Hjólaði hálfan bæinn í hjartakasti - komst til læknis og dó
Árni Einarsson dó á bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja um þarsíðustu helgi. Fékk hjartastopp og kvaddi þennan heim. Skömmu síðar kom hann til baka eftir að aflraunamaðurinn Sturla Ólafsson, sem einnig starfar sem sjúkraflutningamaður, hafði hreinlega lamið hann í gang að nýju. Það þurfti þó að beita hjartastuðtæki úr sjúkrabílnum á Árna til að fá hjarta hans til að slá að nýju. Áður en þessi ósköp dundu yfir hafði Árni hjólað með þungan verk fyrir hjartanu utan úr Helguvík og lengstu leið heim til sín. Þar tók hann heimilisbílinn og ók sjálfur að sjúkrahúsinu og þurfti að standa skil á komugjaldi upp á 4900 krónur áður en hann náði til læknis og dó. Hilmar Bragi Bárðarson, blaðamaður, heimsótti Árna réttri viku eftir að hann hafði dáið. Hann var þá nokkuð sprækur á heimili sínu og nýlega kominn heim af hjartadeildinni þar sem fannst blóðtappi nærri hjartanu.
Hjólar stóran hring til heilsubótar
Árni Einarsson hefur mikla unun af hjólreiðum og hefur tileinkað sér að hjóla stóran hring um Reykjanesbæ sér til heilsubótar. Hjólreiðarnar og hreyfingin sem hann fær með þeim hafa verið Árna nauðsynlegar eftir að honum var sýnt gula spjaldið fyrir réttum 18 mánuðum síðan. Þá fékk hann fyrir hjartað í vinnunni. Eftir heimsókn á Heilbrigiðisstofnun Suðurnesja var hann að eigin sögn greindur með bakflæði og magabólgur. Hið meinta bakflæði og magabólgur voru hins vegar svo sárar að hann ók sjálfur með sáran brjóstverk á bráðamóttöku í Reykjavík sólarhring síðar til að fá verkjatöflur. Þar sýndu blóðprufur og línurit að ekki var allt með felldu, sjúkrabíll var kallaður til sem flutti Árna þegar í hjartaþræðingu með tvær stíflaðar æðar. Eftir þessa lífsreynslu hefur Árni ávallt verið með sprengitöflur í vasanum og farsíma. Það brást hins vegar á sunnudaginn í þarsíðustu viku þegar Árni fór í einn af sínum hjólreiðatúrum sem átti eftir að draga dilk á eftir sér. Árni dó en var laminn í gang að nýju af Sturlu Ólafssyni sjúkraflutningamanni og kraftajötni, eins og áður sagði.
Í samtali við Víkurfréttir segir Árni að hann hafi verið staddur við smábátahöfnina í Gróf þegar hann hafi farið að finna fyrir brjóstverk. Í einhverri þrjósku ákveður hann að hjóla áfram og er kominn að fyrirtækinu Allt hreint á Helguvíkursvæðinu þegar honum er orðið mjög þungt fyrir brjósti. Þar hugsar hann sig um og íhugar að fara aftur í Grófina eftir hjálp, þar sem hann var ekki með síma né sprengitöflur. Hann ákveður hins vegar að halda för sinni áfram upp á Hringbrautina fyrir neðan Heiðarbyggðina. Þegar þangað er komið ákveður Árni hins vegar að halda áfram upp á göngustíginn sem liggur ofan við Heiðarbyggðina, því hann þóttist vita um bekk þar sem hann gæti hvílt sig á. Þetta er leið sem Árni er vanur að hjóla. Hann sagði brekkuna uppeftir hafa verið erfiða. Bekkurinn var hins vegar hvergi og því hjólaði hann áfram með sáran brjóstverkinn áleiðis að Vesturgötu, því þar var bekkur til að hvíla sig á.
(Framhald fyrir neðan myndina...)
Vildi ekki láta sjást að hann þjáðist
Á leiðinni hjólaði Árni framhjá fólki sem hann þekkti en sagðist hafa passað sig á að horfa ekki í augun á neinum.
„Ég vildi ekki láta nokkurn mann sjá hversu kvalinn ég var. Þegar ég kom að bekknum við Vesturgötuna var ég alveg að drepast og held um brjóstið. Ég sé að það er fólk sem horfir á mig og er farið að gefa mér auga,“ segir Árni og lýsir því þegar fólk hafi gengið framhjá bekknum hafi hann snúið sér undan og farið í felur með ástand sitt. „Það var svo mikil skömm að þurfa að fá aðstoð“.
