Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Kröftugri atburður en við höfum áður séð á þessu svæði
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 6. nóvember 2023 kl. 17:05

Kröftugri atburður en við höfum áður séð á þessu svæði

Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, segir að það sé túlkun Veðurstofunnar að umbrotin við Grindavík séu kröftugri atburður en vísindamenn hafi áður séð á þessu svæði. Almannavarnir héldu upplýsingafund í dag þar sem farið var yfir stöðu mála vegna þeirra jarðhræringa sem nú eru í gangi á Reykjanesskaganum. Í dag er þrettándi sólarhringurinn í þeirri hrinu sem hófst með landrisi við Þorbjörn 25. október síðastliðinn.

„Gögnin okkar sýna áfram hrinukennda og nokkuð ákafa skjálftavirkni og landris. Aflögunarmælingar sýna að landris heldur áfram á svæðinu við Þorbjörn og eru vísbendingar um aukinn hraða á þenslu frá því á föstudaginn, 3. nóvember. Frá 27. október hefur land risið um sjö sentimetra skv. GPS mælistöðinni á Þorbirni,“ sagði Kristín og bætti við: „Túlkunin á þessum gögnum er áfram sú að kvikusöfnun eigi sér stað á um fimm kílómetra dýpi á svæði norðan og vestan Þorbjörns og að Sýlingafelli. Samkvæmt uppfærðum líkanreikningum sem byggja á gögnum frá 27. október til 3. nóvember hefur kvikusylla myndast þarna en hún er nú orðin tvöfalt stærri en þær fjórar syllur sem mynduðust við Þorbjörn á árunum 2020 til 2022. Þessi líkön benda ennfremur til að innflæði kviku í sylluna sé um sjö rúmmetrar á sekúndu sem er fjórfalt meiri hraði en við fyrri syllumyndanir í Þorbirni. Við túlkum þetta sem svo að þetta sé kröftugri atburður en við höfum áður séð á þessu svæði,“ sagði Kristín.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á upplýsingafundinum velti Kristín því upp við hverju væri að búast. „Á meðan kvikusöfnunin heldur áfram má gera ráð fyrir hviðukenndri skjálftavirkni á Reykjanesskaga vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu. Innskotin við Þorbjörn eru frábrugðin þeim við Fagradalsfjall að þau liggja lárétt í syllum en ekki lóðrétt. Slíkar kvikusyllur geta orðið mjög stórar og vaxið lengi án þess að komi til goss. Syllan þykknar smám saman og dreifir úr sér til hliðanna. Þessi nýja sylla er talin vera um metri á þykkt og sex milljón rúmmetrar að stærð.

Spurningin sem liggur í loftinu er auðvitað þessi; verður gos og þá hvar og hvenær? Það er ekki hægt að svara þessari spurningu afdráttarlaust í dag. Líkurnar aukast á því þegar dagarnir líða fram en þetta er þrettándi dagur í virkninni.“

Kristín reyndi að svara spurningunni um hvar væri líklegast að myndi gjósa. „Miðað við líkön Veðurstofunnar af staðsetningu syllunnar þá eru líklegustu gosstaðirnir, ef það kemur til goss, vestan og norðan við Þorbjörn og að Sýlingafelli. Það er hins vegar ekkert sem bendir til þess að kvika sé komin nálægt yfirborði miðað við stöðuna núna. Við þurfum hins vegar alltaf að minna okkur á að atburðarásin getur breyst hratt og því erum við að fylgjast með ákveðnum merkjum sem við myndum sjá og væru sterkar vísbendingar um að kvika sé að færast upp á yfirborðið. Sem dæmi um þessi merki þá myndum við búast við ákveðnu mynstri í aflögunargögnum og sjá aukningu í grunnri jarðskjálftavirkni í aðdraganda goss,“ sagði Kristín Jónsdóttir fagstjóri náttúruvöktunar hjá Veðurstofu Íslands.

Hún vildi einnig ítreka að á Veðurstofunni er sólarhrings vakt og fundað er reglulega með almannavörnum vegna þeirra atburða sem nú eru í gangi.