Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gæðagras og upphituð trjárækt
Mánudagur 16. maí 2011 kl. 09:30

Gæðagras og upphituð trjárækt

Fjölbreytt flóra fyrirtækja hefur hreiðrað um sig í fyrirtækjahótelinu Eldvörpum við Flugvallarbraut á Ásbrú. Eitt þessara fyrirtækja er Lauftækni, sem starfar á sviði landmótunar og gróðurs. Eigandi fyrirtækisins er Einar Friðrik Brynjarsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Einar hefur menntað sig í skrúðgarðyrkju og fór einnig í nám til Danmerkur þar sem hann fór í framhaldsnám í tæknifræði. Að loknu námi kom hann heim til Reykjanesbæjar. Eitt af fyrstu verkefnum hans eftir heimkomuna var að hanna nýjan knattspyrnuvöll í Keflavík.


Sérhæfður í grasfræðum

„Þetta er aðeins öðruvísi hjá mér en flestum öðrum sem fóru til Danmerkur í nám í tæknifræði. Ég er ekki í byggingum, heldur í umhverfinu utandyra og öllu sem tengist því, hvort sem það er landmótun eða gróður. Þá hef ég sérhæft mig nokkuð í grasfræðum en gróðurpælingar voru auðvitað nokkuð djúpar í náminu,“ sagði Einar.

- Er gras ekki bara gras?

„Nei, gras er ekki bara gras en venjulegu fólki finnst það. Ég ákvað að fara aðeins dýpra í grasafræðin og ég held að við séum ekki nema tveir hér á landi í þessum pælingum tengdum knattspyrnuvöllunum og þetta er eitthvað nýtt hér á landi. Þessi fræði sýna sig m.a. í tveimur nýjustu knattspyrnuvöllunum á Íslandi sem eru í Keflavík og á Selfossi,“ segir Einar, sem kom einnig að ráðgjöf við gerð Selfossvallarins. Hann segir að á ráðstefnum og samkomum sem haldnar eru í þessum geira hefur komið fram hjá fagfólki og þeim sem eru að snúast í þessum málum að það sé verið að taka skref uppávið í grasvallarfræðum á Íslandi.

Í lokaritgerð Einars við danska skólann „Jordbrugets UddannelsesCenter Århus“ er gerður samanburður á byggingu á nýjum knattspyrnuvöllum erlendis og hér á Íslandi. Hann segist hafa séð það að erlendis séu menn aðeins framar en við hér heima.

„Það er mín skoðun að við getum nýtt ýmislegt af því sem gert er úti hér heima, þó svo sumt þurfi að aðlaga að aðstæðum hér heima. Byggingarefnið í vellina hér á landi er öðruvísi og eins veðurfarið.


Mótar 6 holu golfvöll á Ásbrú

Á Ásbrú er mikið um stór opin svæði og grassvæði. Á einu þeirra, þar sem svokallað Kínahverfi stóð áður á tímum Varnarliðsins, hefur Einar fengið það verkefni að móta 6 holu golfvöll á svæðinu og sett hefur verið upp viðhaldsáætlun fyrir sumarið sem farið verður eftir.

„Það verður svolítið spennandi að sjá hvernig tekst til því það verður ekki varið miklum peningum í þetta verkefni og við erum bara að vinna með þann efnivið sem er á staðnum,“ segir Einar.

Svæðið þar sem golfvöllurinn er var í raun bara mói og mosi. Þarna var á sínum tíma tyrft yfir hverfið sem stóð þarna, sem Einar segir að gefi hverfinu vissulega möguleika ef farið verður lengra með hugmyndina. Það væri vissulega hægt að byggja upp flatir á gömlu grunnunum undir húsunum sem þarna voru. Í þessum áfanga voru flatirnar hins vegar settar niður eftir landslaginu og farið verður í hefðbundnar viðhaldsaðgerðir á grasinu á staðnum með slætti, áburðargjöf, götun, söndun og öðru því sem þarf til að rækta upp gott gras.

„Svo þegar við höfum náð þessu á gott strik getum við tekið næsta skref og farið að yfirsá, sem er ekki tímabært núna. Við erum hins vegar metnaðarfullir þessa dagana að ná þessu svæði á gott strik,“ segir Einar.