Árni ákveður að koma sér aftur af stað og sest á hjólið. Hann hjólaði frá Vesturgötunni eftir göngustígnum neðan við Eyjabyggðina þar til hann komst í hvarf.
„Þá fór ég af hjólinu og leiddi það við hlið mér alla leið út að Aðalgötu. Þá fór ég að hugsa um að nú þyrfti ég að setjast á hjólið til að komast sem fyrst heim“.
Árni hjólaði eftir Vatnsholtinu og Efstaleitinu þar sem hann ætlaði að koma við hjá Þorgrími Árnasyni sem hann þekkti vel til, til að fá hjálp. Án þess að kanna það eitthvað nánar ákvað Árni að Þorgrímur væri út úr bænum og því ætlaði hann bara að fá fyrstu hjálp hjá þeim næsta sem hann myndi hitta. Hann heyrði í fólki og ætlaði að stoppa hjá því. Einhverra hluta vegna hélt hann áfram för og fór framhjá fólkinu án þess að ræða nokkuð við það. „Fyrst ég var kominn á svona góða ferð ákvað ég að vera ekkert að snúa við,“ sagist Árni hafa hugsað með sér. Hann tók þá ákvörðun að hjóla niður Faxabrautina í stað þess að fara göngustíginn við gamla Flugvallarveginn. Þetta sagðist hann hafa gert til að fá ekki goluna í fangið. Ofan við Fjölbraut mætti hann Óla bróður sínum. Hann sagðist hafa farið hratt framhjá honum, ekki sagt orð en gefið honum merki um að koma. Bróðir hans ályktaði að bremsurnar á hjólinu væru bilaðar.
Sagði konunni að ég væri að drepast
„Hugsunin hjá mér var bara að komast heim. Ég átti töflur heima. Ég kemst alla leið heim og legg hjólinu fyrir utan húsið og segi bróður mínum að koma. Ég harka mér inn og finn töflurnar mínar og tek inn eina.
Konan mín [Júlíana G. Júlíusdóttir] spyr mig hvort það sé eitthvað að og ég svara því bara til að ég sé að drepast,“ segir Árni. Hann sagði að hvorki Júlíana né aðrir hafi kveikt á perunni með hvað væri að gerast. Hann hafi farið fram í eldhús og verið í svitabaði, sem var þó ekkert óeðlilegt, þar sem hann hafi oft komið kófsveittur úr erfiðum hjólatúrum.
Hann segist hafa sest niður og fundið að taflan var ekkert að slá á hjartaverkinn. Hann hafi því hlaupið upp á aðra hæð og haft fataskipti, komið aftur niður og beðið son sinn að koma með sér niður á sjúkrahús.
„Júlla, gefðu Óla bróður kaffi“
„Komdu aðeins með mér niður á sjúkrahús,“ sagði hann við Guðmund son sinn og bætti við: „Júlla, gefðu Óla bróður kaffi“. Hann segir þau ekki hafa kveikt á ástandinu en á þessari stundu hafi hann verið á síðustu metrunum að eigin sögn.
Hann settist þó sjálfur undir stýri og var byrjaður að bakka út úr innkeyrslunni við heimili sitt á Sunnubrautinni þegar sonur hans kom út og spurði hvort hann ætti ekki að keyra föður sinn á sjúkrahúsið. Árni þvertók fyrir það og ók sjálfur viðþolslaus af brjóstverk eftir Sunnubrautinni og út að Skólavegi. Hann segir að undirmeðvitundin hafi sagt honum að halda sig á 30 km. hraða eins og kveðið er á um í hverfinu. Á ljósunum við Hringbrautina hafi hann lent á rauðu ljósi og blótað því mikið. „Vertu rólegur pabbi, vertu rólegur. Það fer illa með hjartað að æsa sig,“ sagði sonur hans sem þó hafi hvatt föður sinn til að halda áfram yfir á rauðu ljósi en það hafi Árni ekki viljað og sagt að hann vildi ekki láta lögregluna stöðva sig fyrir slíkt brot. Við sjúkrahúsið hafi hann svo lagt bílnum við Sólvallagötuna því ekki vildi hann leggja í stæði fyrir fatlaða eða fólk með ungabörn. „Ég var ekkert veikur og gat því bara lagt langt frá inngangnum,“ segir Árni. Hann segir að eftir á að hyggja hafi það verið glapræði að keyra sjálfur heiman frá sér og að sjúkrahúsinu. Hann hafi þess vegna getað farið í hjartastopp á leiðinni og valdið ómældu tjóni með árekstri eða öðru.
