðar Ástu vinna tveir aðrir vísindamenn hjá BioProcess, Roy Clark, framkvæmdastjóri og Niels Hendrik. „Líklega koma bresk hjón til starfa innan skamms. Þau hafa unnið í verksmiðjunni í Skotlandi og hafa því góða þekkingu á því sem verið er að gera. Við sjáum fram á að þurfa að ráða fleira fólk til starfa hér og erum þegar farin að leita að starfsfólki“, segir Ragnheiður Ásta að lokum.