Forsetaheimsókn: Fjörmikið og fjölbreytt samfélag í Reykjanesbæ
Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid komu í tveggja daga opinbera heimsókn til Reykjanesbæjar 2. og 3. maí. Í heimsókninni komu þau víða við. Á fyrri degi heimsóknarinnar var boðið til menningarhátíðar í Stapa. Þar flutti forseti ávarp sem má lesa hér að neðan.
Bæjarstjóri,
forseti bæjarstjórnar,
aðrir góðir gestir
Fyrir hönd okkar Elizu þakka ég kærlega þær góðu móttökur og þann hlýhug sem við höfum notið hér í Reykjanesbæ. Við hlökkum til að eiga áfram ljúfa stund með ykkur hér í Stapa, hlusta á vel flutta tónlist og blanda geði við þá sem hingað eru komnir. Og vissulega er vel við hæfi að hlýða á ljúfa tóna á þessum stað, hitta fólk, stinga saman nefjum og sjá hvað úr verður.
„Ég bauð þér á ball í Stapa, á því var engu að tapa – ég held ég hafi aldrei lent í öðru eins.“ Þannig söng Einar Júlíusson, Einsi Júll, á sínum tíma við lag og texta Karls Hermannssonar. Auðvitað þarf ekki að fara mörgum orðum um þau djúpu áhrif sem tónlistarmenn af þessum slóðum hafa haft um land allt. Þetta ágæta félagsheimili var vígt árið 1965. Þá þegar höfðu Hljómar stigið fram á sjónarsviðið og þremur árum síðar, árið sem ég kom í heiminn, voru þeir heldur betur búnir að slá í gegn. Þá var skipt yfir í hægri umferð og það voru Hljómar sem sungu til minnis fyrir landann: Varúð til vinstri – hætta til hægri. Og Hljómar áttu plötu ársins. Rúnar Júlíusson – Rúni Júl – Engilbert Jenssen og Shady Owens skiptu þar með sér söngnum, Gunnar Þórðarson var valinn lagahöfundur ársins og Þorsteinn Eggertsson átti bestu textana.
Þetta var árið ´68, fyrir rétt rúmri hálfri öld. Fleiri mætti auðvitað nefna, Magnús Kjartansson og Jóhann G. Jóhannsson, Magnús Þór, Jóhann Helgason og svo marga aðra, og huga líka að klassískri tónlist. Héðan er Bylgja Dís Gunnarsdóttir sópransöngkona og Veigar Margeirsson kvikmyndatónskáld sem hefur haslað sér völl í Hollywood. Er þá fjölmargra enn ógetið og gróskan er ennþá mikil á þessum slóðum. Það fundum við hjónin og heyrðum í Rokksafninu og í tónlistarskólanum fyrr í dag.
Hvað réð og ræður þessari miklu sköpun? Hvað olli því að rokk og ról hljómaði hærra hér en víða annars staðar? Nálægðin við Völlinn skipti að sjálfsögðu miklu. Kanaútvarp og sjónvarp náðist hér best og allt hafði þetta sitt að segja fyrr á tíð. Hér var umheimurinn í seilingarfjarlægð, með öllu sínu frelsi, fjölbreytni og ferskum straumum.
Sambúðin við varnarliðið í herstöðinni hafði líka önnur áhrif á mannlífið. Ekki verður það allt rakið í þessu ávarpi en nefnum til dæmis að uppi á Miðnesheiði var hægt að spila körfubolta. Þangað fóru menn til æfinga og keppni og eflaust réð þetta nokkru um velgengni Suðurnesjamanna í þeirri íþrótt í áranna rás.
Í Keflavík og Njarðvík hafa margar íþróttahetjur gert garðinn frægan og er vonlaust að reyna að geta þeirra allra. Guðni Kjartansson fór fyrir gullaldarliði Keflvíkinga í knattspyrnu, Olgu Færseth var margt til lista lagt í knattleikjum, Anna María Sveinsdóttir og Björg Hafsteinsdóttir voru goðsagnir í körfuknattleik og minnast má Njarðvíkingsins Örlygs Sturlusonar, sem lést fyrir aldur fram en var einstakt efni í þeirri íþrótt. Nefnum líka sundkappana Eðvarð Þór Eðvarðsson og Eydísi Konráðsdóttur, Ragnheiði Söru Sigmundsdóttur í Crossfit og úr heimi fatlaðra koma nokkrir í hugann, Jóhann Rúnar Kristjánsson, Geir Sverrisson og Már Gunnarsson sem sameinar velgengni í heimi íþrótta og tónlistar.