Í hjartakasti og rukkaður um 4900 krónur
Þegar Árni og sonur hans komu að innganginum í móttöku HSS hafi maður gengið inn á undan þeim og fengið að hringja hjá móttökuritaranum. Árna fannst hann eitthvað lengi í símanum og hafi verið farinn að íhuga að ýta honum frá eða fara inn um dyr til ritarans til að óska eftir lækni.
„Loksins þegar maðurinn fer úr símanum segi ég við konuna í afgreiðslunni að ég sé hjartasjúklingur, ég sé í kasti og þurfi að fá lækni núna. Hún biður mig um kennitölu og segir svo að ég þurfi að borga 4900 krónur. Ég segi henni að strákurinn borgi þetta. Hann tekur upp pening en segist bara vera með 3000 krónur. Konan í afgreiðslunni endurtekur upphæðina, að þetta kosti 4900 krónur. Ég tek þá upp debetkortið mitt og kasta því á borðið og bið hana um að vera fljóta og ítreka að hún eigi að vera búin að kalla á lækni,“ segir Árni.
Árni var síður er svo ánægður með þá móttöku sem hann fékk þegar hann kom inn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og fannst mikill tími fara í það að greiða komugjald og síðan hafi honum verið sagt að elta línu á gólfinu sem hefði leitt hann upp á aðra hæð sjúkrahússins í stað þess að fara inn á bráðamóttöku. Til allrar hamingju hafi hann mætt lækninum á ganginum og á þeirri stundu hafi sonur hans komið á eftir honum með hjólastól. „Ég var alvarlega að hugsa um að taka þennan hjólastól og kasta honum frá mér í átt að afgreiðslunni til að lýsa vanþóknun minni. Ástand mitt var þannig að ég var reiður yfir því að þurfa að borga þessar 4900 krónur áður en ég fékk að tala við lækninn“. Árni áréttar að hann sé ekkert ósáttur við gjaldtökuna, en finnst að það ætti að rukka sjúklinga á leiðinni út. Ástand hans hafi verið þannig að það væri öllum ljóst.
(Framhald fyrir neðan myndina...)
Líkamsstarfsemin var komin á yfirsnúning
Árni segist hafa farið með lækninum inn á bráðamóttökuna þar sem hann hafi verið beðinn um að leggjast á bekk. Hann sagðist hins vegar ekki getað lagst niður þar sem líkamsstarfsemin var komin á yfirsnúning. „Ég var algerlega að fara yfirum á þessari stundu,“ segir Árni og kreppir hnefa og lyftir höndum til að sýna blaðamanni þau átök sem voru að brjótast um innra með honum. Árni lýsir því þegar læknirinn er að reyna að líma á hann skautin fyrir hjartalínuritið. Illa hafi gengið að líma á hann þar sem hann svitnaði stanslaust. „Ég ríf mig úr bolnum og sokkunum þar sem allt er komið yfir suðumark hjá mér og ég er eins og garðúðari því ég svitna svo mikið. Á meðan læknirinn hringir fram í afgreiðslu til að biðja um að kallað sé eftir hjúkrunarkonu til aðstoðar af því að hún [læknirinn, innskot blm.] var bara ein“.
Árni segir að nokkur tími hafi liðið þar til læknirinn hafi hringt aftur en þá fengið þau svör að enginn hafi svarað á efri hæðinni.
„Af hverju stóð ekki manneskjan í afgreiðslunni upp og hljóp upp eftir aðstoð, því hún vissi að það var hjartavesen í gangi,“ spyr Árni og er undrandi á vinnubrögðum hjá HSS.
Þar sem hann liggur á bekknum á bráðamóttökunni segir hann við son sinn: „Mummi, hlauptu bara upp“. Læknirinn spyr hann einnig hvort hann sé ekki til í að gera það og þar með er drengurinn hlaupinn upp á aðra hæð að ná í hjúkrunarkonu til aðstoðar þar sem það sé hjartveikur maður niðri.
