Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fyrirmyndarfélög í Reykjanesbæ
Þriðjudagur 15. apríl 2003 kl. 09:41

Fyrirmyndarfélög í Reykjanesbæ

Keflavík, íþrótta- og ungmennafélag og Íþróttabandalag Reykjarnesbæjar fengu í gær fyrstu viðurkenningar vegna gæðaverkefnis ÍSÍ er heitir „fyrirmyndarfélag ÍSÍ“. Þrjár deildir innan félagsins höfðu uppfyllt þau skilyrði, fyrstar allra deilda á landinu, sem þurfti til að geta kallað sig fyrirmyndarfélag innan ÍSÍ en það er fimleikadeild, badmintondeild og sunddeild. Athöfnin var haldin í félagsheimili Keflavíkur að Hringbraut 108 og voru það fulltrúar hverrar deildar fyrir sig ásamt formanni Keflavíkur og ÍRB sem tóku við viðurkenningum frá fulltrúum ÍSÍ. Að athöfn lokinni voru léttar veitingar í boði.

Fyrirmyndafélagið er gæðaverkefni ÍSÍ sem tekur fyrir þá þætti sem gott félag þarf til hliðsjónar til að geta starfað sem best. Með því að taka upp gæðaviðurkenningu fyrir íþróttastarf geta íþróttafélög eða deildir látið gera úttekt á starfsemi sinni eða hluta hennar miðað við þær gæðakröfur sem íþróttahreyfingin gerir. Standist þau þessar kröfu fá þau viðurkenningu á því frá ÍSÍ.

ÍSÍ setti gang vinnu við gæðaverkefni árið 1997. Í lok árs 2001 var síðan gefin út handbók og henni dreift til allra íþróttafélaga og deilda á Íslandi. Mörg félög hafa í framhald af því sett í gang stefnumótunarstarf sem felur í sér að uppfylla þær kröfur sem getið er um í handbókinni.

Íþróttabandalag Reykjanesbæjar gerði enn betur því þeir kynntu sér þessa stefnu í upphafi og ákváðu í framhaldi af því að búa til verkefni sem fékk nafnið Betra félag - betri deild. Það átti að vera fyrsta skrefið í átt að því að sækja um þessa viðurkenningu. Mörg félög og deildir vildu hins vegar stíga skrefið til fulls og þar er Keflavík í fararbroddi þar sem þrjár deildir hjá þeim uppfylla þau skilyrði sem sett eru í þessu verkefni.

Líklegur ávinningur af því að gerast fyrirmyndafélag er margvíslegur. Félög og deildir sem hljóta viðurkenningu ættu að eiga auðveldara með að afla sér stuðnings frá sveitafélögum sínum og öðrum stuðningsaðilum, sem frekar vilja leggja nafn sitt við fyrirmyndafélög en önnur félög. Lítil félög og deildir geta hugsanlega fengið stuðning frá sveitafélagi til að verða sér úti um viðurkenningu. Stór félög og deildir þurfa ef til vill ekki slíkan stuðning en geta hugsanlega fengið styrk frá sveitarfélagi vegna þess að þau hafa náð í viðurkenninguna. Tími og fjármunir félaganna munu því nýtast betur. Foreldrar munu væntanlega frekar senda börnin sín til fyrirmyndafélaga en annarra félaga. Þetta ætti að vera félögum hvatning til að bæta starf sitt og uppfylla gæðakröfurnar, til að geta fengið viðurkenningu. Afraksturinn verður væntanlega betra íþróttastarf og betri ímynd hreyfingarinnar.

Til að öðlast gæðaviðurkenningu ÍSÍ þurfa félög eða deildir að uppfylla nokkur skilyrði.
Eftirfarandi þætti innan íþróttafélagsins/deildarinnar þarf að skoða:
· Skipulag félagsins og deildir.
· Umgjörð þjálfunar og keppni
· Fjármálastjórn
· Þjálfaramenntun
· Félagsstarf
· Foreldrastarf
· Fræðslu og forvarnarstarf
· Jafnréttismál
· Umhverfismál

Innan hvers þáttar geta svo verið fleiri undirþættir sem huga verður að áður en sótt er um gæðaviðurkenningu.
· Framfylgjum við stefnuyfirlýsingu ÍSÍ um íþróttir barna og unglinga, þjálfaramenntun, forvarnir og fíkniefni?
· Framfylgjum við reglugerð ÍSÍ um bókhald?
· Eru markmið félagsins/deildarinnar skýr og mælanleg?
· Eru markmið og leiðir félagsins/deildarinnar skilgreind?

Gott er að spyrja sig spurninga þegar meta á stöðu og stefnu íþróttafélagsins/deildarinnar.
· Hver er staðan í dag?
· Hvað gerum við vel?
· Hvað getum við gert betur?
· Hver er óska staðan?

Þessi handbók sem gefin var út í lok árs 2001 er nú komin á netið á slóðinni http://www.isisport.is/isinew/um_isi/fyrirmyndarfelag/forsida.asp
Þar má finna frekari upplýsingar um þetta verkefni og söguna á bak við það.

Þá hefur Íþróttabandalag Reykjanesbæjar sett á heimasíðu sína töluvert af upplýsingum um þessi tvö verkefni http://www.irb.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024