Nú síðdegis nutum við hjónin þess svo að fylgjast með íþróttaæfingum barna hér í bæ, og meira bíður á morgun. Í öflugu sveitarfélagi er leitast við að efla ungmenni á alla lund, leyfa þeim að njóta sín á eigin forsendum, gera þeim kleift að sýna hvað í þeim býr, ekki síst í íþróttum og listgreinum. Þegar rétt er á málum haldið eykst þá sjálfstraust og heilbrigt stolt barna og ungmenna, virðing fyrir öðrum, skilningur á mikilvægi þess að vinna saman og sömuleiðis á því samhengi sem er á milli þess að leggja sig fram og ná árangri. Í þessum efnum er framtíðin björt í Reykjanesbæ og hún stendur á traustum grunni. Í síðasta mánuði fagnaði Ungmennafélag Njarðvíkur 75 ára afmæli og næsta október nær Keflavík, íþrótta- og ungmennafélag 90 ára aldri.
Gott er einnig að vita til þess að hér í bæ er hugað að heilsu eldri borgara. Í Reykjanesbæ er stefnt að heilsueflandi samfélagi, frá vöggu til grafar, og kannski fræðumst við frekar um það á morgun á Nesvöllum þar sem öldruðum er búið öruggt ævikvöld, á heimilislegum, hlýjum og virkum dvalarstað.
Ágætu áheyrendur! Á fyrri öldum léku ungir eða aldnir sér fráleitt við gítarspil eða boltaleik. Lífsbaráttan var hörð hér eins og annars staðar á landinu. Víst var sjórinn gjöfull en landgæði lítil, hrjóstrug jörð og brunnið hraun. Fyrir um átta öldum brast auk þess á með eldsumbrotum, Reykjaneseldum, og lögðust þá mörg býli í eyði.
Já, öldum saman bjó fólk hér við þröngan kost. Kynslóð fram af kynslóð breyttust lífshættir lítt, allt frá landnámi og í raun fram til þess að nútíminn knúði dyra fyrir rétt rúmri öld eða svo. Útvegur var undirstaðan. „Fast þeir sóttu sjóinn og sækja hann enn,“ var sagt með sönnu um Suðurnesjamenn. En nú er allt breytt.
Hverfum um skeið til upphafsins, hverfum aftur til landnáms. „Herjólfur hét maður Bárðarson, Herjólfssonar, frændi Ingólfs landnámamanns. Þeim Herjólfi gaf Ingólfur land á milli Vágs og Reykjaness.“ Þannig greinir Sturlubók Landnámu frá Herjólfi Bárðarsyni, landnámsmanni í Höfnum. Af honum segir annars fátt en sonur hans Bjarni hefur frekar lifað í þjóðarsögunni, foringi þeirra norrænu manna sem fyrstir litu land vestan Grænlands. Ekki vildi hann þó drepa þar niður fæti – sú vegsemd féll öðrum í skaut – og hásetum Bjarna fannst hann full gætinn þarna. Á hinn bóginn má draga þann lærdóm af sögunni að varkárni og hugrekki skuli fara saman hönd í hönd. Dirfsku þurfti til að leggja á lítt þekkt eða ókunn höf – um það má fræðast í Víkingaheimum hér í grennd – en forsjálni er líka dyggð sem við megum hafa í heiðri hér á Íslandi. Það segir gömul saga og ný, á þessum slóðum og hvarvetna.
Æ sér gjöf til gjalda. Þar er önnur þaulreynd speki, að sá sem gefur gjöf vænti einhvers í staðinn. Steinunn gamla hét kona, frænka Ingólfs Arnarsonar. Hún mun hafa dvalið hjá honum einn vetur í Reykjavík en svo gaf höfðinginn henni mikið land, Rosmhvalanes frá Hvassahrauni að Ósabotnum. Steinunni mun hafa þótt vissara að eiga frekar kaup kaups, í það minnsta að forminu til, og gaf Ingólfi í staðinn flekkótta kápu, ef marka má Hauksbókargerð Landnámu.