Hann segir að ef verið væri að búa til nýjan golfvöll þyrfti að fara eftir þeim stöðlum sem gefnir hafa verið út fyrir flatir og þess háttar og þar séu mjög djúpar pælingar hvernig eigi að gera flatir svo þær verði sem bestar. Á golfvellinum á Ásbrú sé kostnaðinum haldið í algjöru lágmarki og pælingarnar ekki eins djúpar og á alvöru golfvelli. Aðeins sé notaður efniviður sem er fyrir á staðnum og þ.a.l. geti golfvallargerðin tekið lengri tíma, enda völlurinn hugsaður sem leiksvæði en ekki völlur fyrir mót.

„Við höfum líka nógan tíma og gerum þetta bara í rólegheitum, skref fyrir skref. Það er trú mín að þetta eigi eftir að verða bara ágætt“.


Rækta upp knattspyrnuvöll úr mikilli órækt

Íþróttasvæðin á Ásbrú eru annað verkefni sem Einar í Lauftækni hefur á sinni könnu. Á Ásbrú er knattspyrnuvöllur sem kominn var í algjöra órækt og hefur lítið verið haldið við frá því Varnarliðið fór.

„Við byrjuðum síðasta sumar að reyna að ná tökum á knattspyrnuvellinum og settum upp viðhaldsáætlun fyrir hann. Það er trú mín að við eigum eftir að ná góðum árangri með fótboltavöllinn. Það er völlur sem Kaninn vandaði vel til á sínum tíma. Það er ekki mikið mál að gera hann að mjög góðum velli og það er stefnan að fá mjög flott íþróttasvæði þar sem knattspyrnuvöllurinn er“.


Gróður í skjólbelti

Einar hefur tekið þátt í umræðum á Ásbrú sem miðar að því að búa til skjólbelti og kljúfa vind með gróðurbeltum. Hann segir svæðið bjóða upp á gríðarlega möguleika og með gróðri sé auðvelt að gera svæðið hlýlegt og meira aðlaðandi. Mikið af stórum byggingum myndi skjól fyrir gróður en einnig geti byggingar skapað vindstrengi sem gróður geti svo brotið niður. Kaninn notaði mikið Alaskavíði til að setja í skjólbelti. Einar segir það alls ekki vera skemmtilegustu plöntuna sem yndisgróður, en hún veiti skjól. Hann vilji einnig sjá aðrar tegundir og kann t.d. vel að meta grenireiti sem víða má finna á svæðinu.


Með aðsetur á fyrirtækjahóteli

Einar hefur aðsetur fyrir Lauftækni í fyrirtækjahótelinu Eldvörpum á Ásbrú. Þó svo hann hafi aðsetur fyrir starfsemina á Ásbrú þá nær starfssvæði hans út fyrir Suðurnes. Þannig hefur Einar starfað í vetur sem brautarstjóri skrúðgarðyrkjubrautar í Garðyrkjuskólanum (LBHI) sem staðsettur er í Hveragerði. Þar kennir hann m.a. trjáklippingar, hellulagnir og uppbyggingu grænna svæða ásamt að starfa við endurmenntunardeild skólans við námskeiðahald. Lauftækni kemur einnig að rannsókn á Korpúlfsstöðum þar sem unnið er með upphitun á íþróttasvæðum. Þá kemur Lauftækni að spennandi rannsóknarverkefni með Keili. „Við erum að búa til gróðurreit með hitalögnum þar sem jarðvegur verður hitaður upp og síðan gróðursettur í honum tré og ætlunin er að sjá hvaða áhrif það hefur. Þetta er skemmtilegt verkefni að taka þátt í að sjá hvort það gefist vel að vera með upphitaðan trjágróður. Moldinni verður komið í gróðurreitinn á næstu dögum og í framhaldinu verður hann hitaður upp og síðan plantað,“ segir Einar.

Þeir sem vilja setja sig í samband við Lauftækni geta sent póst á [email protected] eða hringt í Einar í síma 899 7505.