Kostnaðarsöm bið eftir atvinnutækifærum
- Ársreikningurinn veldur miklum vonbrigðum, segir Samfylkingin
„Öllum er ljóst að erfitt ár er að baki. Enn reyndist uppbygging Reykjaneshafnar í Helguvík tefjast, bæði vegna stirðleika í innleiðingu erlends fjármagns, lítillar framþróunar í orkusamningum og ríkisstjórnar sem ekki var sammála um stuðning við atvinnuverkefnin í Reykjanesbæ. Milljarða fjárfesting í atvinnutækifærum skilaði sér því afar takmarkað á árinu með tilheyrandi fjármagnskostnaði. Atvinnulausum fjölgaði, sem fallið höfðu út af atvinnuleysisskrá vegna tímatakmarkana, en atvinnuleysi þeirra var staðreynd engu að síður. Hluti þessa hóps á rétt á stuðningi bæjarsjóðs, lögum samkvæmt. Bið eftir atvinnutækifærum hefur því reynst atvinnulausum íbúum og bæjarsjóði kostnaðarsöm“. Þetta segir m.a. í bókun sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ við fyrri umræðu um ársreikning Reykjanesbæjar og stofnana hans árið 2013 fór fram í bæjarstjórn Reykjanesbæjar í síðsutu viku.
Jákvæðar vísbendingar um uppbyggingu í Helguvík
Þá segir jafnframt í bókun sjálfstæðismanna: „Jákvæðar vísbendingar hafa komið fram á þessu ári um að uppbygging Reykjaneshafnar í Helguvík sé að fara á fulla ferð og að raunverulegt atvinnuleysi sé að minnka.
Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs og samstæðu Reykjanesbæjar er jákvæð um 2,6 milljarða kr. fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Að teknu tilliti til afskrifta eigna og fármagnsliða er niðurstaðan neikvæð um 973 milljónir kr. Taprekstur af Reykjaneshöfn nemur 650 milljónum kr.
Þrátt fyrir þetta var hlutfall skulda Reykjanesbæjar á móti heildartekjum í árslok 2013 hið hagstæðasta frá 2002. Það mældist 271% árið 2002 en var um síðustu áramót komið niður í 248%.
Skuldaviðmið Reykjanesbæjar fór hæst í 445% þegar skuldir mögnuðust í gengishækkunum efnahagshrunsins, árið 2009 og hefur síðan farið niður í 248% á síðasta ári. Stefnt er að því að það nái undir 150% árið 2019.
Hreint veltufé frá rekstri jókst á milli ára um 54 m.kr í bæjarsjóði og um 628 m.kr í samstæðu.
Veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum hækkaði frá árinu 2012 úr 4,1% í 4,4% hjá bæjarsjóði og úr 10,3% í 13,9% hjá samstæðu.
Handbært fé til rekstrar jókst um 507 m.kr í bæjarsjóði og um 862 m.kr í samstæðu.
Eignir hækkuðu um tæpan 1,8 milljarð kr. í bæjarsjóði og 2,6 milljarða kr. í samstæðu.
Bráðlega muni drjúpa smjör af hverju strái og vín renna í stað vatns
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun: „Jákvæðar fréttir af „viljayfirlýsingum“ og „nýgerðum samningum“ við erlend og innlend fyrirtæki sem vilja hefja uppbyggingu og rekstur í Reykjanesbæ dynja nú á almenningi. Flestir fjölmiðlar landsins taka þátt í þessum leik og loforðalistinn lengist með hverjum deginum sem líður.
Í Reykjanesbæ virðist allt vera að gerast og bráðlega muni drjúpa smjör af hverju strái og vín renna í stað vatns.
Svona loforðaflaumur er engin nýlunda, það eru kosningar eftir nokkrar vikur og þá þarf að laga ímyndina.
En reyndin er önnur. Það sýna helstu niðurstöðu tölur ársreiknings Reykjanesbæjar 2013.
Rúmlega 500 milljóna króna tap er t.d. á bæjarsjóði þrátt fyrir auknar skatttekjur og nokkurra hundruð milljóna svigrúm sem nauðungarsamningar við EFF sköpuðu og tæplega milljarðstap er á samstæðureikningi bæjarsjóðs og fyrirtækja bæjarins.
Ársreikningurinn veldur miklum vonbrigðum, flestir spádómar og áætlanir brugðust og bærinn okkar er í miklum vanda. Þá setur niðurstaðan 10 ára skuldaaðlögunaráætlun Reykjanesbæjar sem nýlega var skilað til Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga í uppnám – aftur!
Við, íbúar Reykjanesbæjar, eigum mikið verk fyrir höndum að vinna okkur út úr þessum erfiðleikum,“ segir í bókuninni sem þeir Friðjón Einarsson, Eysteinn Eyjólfsson og Hjörtur M. Guðbjartsson skifuðu undir.
Hvað fór úrskeiðis í rekstri Reykjanesbæjar í desember?
Gunnar Þórarinsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og formaður bæjarráðs, lagði fram eftirfarandi bókun:
„Uppgjör janúar - nóvember 2013 og útkomuspá fyrir árið 2013, gerð 24. febrúar sl. gáfu til kynna að góður hagnaður yrði af rekstri bæjarsjóðs. Niðurstaða ársuppgjörs ársins 2013 kemur því verulega á óvart og það mikla tap sem ársreikningurinn sýnir og hversu niðurstaða bæjarsjóðs hefur versnað frá nóvemberuppgjöri.
Nauðsynlegt er að gera ítarlega grein fyrir hvað hefur farið úrskeiðis í rekstri bæjarsjóðs í desembermánuði sl. árs og því tapi sem myndast þá,“ segir í bókun Gunnars Þórarinssonar.