Þannig hófst landnám á þessum slóðum, góðir gestir. Eða hvað? Fyrir nokkru voru grafnir upp rústir skála í Vogi. Vera má að hann hafi verið reistur fyrir aldamótin 800, löngu áður en Herjólfur og Steinunn gamla komu til sögunnar. Og þetta virðist ekki hafa verið býli heldur ver – veiðistöð. Eftir hverju var að slægjast? Þeir sem þarna höfðust við voru væntanlega helst á höttunum eftir rostungi. Rosmhvalur er annað heiti rostungs og örnefni og beinaleifar sýna að hér hefur sú skepna legið við fjörur í stórum stíl – þangað til mennirnir komu. Rostungurinn var bæði auðveld bráð og dýrmæt, skjótfenginn gróði. Húðin var nýtt í klæði, hús og tól, kjötið etið og fitan brædd og borin á skipin. Mestur auður lá þó í tönnunum. Þær þóttu gulls ígildi, gefnar höfðingjum, biskupum og konungum.
Eflaust voru þrælar fluttir hingað til að vinna í þessari stóriðju. Hún gaf örugglega mikið af sér um skeið en að því kom að rányrkjunni lauk. Vermennirnir héldu á braut, þeir hverfa úr sögunni en af hátterni þeirra er samt sitthvað hægt að læra. Vissulega má ekki vega og meta allar gjörðir fyrr á tíð eftir mælikvarða okkar daga en rányrkja og græðgi, léttúð og hirðuleysi um framtíðina; þetta eru víti til að varast. Við eigum að vita betur núna.
Framtíðin, gott fólk, það er lykilorðið. Mikið var gaman að vera við setningu Barnamenningarhátíðar fyrr í dag! Þar var þemað skýrt: Hreinn heimur – betri heimur, og áhersla lögð á endurnýtingu og leiðir til að sporna gegn mengun nær og fjær.
Og lítum því undir lokin fram á veg. Völlurinn á Miðnesheiði mótar enn mannlífið hér þótt með öðrum hætti sé en þegar Kaninn var og hét. Síðustu ár hefur ferðamönnum og flugferðum hingað til lands fjölgað stöðugt og sífellt fleiri sinna þessum atvinnuvegi. Mörg spennandi tækifæri hafa skapast, um það fræddumst við í dag og gerum áfram á morgun, með heimsókn á Ásbrú þar sem nýsköpun er í öndvegi. Nú þegar höfum við einnig kynnt okkur Reykjanesjarðvang, hvernig jarðsagan er sögð þar og hvernig við getum gert okkur mat úr hinu lifandi landslagi Reykjanesskagans, laðað að ferðamenn og fyrirtæki og leitað leiða til nýtingar auðlinda með sjálfbærni og náttúruvirðingu að leiðarljósi.
Í Reykjanesbæ búa nú rúmlega 19 þúsund manns. Sveitarfélagið er orðið það fjórða stærsta á landinu. Óvíða eiga íbúarnir eins ólíkan bakgrunn. Ekki geta allir rakið ættir sínar til Herjólfs Bárðarsonar eða Steinunnar gömlu. Um fjórðungur bæjarbúa er af erlendum uppruna, þar af um helmingur frá Póllandi. Í leikskólunum tíu og grunnskólunum sex innan bæjarmarkanna heyrast yfir 30 tungumál. Því er spáð að um miðja öldina búi jafnvel yfir 50 þúsund manns á Suðurnesjum öllum, rúmur helmingur þeirra af erlendu bergi brotnir.
Hér í Reykjanesbæ getur fólki af mismunandi uppruna lynt saman. Hér geta þeir komið sér fyrir sem vilja lifa í sátt og samlyndi við náungann. Vissulega hafa hraðar breytingar ætíð áskoranir í för með sér, jafnvel árekstra og ágreining sem leysa þarf úr. Auk þess þarf að hjálpa fólki sem vill setjast að hér, hjálpa því að læra íslensku og hvetja til þátttöku í samfélaginu, benda á tómstundaiðju fyrir börn og ungmenni, taka nýja íbúa inn í karlakóra og kvennakóra, björgunarsveitir og félagasamtök. Í Miðstöð símenntunar sáum við hvernig unnið er að þessum málum í byggðarlaginu og geta aðrir eflaust lært margt af því góða starfi sem hér er unnið.
Kæru gestgjafar í Reykjanesbæ! Léttur í lundu ég lagði af stað, og er það enn. Fyrir hönd okkar Elizu ítreka ég þakkir okkar fyrir þá góðvild og þann hlýhug sem þið hafið þegar sýnt okkur. Við óskum ykkur öllum, íbúum þessa fjörmikla og fjölbreytta samfélags, velfarnaðar á öllum sviðum.
Myndir af vef forsetaembættisins.