Fyrsta ökugerðið á landinu byggt upp við Reykjanesbraut
Vegfarendur um Reykjanesbraut hafa eflaust veitt athygli umtalsverðum framkvæmdum rétt innan við Grindavíkurgatnamótin en þar hafa vinnutæki verið að störfum undanfarið. Umrætt svæði er gjarnan kennt við MotoPark-ævintýrið svokalla þar sem byggja átti upp veigamikið aksturíþróttasvæði. Sá draumur dó en það kemur ekki í veg fyrir að ökutæki muni geysast um svæðið þó undir öðrum formerkjum sé. Á svæðinu er nú unnið að gerð ökugerðis þar sem ungir ökunemar verða þjálfaðir í framtíðinni í því skyni að gera þá að betri og öruggari ökumönnum þegar þeir halda út í umferðina með nýtt ökuskírteini.
Félagið Ökugerði ehf stendur að framkvæmdinni. Það er í meirihlutaeigu Nesbyggðar ehf en stefnt er að því fá fleiri áhugasama aðila inn í félagið. Að sögn Ómars Ingasonar, talsmanns félagsins, hafa t.d. tryggingafélögin sýnt verkefninu mikinn áhuga enda eiga þau mikilla hagsmuna að gæta, eins og þjóðfélagið allt, takist að draga úr umferðarslysum meðal ungra ungamanna. Talað er um að umferðarslys kosti þjóðarbúið um 50 milljarða á ári sem eru 2,5% af þjóðarframleiðslu.
„Bara með 20% fækkun slysa af því að þjálfa ökumenn værum við að spara 10 milljarða. Reynslan af þessu erlendis sýnir að svona svæði skilar sér í mikilli fækkun slysa. Það er búið að tala um það í 40 ár að gera þetta en hefur aldrei komist jafnlangt og nú,“ segir Ómar.
Ökugerðið við Reykjanesbraut er það fyrsta sinnar tegundar hér á landi í þessari mynd. Nú um áramótin tóku gildi lög sem kveða á um að ungir ökunemar fái þjálfun í akstri og umferðaröryggi á sérstöku svæði. Ekkert slíkt svæði er hins vegar til staðar. Upphaflega áttu lögin að taka gildi 2008. Ríkið kemur þó ekki að þessu verkefni heldur er um einkaframkvæmd að ræða.
Ómar var inntur eftir því hvort verkefnið ætti sér erlenda fyrirmynd.
„Já, við erum í samstarfi við FDM í Danmörku sem er FBÍ þeirra Dana. Þeir reka stærsta svæðið af þessum toga þar í landi. Ökugerðið okkar er unnið í samvinnu við þá og eftir stöðlum frá þeim. Eins eru lögin um ökugerði að danskri fyrirmynd,“ svarar Ómar.
„Við byrjuðum þarna 3ja febrúar og stefnum á að ljúka fyrsta áfanga í september á þessu ári en síðari áfanganum ári síðar. Fjárfestingin er um 650 milljónir. Það hefur gengið ágætlega að fjármagna þetta og verið er að vinna í frekari fjármögnun. Meðal annars liggur fyrir lánaumsókn hjá Byggðastofnun,“ segir Ómar.
Reiknað með að amk. 10 starfsmenn verði við ökugerðið að verki loknu en 30 manns vinni við verkið á framkvæmdatímanum.
Samhliða þjálfun nýrra ökumanna mun svæðið einnig geta þjónað þjálfun í neyðarakstri og fleira fyrir lögreglu, sjúkraflutningamenn og björgunarsveitir sem og atvinnubílstjóra. Þá mun ökugerðið verða tilvalinn staður fyrir prófanir s.s ökutækja og hjólbarða en þarna verða malarvegir, hálkubrautir, gatnamót, svigbrautir og bremsuæfingasvæði.