Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Kjöt­gálg­inn hans Krist­jáns: Vand­ræði ein­hents manns kveikti hug­mynd­ina
Sunnudagur 29. nóvember 2009 kl. 14:14

Kjöt­gálg­inn hans Krist­jáns: Vand­ræði ein­hents manns kveikti hug­mynd­ina


Njarð­vík­ing­ur­inn Krist­ján Sveins­son er smið­ur og um­sjón­ar­mað­ur fast­eigna hjá sam­tök­um líkn­ar­fé­laga í Reykja­vík. Fyr­ir þrem­ur árum var hann að dytta að íbúð skjól­stæð­ings og fékk þá bráð­snjalla hug­mynd að nýju eld­hús­-á­haldi, kjöt­gálg­an­um svo­kall­aða.


Kristján og eigandi íbúðarinnar voru að spjalla saman þegar tal þeirra barst að jólunum. Kistján spurði manninn, sem misst hafði hægri höndina í umferðarslysi, hvað honum þætti best að borða á aðfangadagskvöldi. Viðmælandinn kvað lambalærið ávallt hafa verið hátíðarmálsverð á jólunum, svo ómótstæðilegt og gómsætt sem það nú væri. Hins vegar ætti hann ekki gott með að bjóða upp á ofnbakað lambalæri að hætti mömmu um jólin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Kristján spurði undrandi hverju það sætti.
„Reyndu sjálfur að skera niður lambalæri á sleipu fati með annarri hendinni. Það er hreint út sagt ekkert hátíðlegt við þær aðfarir og fremur neyðarlegt,“ svaraði maðurinn.


Þetta svar mannsins sótti á huga Kristjáns næstu daga og í brjósti hans bærðist löngun til að létta líf þessa ólánsama manns. Það er auðvitað erfitt að ímynda sér hversu mikið veruleikinn breytist við það að missa hönd. Ýmsar daglegar athafnir sem áður voru sjálfsagðar verða allt í einu flóknar og erfiðar.


Þá brá fyrir hugskotssjónir Kristjáns mynd sem kunningi hans hafði einhverju sinni sýnt honum. Sá er mikill sportveiðimaður og matmaður, reyndar sérlegur aðdáandi íslenska fjallalambsins. Hann hafði boðið Kristjáni heim upp á háaloft til að smakka tvíreykt, hrátt hangikjöt. Hann skar fimlega þunnar flísar og rétti Kristjáni hnossgætið um leið og þeir dásömuðu afurðir íslensks landbúnaðar. Í framhaldinu dró kunninginn fram mynd af kjötlæri sem skorðað var upp við einhvers konar statíf. Fannst honum matarmenning Íslendinga sumvart lítt þróuð og sagði hann Kristjáni frá þessum „kjötgálga“ sem hann hafði séð á ferðalagi um Evrópu. Áhald þetta væri hið mesta þarfaþing og til mikilla hægðarauka við niðurskurð á kjöti.


Þessi upprifjun kveikti hugmyndina hjá Kristjáni. Þetta var einmitt það sem einhenti vinur hans þurfti. Hann ákvað að koma honum á óvart og tók til við smíðina inni í skúr heima hjá sér í Njarðvík, þar sem hann hefur komið upp vel útbúinni smíðaaðstöðu.


Eftir nokkrar pælingar um hönnun og útfærslu stóð hann aðeins tveimur dögum seinna með fullbúinn kjötgálga í höndunum. Þetta var þó eingöngu frumgerðin en hann smíðaði nokkra í viðbót um leið og hann fann betri lausnir á smíðinni og fullkomnari útfærslur. Fékk hann Hilmar Guðsteinsson, kunningja sinn, til að brenna letur í bretti gálgans og Jens Tómasson, rennismið, til að gera stálbroddinn sem heldur kjötinu föstu á brettinu.


Það hlýjaði Kristjáni um hjartaræturnar, innilega þakkarbréfið sem hann fékk sent í pósti milli jóla og nýárs. Bréfinu fylgdi ljósmynd af jólaborði mannsins, gálginn góði á miðju borði með fallega steiktu lambalæri og sneiðar á diski við hliðina. Neðst í hægra horni ljósmyndarinnar var brennd í myndina dagsetningin 18:10 / 24. 12. 2006.

Mynd: Krisján á smíðaverkstæði sínu.

Mynd: Þetta er kjötgálginn hans Kristjáns.