Ekki með lykil af morfínskápnum
Hjúkrunarkonan kemur niður og læknirinn segir að að hún þurfi lykilinn af morfínskápnum þar sem hún þurfi að sprauta sjúklinginn niður. Þá tilkynnir hjúkrunarkonan að hún sé ekki með lykilinn og þurfi aftur upp á næstu hæð til að sækja lykilinn. Á meðan hjúkrunarkonan fer upp að sækja lykilinn hafi læknirinn tekið upp símann og hringt eftir sjúkrabíl og beðið um sjúkrabíl á F3.
Dó á sömu stundu og sjúkrabíllinn kom
Sturla Ólafsson sjúkraflutningamaður var bílstjóri á sjúkrabílnum. Hann tjáði Árna það nokkrum dögum síðar, í móttöku á slökkvistöðinni, að hann hafi undrast það að útkallið hafi verið F3, sem hljóðar eingöngu upp á flutning, vitandi að það var hjartavandamál á sjúkrahúsinu og ungur maður sem ætti í hlut. Sturla hafi því sagt við Ingva félaga sinn á sjúkrabílnum að þeir ættu að fara aðeins hraðar yfir. „Á meðan er ég farinn að róast á sjúkrahúsinu. Það er búið að gefa mér morfín og einhverja töflu, þannig að það er hægt að fara taka línuritið. Síðasta sem ég man var að læknirinn sagði að það þyrfti að taka annað línurit, því hún hafi rifið það fyrra. Á sömu stundu koma strákarnir á sjúkrabílnum og ég er dottinn út og kominn í hjartastopp“.
Hnoðið bar ekki árangur
Sturla er á undan Ingva inn og um leið og hann sá Árna liggjandi á bekknum sagði hann: „Það gat verið“ og sagði lækninum að fyrst þessi maður væri kominn til læknis væri eitthvað mikið að. „Þessi maður fer ekki til læknis,“ á Sturla að hafa sagt. Sturla hafði varla sleppt orðinu þegar Árni fer í hjartastoppið.
„Sturla stekkur strax til og lemur mig í bringuna og byrjar að hnoða mig og Ingvi hleypur út í bíl til að sækja stuðtækið. Þeir ná mér síðan í gang með stuðtækinu en hnoðið hafði ekki borið neinn árangur“.
Árni segist vera helaumur í bringunni eftir aðfarir Sturlu sem ætlaði að tryggja að gamall samstarfsfélagi færi ekki yfir móðuna miklu. Árni og Sturla hafa þekkst frá gamalli tíð og m.a. unnið saman í flutningaþjónustu og haft sömu áhugamál þegar kemur að mótorhjólum og fleiru.
Þegar Ingvi sjúkraflutningamaður hafði farið út í sjúkrabíl að sækja hjartatækið hafi hann kallað upp á slökkvistöð eftir frekari aðstoð þar sem hjartastopp væri í gangi á sjúkrahúsinu. Annar bíll með tveimur mönnum var því sendur að HSS til aðstoðar. Þegar sú aðstoð barst hafi Ingvi þegar farið í að sinna syni Árna sem hafði orðið vitni að öllum þeim aðförum sem áttu sér stað mínúturnar á undan.
„Ég sá ljósið“
Mikið hefur verið rætt og ritað um augnablikið þegar maðurinn skilur við. Hver var upplifun Árna?
„Ég sá ljósið. Ég sá allt hvítt. Ljósið var hvítara en allt hvítt. Þegar ég er að koma til baka þá sé ég fólkið koma inn sem dökka skugga í þessu hvíta sem ég sá. Þegar ég er að ná áttum sé ég Stulla og missi út úr mér: „Ohhh... Ég vildi að þetta væri draumur“. Þá sagði Stulli við mig: „Ég vildi það líka. Ég hefði ekki viljað standa hérna yfir þér“. Svo þegar mér er litið til hliðar sé ég fullt af fólki sem var ekki þarna áður en ég hafði dottið út þannig að mér fannst eins og ég hefði verið að upplifa einhvern draum. Þarna voru fleiri læknar, hjúkrunarkona og fullt af sjúkrabílstjórum“.
