Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 6. nóvember 2001 kl. 09:36

Getur verið gott að fá ráð hjá hlutlausum aðilum

Þann 29. október sl. opnaði Unglingamóttaka í Reykjanesbæ. Heilsugæslusvið Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er frumkvöðull að stofnun hennar, en Reykjanesbær tekur þátt í rekstri móttökunnar og leggur henni til húsnæði. Móttakan er staðsett á Hafnargötu 15, 2. hæð, á milli verslunarinnar Kóda og veitingastaðarins Olsen, Olsen.
Opnunartími móttökunnar er alla mánudaga frá kl. 16:30-17:30 og er hún ætluð ungu fólki á aldrinum 14-20 ára. Í unglingamóttökunni er hægt að leita ráða hjá hjúkrunarfræðingi og/eða lækni um allt sem snertir málefni og þroska ungs fólks t.d. fræðsla og ráðgjöf um getnaðarvarnir, kynsjúkdóma, samskipti, félagsleg vandamál af ýmsu tagi, almennt heilsufar, húðvandamál, líðan og fleira án endurgjalds. Starfslið móttökunnar samanstendur af Sif Gunnarsdóttur, skólahjúkrunarfræðingi og læknum heilsugæslusviðs HSS.

Loksins orðið að veruleika
„Hugmyndin að sérstakri unglingamóttöku varð formlega til á starfsmannafundi heilsugæslusviðs H.S.S, í Munaðarnesi í apríl 2000. Sigrún Ólafsdóttir, hjúkrunarframkvæmdastjóri, lagði fram þessa hugmynd og síðan þá hefur upplýsingum og gögnum verið safnað. Við höfum verið í tengslum við heilsugæsluna á Akureyri og heilsugæsluna í Hafnarfirði og skoðað unglingamóttökurnar þar, ásamt því að vinna jafnt og þétt að því að gera hugmyndina að veruleika hér í Reykjanesbæ“, segir Sif Gunnarsdóttir deildarstjóri skólaheilsugæslu og verkefnisstjóri unglingamóttökunnar. Hún vann að þessari framkvæmd ásamt Sigrúnu Ólafsdóttur, hjúkrunarframkvæmdastjóra, Konráði Lúðvíkssyni, yfirlækni og kvensjúkdómalækni og Maríu Ólafsdóttur, heilsugæslulækni.

Móttaka sem nær til allra
Að sögn Sifjar er ástæðan fyrir því að farið var út í það að opna hér unglingamóttöku sú að kannanir meðal framhaldsskólanema hafa sýnt að þörf er á hjúkrunarfræðingum í framhaldsskóla. Hins vegar er erfitt að setja hjúkrunarfræðing í framhaldsskóla þar sem ekki allir unglingar fara í framhaldsskóla. „Því er besta lausnin sú að hafa móttöku fyrir alla unglinga bæjarfélagsins, hvort sem þeir stunda vinnu eða skóla. Þar með er tryggt að allir hafi jafnan aðgang að þjónustunni.
Hugmyndir voru uppi um það að opna unglingamóttökuna á öðrum stað en á heilsugæslunni þar sem unglingar voru ekki móttækilegir fyrir því að nýta heilsugæsluna á starfstíma hennar. Í framhaldi var ákveðið, í samráði við Jóhann Einvarðsson, framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja að fá bæinn inn í þetta verkefni. Farið var í það að ræða við bæjarmálayfirvöld og þau beðin um að taka þátt í þessu með okkur. Það var auðsótt mál og buðu þeir fram húsnæði að Hafnargötu 15, 2. hæð, fyrir þessa starfssemi.“

Erum bundin þagnarskyldu
Kannanir hafa verið gerðar á því hvað unglingar vilja helst hafa í boði á slíkri móttöku. Þá kom í ljós að meðal þess var:
1. Kynfræðsla, þ.e. ráðgjöf um kynlíf, kynsjúkdóma, getnaðarvarnir, fóstureyðingar o.fl.
2. Samskipti af ýmsu tagi s.s. sambönd við hitt kynið, samskipti við hitt kynið, ást og ástarsorg, einnig samskipti við foreldra.
3. Félagsleg vandamál, einelti, vinir, einangrun, heimilisaðstæður.
4. Ofbeldi af ýmsum toga t.d. nauðgun eða önnur kynferðisleg misnotkun, andlegt ofbeldi eða líkamlegt.
5. Heilsufar almennt, húðvandamál, offita, átraskanir.
6. Geðheilsa, þunglyndi, kvíði, áhyggjur almennt o.fl.
En Sif bætir við að þessi upptalning hafi aðeins verið brot af því sem unglingarnir bentu á.
„Móttakan mun þjóna krökkum á aldrinum 14 – 20 ára en það er sá aldurshópur sem við teljum að þurfi mest á slíkri móttöku að halda. Þetta eru mótunarár og oft vakna spurningar sem ungt fólk á erfitt með að spyrja foreldra sína og gott að geta leitað til hlutlauss fagaðila. Hjúkrunarfræðingur og læknir starfa á unglingamóttökunni en þeir vinna í nánu sambandi við félagsráðgjafa, sálfræðing, presta og þá aðila sem hæfastir eru til að sinna máli ungmennisins. Starfsmenn unglingamóttökunnar eru bundnir þagnarskyldu, en ber skylda samkvæmt barnaverndarlögumum að tilkynna mál til barnaverndarnefndar ef líf og velferð ungmennisins er í hættu.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024