HSS ekki búin undir hjartastopp
Árni segist hafa hugsað mikið um þessar mínútur frá því hann kom inn á sjúkrahúsið og þar til hann fékk hjartastoppið. Hann segir stofnunina alls ekki búna undir það að takast á við svona atvik, að starfsfólkið höndli ekki álagið sem þessu fylgir. Árni heldur því fram að starfsfólk sjúkrahússins hefði ekki náð að starta sér til lífs að nýju án aðstoðar sjúkraflutningamanna.
Sturla var bílstjóri á sjúkrabílnum sem flutti Árna frá Keflavík á bráðamóttökuna í Fossvogi í Reykjavík. Hann hafi fengið heimild til að aka á F1, sem er algjör forganur. Um leið og þeir komu til Reykjavíkur var Árni greindur og annar sjúkrabíll var klár til að flytja hann á hjartadeild Landsspítalans við Hringbraut. Hann hafi verið greindur með 100% stíflu í æð og var þegar sendur í þræðingu. Í ljós kom tappi við nokkurs konar síu sem sett hafði verið í æð í þræðingunni fyrir 18 mánuðum. Menn kunna ekki skýringu á því hvers vegna tappinn varð til og fór af stað og festist á þessum stað. Það sé eitthvað sem eigi eftir að rannsaka frekar.
Mikið í reynslubankann
Árni segist vera kominn heim með mikla reynslu í reynslubankanum. Hann hafi tekið á móti miklum skömmum og fengið leiðsögn sem eigi eftir að nýtast sér. Framundan sé endurhæfing á Reykjalundi síðar í sumar. Hann verði að leggja reiðhjólinu um einhvern tíma. Hann ætli að taka lífinu með ró næstu daga, en hann segir keppnisskapið vera mikið. Hann hafi oft lagt hart að sér. Hann þakkar fyrir að allt hafi farið vel sunnudaginn í síðustu viku og finnst eftirá skrýtið að hann hafi komist alla þá leið sem hann fór með brjóstverkinn og kvalirnar. Hann sé þakklátur fyrir að sjúkraflutningamaðurinn hafi farið og aðstoðað son hans á sama tíma hann hafi farið í hjartastopp og boðist til að fara með honum heim til að upplýsa fjölskylduna um hvað hafi gerst.
Fjölmörg viðvörunarmerki
Þegar Árni horfir til baka segir hann að hann hafi fengið fjölmörg viðvörunarmerki sem hann hafi ekki sinnt. Hann var kominn nokkra tugi metra að heiman þegar hann verður var við sjúkrabíl fara á forgangi frá slökkvistöðinni sem er ekki langt frá heimili hans. Þá hafi hann hugsað. „Ég gleymdi að taka með mér símann og hjartatöflurnar“. Þrátt fyrir þetta hafi hann haldið áfram að hjóla. Fljótlega hafi einnig farið að heyrast óeðlileg hljóð úr hjólinu sem gáfu til kynna að ekki væri allt með felldu. Árni hugsaði með sér að stytta ferðina en sleppti því alltaf að beygja af leið og halda heim.
Nokkrum dögum áður hafi hann hins vegar ætlað að fara vestur á land í sumarhús fjölskyldunnar á jeppabifreið sem faðir hans heitinn hafði átt. Af óskýrðum ástæðum bilaði drifið í þeirri bifreið upp úr þurru þannig að Árni komst ekki vestur. Hefði hann verið í sumarhúsinu þegar áfallið reið yfir hefði hann verið víðsfjarri allri hjálp og ekki víst að hann væri hér í dag.
Áður en Árni kom heim til sín sl. föstudag, kom hann við á slökkvistöðinni í Keflavík og færði strákunum þar þakklætisvott fyrir lífbjörgina um þarsíðustu helgi. Strákarnir á sjúkrabílunum voru þá að ljúka verkfalli í kjarabaráttu sinni. Verkfallsaðgerðir hefðu þó aldrei komið í veg fyrir að Árni hefði verið fluttur á hjartadeildina ef hann hefði fengið hjartastoppið á þeim tíma sem verkfallið var.
Viðtal og myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Í Víkurfréttum í dag féllu síðustu línurnar niður í viðtalinu, þ.e. „hann hefði fengið hjartastoppið á þeim tíma sem verkfallið var.“ Beðist er velvirðingar á mistökunum sem urðu þegar unnið var við umbrot á blaðinu.